11.03.1983
Sameinað þing: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

231. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er ekki fyrsta umr. um þetta mál, sem hér ber á góma, sem nú fer fram. Það hefur komið fyrir hér á hv. Alþingi alloft og hv. alþm. hafa átt hlut að þeim umr. Ég hef hverju sinni fagnað því þegar þetta mál hefur komið hér á dagskrá, því að það er svo sannarlega ástæða til að ræða þetta mál hér á hv. Alþingi. Ég hefði kosið að hv. frsm., hv. 10. þm. Reykv., hefði gert tilraun til þess hér áðan, að taka málefnalega á þessu þýðingarmikla máli, gera einhverja grein fyrir þeim tillöguflutningi sem hér liggur fyrir og hann þóttist vera að mæla hér fyrir fyrir hönd meiri hl. hv. atvmn. Sþ. Ég held að hún muni vitna nú og framvegis um þá málefnafátækt, sem að baki býr þeim tillöguflutningi sem hér er, sú ræða sem hér var haldin áðan. Þar var ekki reynt að taka efnislega á máli. Það var hlaupið yfir það í stíl, sem við kölluðum einu sinni Heimdallarstíl og heyra má ennþá, og það er ekki alveg fráleitt að hv. 10. þm. Reykv. sé eitthvað kunnugur slíkum stílbrögðum, en ég tel að slíka málafylgju og slíkan málflutning í hagsmunamáli, sem varðar Íslendinga jafnmikið og þetta, eigi ekki að viðhafa. Það kann þó að vera að ég sjái ástæðu til þess, áður en ég lýk máli mínu hér í dag, að koma að einstaka atriði úr máli hv. 10. þm. Reykv., sem tekið hefur að sér fyrir hönd meiri hl. hv. atvmn. að mæla fyrir þessu þskj., sem er á einni bls. með grg. upp á 10 eða 15 línur eða svo.

Hér fyrir þinginu liggja tvö mál varðandi Alusuisse og ÍSAL. Annað þeirra er umrædd till. hv. atvmn. upp á eina blaðsíðu knappa. Hitt er 204. mál Nd. Alþingis, sem hefur ekki enn komið hér til umr., en tíundað hefur verið í fjölmiðlum að það væri nokkuð gilt verk, sem þar er saman dregið, og það hefur verið spurt um það sérstaklega hér af hv. alþm. úr röðum Alþfl. hvað kostað hafi að taka saman þetta málsskjal, rétt eins og það væri aðalatriði máls, hvað það kostaði að koma á framfæri við hv. Alþingi Íslendinga meginefni í þessu stóra máli. Það einkennir nefnilega það lið, sem stendur að baki þessari þáltill., að það forðast að taka efnislega á þessu máli. Annaðhvort er það vegna slæmrar samvisku eða þá vegna vankunnáttu, nema hvort tveggja sé, svo að notað sé frægt orðalag, sem heyrðist einu sinni frá hv. þm. sem situr hér stundum í horni en er nú þaðan farinn.

Þessi tvö þingmál endurspegla gerólík viðhorf og ólíkt stöðumat stjórnmálaflokkanna í landinu á samskiptum við Alusuisse vegna álversins í Straumsvík. Alþb. telur Alusuisse hafa sýnt óbilgirni og hafnað sanngirniskröfum okkar það lengi að við svo búið megi ekki lengur standa. Því sé það eðlilegt að leiðrétta samninga við Alusuisse einhliða til þess að tryggja lágmarkshagsmuni Íslendinga. Hinir flokkarnir þrír vilja halda áfram samningaþófi við auðhringinn í fullkominni óvissu um niðurstöðu, og til þess að eiga kost á að halda slíku samningaþófi áfram vilja þeir gefa í forgjöf stóra hagsmuni til þess eins að Alusuisse fáist til viðræðna. Á sama tíma og staða mála er slík, þá er öllum spjótum hér á hv. Alþingi af hálfu talsmanna þessara flokka beint að mér sem stjórnvaldi í þessu máli, þ.e. inn á við, en málstaður og viðbrögð Alusuisse eru gerð að algeru aukaatriði í þessu máli og fegruð á ýmsa lund.

Þann 4. febr. s.l., daginn eftir að ráðherrar Framsfl. í ríkisstj. höfðu hafnað tillögum okkar Alþb.-manna um að grípa til einhliða aðgerða til að leiðrétta raforkuverðið við ÍSAl., til þess að færa samningana í átt að upphaflegum forsendum, þá er skrifað í dagblaðinu Tímanum: „Sverfur til stáls í ríkisstjórninni í álmálinu. Steingrímur hefur lagt fram sérstakar tillögur sem svar við tillögum Hjörleifs Guttormssonar um einhliða aðgerðir.“

Ég vakti athygli á því þá og ég vek athygli á því hér aftur að það hefði betur sorfið til stáls á öðrum vettvangi í þessu máli. Í þessari grein í Tímanum þann 4. febr. er vitnað til formanns Framsfl. um það, að þessar tillögur séu mjög í anda þeirra tillagna sem fulltrúi Framsfl. í álviðræðunefnd lagði fram á sínum tíma, og að þar sé um að ræða eins konar mótleik við tillögum Alþb. um einhliða aðgerðir. Þannig er staðið að þessu máli af samstarfsmönnum Alþb. í ríkisstj., sem nú hafa slegist í hópinn með stjórnarandstöðunni í þessu máli og standa að þeim tillöguflutningi sem hér er til umr.

