11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2958 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

248. mál, samkomudagur Alþingis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hygg nú raunar að það sé einsdæmi á Alþingi að uppi séu samtímis í báðum deildum um sama mál þáltill., tillögur sem þurfa þó að fara á milli deilda. Ég hefði viljað spyrja hvort hv. flm. gætu bent á hliðstæðu þess. Svo koma menn hér upp í ræðustól og þvo hendur sínar eins og Pílatus forðum og fullyrða að það sé ekki gert vegna þess að menn vantreysti forseta Sþ. Ja, fyrr má nú vera.

Ég þarf ekki að spyrja hvers vegna þessi málatilbúnaður er hér uppi. Og þjóðin þarf ekki að spyrja um það. Það er sýnilegt að hér er kominn nýr meiri hl. á Alþingi, (Gripið fram í: Álmeirihlutinn.) enda hefur ekki farið neitt leynt hver er hinn nýi leiðtogi þrístirnisins: Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. (Gripið fram í.) Svo kemur hæstv. félmrh. og segir: Við viljum taka þátt, við viljum láta kalla saman þingið vegna þess að það þarf að taka á efnahagsmálum eftir kosningar. Hver er það í þessu húsi sem heldur að það geti beðið fram yfir næstu kosningar, hvað þá til hausts eins og nú er stefnt að? Nei, það þarf ekki að fá svör við því hér á hv. Alþingi hvað er á bak við. Það er líka hægt að vitna í ummæli ýmissa þm. og ráðh. því til staðfestingar hvað er á bak við. Það eru tvennar kosningar, kannske til að bjarga þeim sem detta út í fyrri kosningunum inn aftur. Ég er ekki viss um að það verði ávinningur fyrir þá í kosningum sem bera ábyrgð á því, ef verðbólgan heldur áfram að vaxa, þegar atvinnuleysi fer að skella yfir, því að mörg fyrirtæki eru nú stöðvuð og eru að stöðvast vegna þess að menn fást ekki til að taka á þessum málum. Eru líkur fyrir því að hv. þm. Alþb. verði frekar tilbúnir að taka á þessum málum eftir kosningar, fyrri kosningar? Eða ætla þeir að bíða fram til hausts? Því að í fyrsta lagi verður ríkisstj. eftir síðari kosningar komin, ef að vanda lætur, seinni partinn í ágúst eða í sept., því að það sjá allir að ekki verður kosið fyrr en seinni partinn í júlí eða a.m.k. eftir miðjan júlí, þó að fyrri kosningarnar fari fram 23. apríl.

Nei, hér þýða engin látalæti, engin látalæti um það að hverju er stefnt. Og það þýðir ekki fyrir hv. þm. Matthías Bjarnason, 1. þm. Vestf., að þvo hendur sínar eins og Pílatus forðum um að það hefði ekki verið vegna þess að hann treysti ekki forseta Sþ. Þetta sjá allir. Það er auðvitað óþarfi að ræða þessi mál hér meira. En ég vil að endingu enn lýsa ábyrgð á þá menn, sem ætla sér að stefna þjóðinni út í tvennar kosningar, þar sem það er sýnilegt að ekki verður hægt að taka á þeim málum, atvinnu- og efnahagsmálum, eins og þarf fyrr en að þeim loknum.