Frv. okkar Alþb.-manna um einhliða leiðréttingu raforkuverðsins til álversins í Straumsvík, sem er 204. mál Nd. Alþingis, er þess efnis í meginatriðum, að þar er gert ráð fyrir hækkun raforkuverðsins frá núverandi 6.45 millum fyrir kwst. í 12.5 mill á kwst. strax og lög hafa verið samþykkt um það hér á hv. Alþingi, þ.e. um það bil tvöföldun. Í framhaldi af því verði reynt að ná samningum við Alusuisse um endurskoðun á raforkuverði og það er tilgreint á hvaða forsendum sú endurskoðun skuli byggð. Það er í fyrsta lagi á þeirri grundvallarstefnu, sem lögfest er í 11. gr. laga nr. 59/1965 um Landsvirkjun, að raforkuverð í samningum til langs tíma við stóriðjufyrirtæki megi ekki valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið. Í öðru lagi á raforkuverði því sem álver annars staðar í heiminum greiða, í þriðja tagi á framleiðslukostnaði raforku hér á landi og í fjórða lagi á heimsmarkaðsverði á áli. Fari hins vegar svo, að Alusuisse vilji ekki við okkur semja um svo sanngjarnar og sjálfsagðar kröfur varðandi verðlagningu á raforku, þá er gert ráð fyrir því í frv. okkar Alþb.-manna, sem flutt er í Nd. af öllum þm. flokksins þar, að stjórn Landsvirkjunar skuli með stoð í þeim lögum sem frv. gerir tillögu um ákvarða með gjaldskrá raforkuverðið til álversins í Straumsvík á bilinu 15–20 mill á kwst. frá og með 1. jan. 1984, og það verð eigi að breytast í samræmi við breytingar á skráðu heimsmarkaðsverði á áli, þ.e. það verði tryggt að við fáum hér fram þreföldun á raforkuverði til álversins innan árs. Þannig verði það tryggt að framleiðslukostnaðarverð fáist fyrir raforkuna, sem seld er til álversins í Straumsvík, og því ástandi verði aflétt að almenningur í landinu þurfi að greiða stórar fjárfúlgur með hverri einustu orkueiningu, sem seld er til þessa stórnotanda, sem fær hátt í helminginn af framleiddri raforku í landinu. Ég vænti þess að þjóðin setji sig þannig inn í þessi mál, að hún geti á efnislegum forsendum borið saman tillöguflutning okkar Alþb.manna annars vegar og hins vegar þá þáltill. sem hér liggur fyrir frá fulltrúum annarra þriggja flokka. Ég óttast ekki þann dóm.

Þetta frv., sem Framsfl. hafnaði að standa að innan ríkisstj. og þingflokkur Framsfl. hafði þá um fjallað, byggir á því mati að forsendur fyrir rafmagnssamningnum vegna álversins séu brostnar. Því hafi Íslendingar fullan rétt á að breyta forsendum samningsins í átt til upphaflegrar stöðu hans og í samræmi við þróun orkuverðs til áliðnaðar í heiminum og aðrar breytingar í efnahagsþróun heimsins. Þetta er skýr tillaga, reist á mjög traustum grunni og víðtækum undirbúningi, sem er að finna í því frv. sem hér var lagt fram um daginn af okkur Alþb.-mönnnum í Nd. Alþingis.

Till. fulltrúa þingflokkanna í atvmn. meiri hl. atvmn., sem svo er kallaður, undir forustu Eggerts Haukdals, er allt annars eðlis og raunar fullkomin andstæða við stefnumörkun Alþb. í þessu máli, stefnumörkun sem ég hélt lengi vel að nyti stuðnings allrar ríkisstj. — og tók þá mið af samþykktum hennar og yfirlýsingum og einnig með tilliti til þeirra viðbragða sem fram hafa komið hjá Alusuisse frá því að viðræður hófust við auðhringinn í lok árs 1980. En eins og þið vitið, hv. alþm. hefur þáltill. sem betur fer í þessu tilviki takmarkað gildi, en nógu slæmt er samt að hún skuli fram komin hér á hv. Alþingi, hvað þá ef Alþingi færi að samþykkja hana.

Það má heita vinnuheiti þessa dæmalausa þinggagns: „Málið úr höndum iðnrh.“ Það er vinnuheiti þessarar þáltill. Það er mikið gert úr því að meginatriðið sé að með till. skuli málið tekið úr mínum höndum sem iðnrh. og falið nefnd, sem sjálf á að kjósa sér formann. Þetta mætti eitt út af fyrir sig teljast broslegt, broslegur málabúnaður, ef ekki héngi annað og verra á spýtunni. Samþykkt af þessu tagi er út af fyrir sig markleysa, þar sem hún stangast við stjórnskipunarlög og lög um Stjórnarráð Íslands. Við skulum líta ögn nánar á það atriði. Við skulum líta nánar á stjórnskipulegt gildi þál. af því tagi sem hér liggur fyrir til umr., um skipan nefndar til að eiga viðræður við Alusuisse.

Í 14. gr. stjórnarskrárinnar segir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Í lögum nr. 73 frá 1969 um Stjórnarráð Íslands eru ákvæði um skiptingu starfa milli ráðuneyta og greiningu stjórnarráðsins í ráðuneyti. Í auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96 frá 1969 er stjórnarmálefnum skipt á milli rn. Þar segir að mál er varða iðju og iðnað heyri undir iðnrn. Málefni álversins í Straumsvík heyra samkv. þessu undir iðnrh., sem ber að óbreyttum lögum stjórnskipulega ábyrgð á meðferð þessa máls. Forræði málsins verður því ekki breytt með þál. Alþingi hefur a.m.k. einu sinni áður reynt að skipa málefni, sem ákveðið var í lögum, með þál. Sú ráðstöfun leiddi til dómsmáls, sem kom til kasta Hæstaréttar og fékk þar sinn úrskurð. Þingsályktanir geta þannig ekki breytt lögum. Þeir sem virðast telja það sáluhjálparatriði að losa Alusuisse undan því að þurfa að eiga samskipti við iðnrn. og mig sem iðnrh. hefðu því átt að flytja um það frv. til l. eða bera fram vantraust á mig sem ráðh.

Það er vissulega fróðlegt, herra forseti, að sjá atriði í grg. með þáltill. er varða minn hlut að þessu máli. Sú grg. er ekki löng, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, um þennan þátt:

„Að undanförnu hefur komið í ljós að iðnrh. hefur ekki auðnast að ná víðtækri samstöðu um hagsmunamál þjóðarinnar gagnvart Alusuisse. Ekkert tillit hefur verið tekið til ábendinga annarra í máli þessu og ráðherra lagt fram þmfrv. í Nd. Alþingis um einhliða aðgerðir. Þar með hefur ráðh. siglt málinu inn á brautir sem enginn sér fram úr.“

Þetta er í rauninni allur efnisstuðningurinn, öll efnisatriðin í þessari grg. með þessari mikið umræddu þáltill. Ekki er mikið kjöt á henni og var ekki miklu bætt við hér af hv. 10. þm. Reykv., sem var frummælandi fyrir till. hér áðan. En það er vert að líta aðeins á þau atriði sem hér eru tíunduð í þessari grg. Hefur af hálfu iðnrn. ekki verið reynt að stilla saman í þessu stóra máli? Ég bið hv. alþm. að líta yfir þingræður um þessi mál, þ. á m. ræðu mína í þingtíðindum frá 28. okt. s.l., þar sem ég fór talsvert yfir gang þessara mála að gefnu tilefni, þegar fram fór umr. hér um till. sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse, sem er uppistaðan í þeirri till. sem hér er komin til umr. frá svokölluðum meiri hl. hv. atvmn. Ég minni á það, að í júlímánuði 1981, þegar það lá fyrir eftir ítarlega athugun endurskoðenda á yfirverði á súráli til álversins í Straumsvík, að þar var um stórfellt yfirverð að ræða á árunum 1974 fram á mitt ár 1980, upphófst mikið fjaðrafok og umr. hér í fjölmiðlum. Og það leyndi sér ekki hverjir það voru sem vildu nú gera niðurstöðu þessarar endurskoðunar sem tortryggilegasta. Þar fór fyrir málgagn, sem þá a.m.k. var talið víðlesnasta málgagn í landinu, Morgunblaðið, og fór geyst til þess að gera þessa niðurstöðu tortryggilega og bar ekki í fyrsta sinn blak af auðhringnum og tók undir hagsmunamál er hann varðar. En þá tókst að fá, þrátt fyrir harðar deilur og sviptingar, fyrst Alþfl. til samstarfs um þetta mál inn í álviðræðunefnd og síðan Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, sem tilnefndi þar fulltrúa ásamt fulltrúum ríkisstjórnaraðilanna. Þarna var fenginn vettvangur allra stjórnmálaflokka, allra þingflokka og aðila að ríkisstj. í þessu máli, sem fengu öll þau gögn er máli skiptu um þetta, tækifæri til þess að fjalla um málið og ræða það á fundum sínum, sem urðu hátt í 60, ef ég man rétt, áður en Framsfl. rauf þennan samstarfsvettvang þann 6. des. s.l. Og þegar þetta liggur fyrir, þessi samstaða sem þarna var sköpuð með öllum stjórnmálaflokkum í landinu, samstaða sem rofin var af stærsta aðilanum að ríkisstj. í des. s.l., þá koma þessir menn hér með tillögu á hv. Alþingi og bera mig sökum um það að hafa ekki leitast við að stilla saman þjóðina í þessu máli og stjórnmálaflokka í landinu. Það er mikið hugmyndaflug hjá þessum hv. talsmönnum.

Ég hef rifjað það upp hverjir rufu þennan vettvang. En þegar það lá fyrir lýstu talsmenn þingflokka stjórnarandstöðunnar því yfir hér á hv. Alþingi, að þeir teldu að þessi viðræðunefnd þjónaði ekki lengur tilgangi og þeir litu svo á, að hún væri hætt störfum og þeir fulltrúar, sem þeir hefðu í hana tilnefnt, þó að þeir drægju þá ekki út með formlegum hætti eins og þingflokkur Framsfl. gerði með sérstakri þingflokkssamþykkt. Það er því dálítið einkennilegt þegar hv. þm. Friðrik Sophusson kemur hér og ásakar mig fyrir það að hafa ekki leitast við að hafa samstarf við Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu í þessu máli.

Hér segir í tilvitnuðum 5 línum úr grg. — þær eru víst 10 samtals í grg. með þessari till.: „Ekkert tillit hefur verið tekið til ábendinga annarra í máli þessu.“ Við skulum líta aðeins nánar á það atriði. „Ekkert tillit hefur verið tekið til ábendingar annarra.“ Ég heyri að hv. varaformaður Framsfl. leggur við hlustir. Það er ágætt því að (Gripið fram í: Þeir eru þarna báðir.) það liggur fyrir að ríkisstj. gerði ítrekað samþykktir í þessu máli og ég veit ekki betur en þingflokkar sem að ríkisstj. standa — og hæstv. ráðh. sjálfstæðismanna þar á meðal — hafi fjallað ítarlega um efni þessara samþykkta áður en þær voru gerðar í des. 1980, í júlímánuði 1981 og þann 26. febr. 1982. Þessar samþykktir voru ekki aðeins stjórnaraðilum kunnar, heldur einnig fulltrúum stjórnarandstöðu í álviðræðunefnd, og innan ramma þessara samþykkta var unnið að málinu og hefur verið unnið að málinu fram til þessa, þangað til það lá fyrir að leiðir skildu innan ríkisstj. og Framsfl. fékkst ekki til þess að standa að frv. um leiðréttingu á raforkuverði, hafnaði því þann 3. febr. s.l. og ég áskildi mér rétt til að flytja málið hér inn á vettvang þingsins.

Það segir í 4. og 5. línu tilvitnaðrar grg. að enginn sjái nú fram úr málinu. Og menn eru greinilega afskaplega óttaslegnir. Hv. flm. úr atvmn. Sþ. sjá ekkert fram úr málinu. Þeir vilja ekki leggja neitt á sig til þess að knýja hér á með þeim hætti sem árangri gæti skilað til þess að fá fram sanngjarnar leiðréttingar á raforkuverði til Íslands. Hvar er nú hugur þeirra manna, þar á meðal úr Framsfl., sem stóðu að því með Alþb. 1971 að rifta þeim nauðungarsamningi sem gerður var af viðreisnarstjórninni 1961 varðandi landhelgismál við Breta og Vestur-Þjóðverja? Hvar er nú hugur og kjarkur þeirra manna? Telja þeir ekki að hér séu hagsmunir í húfi, sem varða þjóðina alla, að hér sé um nauðvörn af okkar hálfu að ræða, rétt eins og um var að ræða 1971, þegar Sjálfstfl. og Alþfl. vildu heldur sökkva með nauðungarsamningnum við þessar bandalagsþjóðir okkar, Breta og Vestur-Þjóðverja, láta yrja hér upp fiskimiðin við landið fremur en grípa til sjálfsagðra aðgerða fullvalda ríkis? Þá stóð Framsfl. með okkur Alþb.-mönnum í því máli. En nú hefur blaðinu verið snúið við og ég vænti þess, að það ágæta fólk, sem stutt hefur Framsfl. í þeirri trú að hann væri fáanlegur til skynsamlegra verka til að verja þjóðarhagsmuni, taki eftir þessari stefnubreytingu og þeir fulltrúar flokksins í ríkisstj. og hér á hv. Alþingi komist ekki hjá því að verða varir við það hvernig hér hefur verið snúið við blaðinu. En það er nú því miður svo, að Framsfl. hefur ekki staðið heill í þessu máli alla tíð, raunar ekki á viðreisnarárunum heldur. Þau öfl, sem þá vildu ganga sömu erinda og Sjálfstfl. og sá Alþfl. sem tók þátt í þeirri stjórn, hafa nú að því er virðist náð yfirtökunum innan Framsfl.

En við skulum líta aðeins á efnisatriði þessarar þáltill. fyrir utan það sem ég þegar hef gert að umtalsefni, að taka skuli málið úr höndum iðnrh. Það er að vísu sagt í till. að lögð skuli rík áhersla á verulega hækkun raforkuverðs, en það er ekkert skilyrði sett um það að raforkuverðið skuli hækka. Ekkert slíkt skilyrði er að finna í þessari till., aðeins frómar óskir sem Alþingi eigi að setja fram við auðhringinn. Í þessari till. er tekið undir meginkröfur auðhringsins, sem hann hefur sett fram í þeim viðræðum sem fram hafa farið til þessa, tekið undir kröfu hans um stækkun álversins í Straumsvík, um það að geta fengið stærri hluta af orkuauðlindum Íslendinga. Án þess að nokkuð liggi fyrir um það, um hvað samningar gætu tekist í sambandi við raforkuverð og annað, þá eigi að slá því föstu hér að Alþingi Íslendinga sé reiðubúið til þess að taka slíkt mál upp við auðhringinn að afhenda honum aukinn hlut í orkulindum Íslendinga. Það eigi að vera eins konar verðlaun fyrir þau samskipti og þann samningsvilja sem Alusuisse hefur sýnt gagnvart Íslendingum til þessa.

Og það er tekið undir aðra meginkröfu: að fá heimild til þess að taka nýjan hluthafa inn í íslenska álfélagið, sem svo er kallað, ÍSAL, helmingseiganda á móti Alusuisse, vegna þess að það hentar auðhringnum nú að reyna að losa sig við hluta af hlutafé í þessari bræðslu og koma þeim skuldum, sem þar hefur verið hlaðið upp í þetta sýnilega gjaldþrotafyrirtæki í Straumsvík, eins og það hefur verið bókfært, koma þeim út fyrir skuldaramma og viðskiptaramma Alusuisse gagnvart bönkum samsteypunnar. Þetta er þeirra kappsmál og að geta veifað heimild til stækkunar á álverinu í leiðinni.

Ég vek athygli á því í sambandi við þá stækkun, að þar hafa menn talað um heilan kerskála, sem með núverandi tækni væri ekki aðeins aukning um þriðjung á framleiðslu álversins í Straumsvík, heldur mætti í slíkum kerskála koma við tvöföldun á framleiðslu álbræðslunnar og þar með nærri tvöföldun á því magni af raforku sem álverinu væri selt.

Og svo má segja að komi kórónan í þessu verki þeirra flm. úr hv. atvmn., þar sem lagt er til með svofelldu orðalagi, herra forseti:

„Til að stuðla að því, að viðræður geti hafist án tafar, verði fallist á að setja deilumál um verð á súráli, rafskautum og skatta í gerðardóm sem aðilar koma sér saman um.“

Hér er verið að leggja það til, að þær ákvarðanir íslenskra stjórnvalda, sem fyrir liggja af hálfu fjmrn., að leggja endurmetið framleiðslugjald á álbræðsluna í Straumsvík sem nemur um 130 millj. kr. vegna dulins hagnaðar fyrirtækisins frá árinu 1976 að telja, að þessi gerð íslenskra stjórnvalda skuli brotin upp og sett í gerðardóm með samkomulagi við Alusuisse. Til hvers? Jú, til þess að greiða fyrir því að viðræður geti hafist. 130 millj. ísl. kr. á að setja í gerðardóm með samkomulagi við Alusuisse til þess að greiða fyrir því að viðræður geti hafist.

Ég heyrði að hv. 10. þm. Reykv. taldi hér áðan að við værum að kasta frá okkur einhverju kostaboði, sem komið hefði frá auðhringnum 10. nóv. s.l., þess efnis, að málið ætti að fara fyrir íslenskan gerðardóm, þeir væru að bjóða okkur að setja málið í íslenskan gerðardóm, deiluna um fortíðina. Hæstv. sjútvrh. hefur oftar en einu sinni, að ég hef tekið eftir, vitnað til þess sér til málsbóta í sambandi við undirtektir hans við tillöguflutning stjórnarandstæðinga, sem raunar eru undirtektir við kröfur og málflutning Alusuisse. Hann hefur vitnað til hins sama. En menn skulu líta í þessa texta. Þeir hafa þá undir höndum. Hvar stendur það að boðið sé að setja þetta í íslenskan gerðardóm? Í bréfi Alusuisse frá 10. nóv. er talað um tvo gerðardóma með samkomulagi. Annar átti að fjalla um yfirverð og deilur varðandi þau, en það er ekki tiltekinn neinn íslenskur gerðardómur. Hinn átti að fjalla um deilur varðandi afskriftir á árinu 1980 sérstaklega og þar máttu íslenskir lögfræðingar koma við sögu. Það var hinn íslenski gerðardómur sem tilboð var gert um. Það er kannske táknrænt fyrir málflutning þessara hv. talsmanna atvmn. og hagsmuna Alusuisse í þessu máli, að þeir skuli ekki einu sinni geta farið með rétt mál varðandi þau tilboð sem auðhringurinn hefur gert. En það er reyndar mjög í samræmi við annað í þeirra málflutningi.

Hér er sannarlega á ferðinni tillaga um málsmeðferð, sem ekki er hægt að gefa aðra einkunn eða viðhafa um annað lýsingarorð en það, að hún sé hroðaleg. Hún sé hroðaleg í gamalli og góðri merkingu þess lýsingarorðs. Að baki hennar getur í besta falli búið glópska eða barnaskapur. En hún endurspeglar einnig ótrúlegan undirlægjuhátt við erlent vald og við erlenda hagsmuni. Það er vissulega eitt, að einstakir þm. eða einstakir aðilar utan þings túlki viðhorf sín til þessa stóra máls, og annað það, að hv. Alþingi er að taka upp mál með þessum hætti og gera um það till. að samþykktir af þessu tagi verði gerðar hér á hv. Alþingi. Átta hv. alþm. sig ekki á því, hvernig þeir eru með þessum tillöguflutningi að spila upp í hendurnar á auðhringnum, á gagnaðilanum í þessu máli? Eru þeir gersamlega skyni skroppnir um það, hvernig samningar ganga fyrir sig, hvernig það er að halda á samningum við sterkt vald? Eru hér engir lengur, sem muna deilur okkar um aðra auðtind, fiskimiðin við landið, og að það þurfti svolítið á sig að leggja til þess að við Íslendingar næðum þar tökum á máli? Þjóðin var reiðubúin til þess af því að það tókst samstaða meirihlutamanna hér á hv. Alþingi að leggja það til og bera það fram og fá um það samþykktir. En nú virðist öldin vera önnur.

Ég held að það sé mikið atriði fyrir íslenska þjóð að átta sig á þeim veðrabrigðum, sem virðast vera orðin hér á hv. Alþingi þegar íslenskir hagsmunir mæta erlendum hagsmunum, veðrabrigði, sem orðið hafa frá því fyrir 12 árum síðan er meiri hl. Alþingis bar gæfu til þess að rifta nauðungarsamningum, sem stór hluti alþm. hafði glæpst til að gera 1969, virtist fremur kjósa að sökkva með samningunum, að sökkva íslenskum efnahag fremur en rifta þessum samningum.

Því er mikið haldið á lofti í málgögnum þeirra aðila sem standa að þessari þáltill. að ég sem iðnrh. hafi ekki borið fram kröfur af Íslands hálfu um það sem mestu máli skipti í þessu, þ.e. að fá eðlilegan afrakstur fyrir þá orku sem seld er til álversins í Straumsvík. Því er haldið fram, það má lesa í dagblöðum og það er endurómað í landsmálablöðum sömu flokka núna þessar vikur, að ég hafi verið svo upptekinn af því að kljást við Alusuisse varðandi dulinn hagnað og skattamál, að ég hafi skilið raforkuverðið eftir, látið vera að bera fram kröfur um leiðréttingu á raforkuverði og væntanlega öðrum atriðum samninga, það mál hafi bara legið og beðið. Þetta er málflutningur, sem þið kannist við, allir hv. alþm. og þeir sem fylgjast með þessu máli. Það er því ástæða til þess hér að minnast aðeins á hvernig að þeim þætti hefur verið staðið. Það er dálítið furðulegt að þeir aðilar sem stóðu að samþykktum í ríkisstj. 1980 í desembermánuði og ítrekað í júlímánuði 1981 innan ríkisstj., þar sem megináhersla var lögð á það að sanngjörn leiðrétting fengist á raforkuverði til álversins í Straumsvík, þeir sömu aðilar skuli telja sér það sæmandi, eftir að hafa fylgst náið með þessu máli innan álviðræðunefndar, að bera mig þeim sökum að ekki hafi verið knúið á um að fá fram leiðréttingu á raforkuverðinu. Það er því ástæða til að rifja það aðeins upp hér, hvenær tillögur komu fram um það frá þessum mönnum, sem svo hátt hafa um þessi efni og bera fram ásakanir á mig, hvenær tillögur komu fram frá þeim um það að stórhækka þyrfti raforkuverðið til álversins í Straumsvík —kannske ekki stórhækka heldur jafnvel breyta því eitthvað til hækkunar. Ég held að það sé full ástæða til að rifja það upp í ljósi þeirra ásakana sem uppi hafa verið hafðar undanfarna mánuði og misseri í minn garð um þetta efni.

Ég þarf ekki að hafa mjög mörg orð um frammistöðu Sjálfstfl. í því efni. Ég hef svo oft úr þessum ræðustóli á liðnu ári og á þessu ári lýst eftir því, — og beint þar sérstaklega máli mínu til hv. 6. þm. Reykv., sem oft hefur tekið til máls um þessi efni og var 1, flm. þáltill. þeirra sjálfstæðismanna í byrjun þessa þings um viðræðunefnd við Alusuisse, að hann benti mér á það í þinggögnum hvenær hann bar fram kröfur hér á hv. Alþingi um það að leiðrétta beri raforkuverð til álversins í Straumsvík og stórhækka það, eins og loksins mátti lesa í Morgunblaðinu í ágústmánuði s.l. eða byrjun september, þegar skyndilega rofaði til á þeim bæ, svona svipað og þegar Sjálfstfl. sneri við blaðinu í landhelgismálinu á sínum tíma og tók undir kröfuna um útfærslu í 200 mílur. En hv. 6. þm. Reykv. hefur ekki svarað þessu ennþá. Hann hlýtur þó að vera búinn að lesa í gegnum ræður sínar á undanförnum árum um þetta mál, þannig að hann geti komið hér upp og vitnað til þeirra, hvenær hann eða hans flokksmenn háfi á árunum 1979, 1980 — og hann má gjarnan fara fram á árið 1981 — borið fram hér á Alþingi kröfur um að leiðrétta raforkuverðið til álversins í Straumsvík og lýst yfir því að það væri áhugamál Sjálfstfl. að svo yrði gert.

Í umr. hér um daginn minnti ég hv. þm. á þetta og benti á að þessi ræðustóll stæði honum opinn til þess að hann gæti upplýst um þetta efni. Sannleikurinn er nefnilega sá, að Sjálfstfl., sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu, fulltrúar Sjálfstfl. í stjórn Landsvirkjunar hafa ekki séð ástæðu til þess fyrr en eftir dúk og disk að taka undir sjálfsagðar kröfur um leiðréttingu á raforkuverði til álversins í Straumsvík. Ég fagna síðbornu liðsinni þeirra við þá kröfu, þó að þar hafi því miður slegið í bakseglin á síðustu vikum á nýjan leik, þegar t.d. Morgunblaðið skrifar í leiðara sínum þann 11. jan. s.l. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Öllum er ljóst að miðað við stöðu áliðnaðarins í heiminum er varanleg verðhækkun á raforku til álversins í Straumsvík óraunhæf nema samþykkt verði að auka megi framleiðslugetu þess.“

Hvað lesið þið út úr þessari yfirlýsingu þá víðlesnasta blaðs landsins? Ég var raunar að heyra að það væri einhver búinn að slá því við. (Gripið fram í: Þjóðviljinn kannske?) Það væri ágætt ef hv. 11. landsk. þm. vildi slást í lið með mér og efla útbreiðslu besta dagblaðsins á Íslandi, m.a. að gera það víðlesnara á Austurlandi, þannig að hann fengi dálítið einarðari kröfur í sitt eyra í sambandi við hagsmunamál okkar Íslendinga og Austfirðinga þar á meðal. (EgJ: Eru það ekki Austfirðingar sem þurfa að fá það í eyra?)

Ég les þetta út úr þessum orðum Morgunblaðsins, það er raunar afar skýrt: Það er ekki fært, segir Morgunblaðið, og ekki raunhæft að fá neina leiðréttingu á raforku til álversins í Straumsvík miðað við stöðu áliðnaðar í heiminum nema við föllumst áður á stækkun álversins í Straumsvík, enda er það mál sem Sjálfstfl. hefur klifað á undanfarin ár, að stækka þurfi álverið. Það glumdi 1981 í júlímánuði í þingflokkssamþykktum flokksins og í skrifum Morgunblaðsins og það er eitt megináhugamálið. En að fá fram einhverja nettóleiðréttingu á raforkuverði til álversins í Straumsvík telur Sjálfstfl. að sé borin von. Það telur Morgunblaðið a.m.k. að sé borin von miðað við núverandi stöðu áliðnaðarins. Skilja menn það mál sem hér er talað? Ætli Alusuisse skilji það ekki? Það væri hægt að halda slíkum tilvitnunum í talsmenn Sjálfstfl. lengi áfram, en þeir hafa nú haft svo hátt um þessi efni að það er ekki stór þörf á því að vitna þar að þessu sinni til margra þátta til viðbótar, en þó er sjálfsagt að bæta þar við. Ég vona eindregið að hv. 6. þm. Reykv. komi hér upp í þessari umr. og lesi eitthvað úr verkum sínum um kröfur sínar á fyrri árum varðandi hækkun á raforkuverði til álversins í Straumsvík.

En það má ekki bara ræða um Sjálfstfl. í þessu efni. Það má ekki gleyma garminum honum Katli heldur. Mér þætti vænt um, herra forseti, ef hv. 9. þm. Reykv. væri hér einhvers staðar nærstaddur og hlýddi á mitt mál, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, því að mig tangar að rifja hér aðeins upp fyrir honum málflutning sem lesa mátti í hans flokksmálgagni á þeim tíma sem hann var ritstjóri Alþýðublaðsins. Mér þætti gott ef hann kæmi hér í augsýn, herra forseti. (FrS: Hann er kominn með eyrnabólgu.) (Forseti: Hv. þm. þurfti að bregða sér frá.) Er ekki von á hv. þm. í salinn? Ég sá hann hér fyrir augnabliki. (Forseti: Hann var að bregða sér frá.)

Það er kannske hægt að vísa hv. þm. á það tölublað Alþýðublaðsins sem ég ætla að vitna hér til, frá 6. des. 1980, en þá var hv. núv. 9. þm. Reykv. og leiðarstjarna Alþfl. hér í höfuðstað landsins í komandi kosningum ritstjóri Alþýðublaðsins, ef ég man rétt, og þá var einmitt á þeim vikum skrifað talsvert mikið í þetta málgagn, sem ekki er stórt að blaðsíðutali eða umfangi, um málefni álversins í Straumsvík. Þáv. framkvæmdastjóri álversins var leiddur þar til vitnis öðrum mönnum fremur. Þann 6. des. mátti á 4. síðu Alþýðublaðsins lesa m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta, sem ég trúi ekki að hafi neitt á móti því að vitnað sé í þetta málgagn, undir yfirskriftinni „Stefna Alþfl. í orkumálum“. Svo kemur aðalfyrirsögn: „Álverið er leiðarljós“. Þar segir síðan:

„Alþýðublaðið hefur undanfarið birt greinar um stóriðjumál. Kveikjan að þessum skrifum var ræða Lúðvíks Jósepssonar á landsfundi Alþb., þar sem hann fór hörðum orðum um stóriðjustefnu „íhalds og krata“, eins og hann orðaði það. Með ræðu iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar á Alþingi í gær er enn vegið að stóriðjustefnu Alþfl.-manna“ segir síðan í þessari blaðagrein. Og áfram: „Alþýðublaðið leitaði til Ragnars Halldórssonar, forstjóra ÍSALs, og bar undir hann ummæli þeirra Lúðvíks og Hjörleifs um fyrirtækið. Ragnar sagði að ýmissar ónákvæmni og rökleysu gætti í málflutningi þeirra.“ Og síðan segir í Alþýðublaðinu: „Lúðvík Jósepsson og Hjörleifur Guttormsson hafa báðir haldið því fram, að orkuverð það sem ÍSAL greiðir sé aðeins brot af kostnaðarverði orkunnar. Eins og áður hefur verið rakið í Alþýðublaðinu“, takið eftir, „eins og áður hefur verið rakið í Alþýðublaðinu er hér um mikinn misskilning að ræða. Annars vegar er verið að bera saman greiðslur til að standa straum af fjármagnskostnaði við nýjar virkjanir og hins vegar orkukostnað vegna eldri virkjana. Lúðvík Jósepsson hélt því fram í ræðu sinni á landsfundi, að orka til stóriðnaðar úr hagkvæmustu virkjunum okkar nú mundi kosta 10 kr. á kwst. en ÍSAL greiðir eins og kunnugt er ca. 3.60 fyrir kwst.“

Og nú kemur mitt innskot, því að enn var framkvæmdastjóri álversins leiddur fram til þess að svara þessum rökum. „Ragnar Halldórsson“, segir Alþýðublaðið, „var spurður álits á þessu atriði og sagði hann að hér væri augljóslega um hreint rugl að ræða, það væri ekki réttmætt að bera saman orkuverð frá gömlum orkuverum og nýjum. Gömul stóriðjuver greiða fjármagnskostnað vegna orkuvera sem byggð voru á sama tíma, en það er ekki réttmætt að ætlast til að gamlar verksmiðjur geti greitt orkuverð nýrra virkjana.“ Og síðan kemur orðrétt tilvitnun í sjálfan Ragnar Halldórsson: „Ég skil ekki hvað þessir menn eru að fara með svona samanburði, hann er út í hött,“ sagði Ragnar. Og áfram segir í Alþýðublaðinu:

„Eins og bent hefur verið á í blaðinu eru margar hliðar á orkuverðinu. Í ÍSAL-tíðindum (en það er heimilismálgagn álversins í Straumsvík) frá síðasta ári er nokkuð komið inn á þessi mál, og segir þar m.a.: „Árið 1978 notaði ÍSAL 51% af heildarorkuframleiðslu Landsvirkjunar það ár. Ef greiðslur ÍSALs til Landsvirkjunar fyrir þessi orkukaup eru athugaðar kemur í ljós að ÍSAL greiddi „aðeins“ rúm 30% af heildargreiðslum til Landsvirkjunar vegna orkusölu. Hins vegar notaði ÍSAL aðeins tæp 31.8% af uppsettu vatnsafli Landsvirkjunar. Þetta er raunhæfur samanburður á greiðslum og tilkostnaði, en ekki samanburður óskyldra hluta.“

„Í framhaldi af þessu“ segir Alþýðublaðið „er síðan minnt á þá staðreynd, sem vikið hefur verið að í blaðinu, að stóriðjuver eins og ÍSAL og Járnblendiverksmiðjan nota orkuna í mun lengri tíma en hinar almennu rafveitur og eru þar að auki skuldbundnar til að greiða hana, án tillits til hvort hún er notuð eða ekki.

Ef litið er á orkuverð til álvinnslu í heiminum kemur í ljós að verðið er mjög misjafnt og fer eftir staðháttum og markaðsaðstæðum. Orkuverðið er oft mælt í einingunni mill, sem jafngildir 1/1000 hluta úr Bandaríkjadollar. Ragnar Halldórsson sagði í viðtali við Alþýðublaðið að ÍSAL greiddi hærra orkuverð en t.d. bæði Kanadamenn og Bandaríkjamenn. Í lista yfir orkuverð til álframleiðslu í 10 löndum, sem birst hefur í ÍSALtíðindum, kemur fram að ÍSAL greiðir nálægt meðalverði fyrir orkuna eða 6.45 mill fyrir kwst.

Ragnar Halldórsson minnti á það, að Hjörleifur Guttormsson væri sjálfur með ýmsar bollaleggingar í stóriðjumálum, svo sem kísilmálmverksmiðju, saltverksmiðju, magnesíumverksmiðju o.fl. Yrði fróðlegt að sjá hvaða orkuverð yrði samið um fyrir þessar verksmiðjur ef af verður. „Það gildir engin óskhyggja í þessum málum, menn verða að fara eftir markaðsaðstæðum og samkeppni á markaðinum. Við greiðum fyllilega sambærilegt verð og aðrar þjóðir fyrir raforkuna og ég held að erfitt verði fyrir iðnrh. að flytja þessa stefnu sína úr landi,“ sagði Ragnar.“

Og enn segir Alþýðublaðið í þessari grein um stefnu Alþfl. í orkumálum: „Um þennan rökstuðning sagði Ragnar Halldórsson að hann væri marklaust þrugl. Hann spurði á móti hvort annar iðnaður í landinu, eins og t.d. sjávarútvegur, greiddi ekki vexti og annan fjármagnskostnað. „Þannig eru öll lán,“ sagði hann, „af þeim þarf að borga vexti og Alusuisse er þar engin undantekning.“ Við þetta má bæta “— og ég bið ykkur að taka eftir því vegna þess að það tengist öðru máli, sem rifjað verður upp síðar —„ Við þetta má bæta að samkv. upplýsingum frá Landsvirkjun má gera ráð fyrir því, að ÍSAL muni á 25 árum standa undir allri greiðslubyrði vegna Búrfellsvirkjunar, aðalspennistöðvar við Geitháls og gasaflsstöðvar við Straumsvík ásamt báðum háspennulínum frá Búrfelli og Þóris-Vatnsmelum“ — stendur nú hér, en á líklega að vera Þórisvatnsmiðlun — “enda þótt ÍSAL noti aðeins hluta orkunnar. Stór hluti orkunnar ásamt mannvirkjum og línum notast öðrum kaupendum.“

Þetta læt ég nægja, herra forseti, sem tilvitnun í stefnu Alþfl. í orkumálum, eins og hún er flutt í Alþýðublaðinu þann 6. des. 1980, og þar sem höfuðvitni í þessu máli fyrir hönd Alþfl. er framkvæmdastjóri álversins í Straumsvík. Það má heyra hvert hann sækir rök sín. Hann sækir þau m.a. í upplýsingar, sem hann telur sig hafa frá sjálfum orkuseljandanum, Landsvirkjun, upplýsingar sem hafa heyrst í máli talsmanna orkusölusamningsins við Alusuisse og sést á prenti í Morgunblaðinu. Ég treysti því að vísu, að þetta leiðarljós Alþfl. í orkumálum, álverið í Straumsvík, sé nú farið að dofna á þeim bæ. Ég trúi satt að segja ekki öðru en að svo sé og tel mig reyndar hafa séð ýmis batamerki hjá þeim flokki, því að þingflokkur Alþfl. hefur í ályktunum oft tekið með skynsamlegum hætti undir málflutning ríkisstj. og minn málflutning og kröfugerð í sambandi við m.a. hækkun á raforkuverði til álversins í Straumsvík. Það er hins vegar ástæða til fyrir Reykvíkinga, sem eiga að ganga að kjörborðinu væntanlega seinni hluta aprílmánaðar ásamt öðrum landsmönnum, að íhuga þann málflutning sem nú fremsti frambjóðandi Alþfl. og þáv. ritstjóri Alþýðublaðsins hefur uppi sem stefnu Alþfl. í orkumálum á síðum blaðsins í tilvitnuðu tölublaði 6. des. 1980.

Er ég þá, herra forseti, kominn að Framsfl. og hans málflutningi í sambandi við raforkuverð og er mér þá alveg að skapi, ef hæstv. forseti óskar eftir að hlé verði gert, að bíða með það, vegna þess að það er ágætt, ef menn hafa fengið bólgu í eyrun, eins og ég heyrði hér í hliðarherbergjum, að henni létti. Menn geti þá kannske jafnað sig til þess að fylgjast aðeins með því sem ég hef að segja í sambandi við málflutning Framsfl. að þessu leyti. [Frh.]