14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3196 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

Almennar stjórnmálaumræður

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Senn líður að lokum þessa þings, sem um margt hefur verið sérstakt. Ríkisstj. var mynduð til þess að auka virðingu Alþingis og til að leiða þjóðina áleiðis út úr ógöngum óðaverðbólgu og vaxandi hættu á atvinnuleysi og upplausn. Ríkisstj. hefur um margt tekist allvel, en um annað miður, einkum í baráttunni við verðbólguna.

Um fá mál hefur verið meira rætt nú síðustu dagana en álmálið. Ekki skal ég eyða mörgum orðum um það, en leggja vil ég áherslu á að illa hefur verið að því máli staðið af núv. hæstv. iðnrh. Hann hefur eytt s.l. þremur árum til þess eins að finna ágreiningsefni við stjórn fyrirtækisins Alusuisse í stað þess að leysa þau. Heppilegra hefði verið og árangursríkara að setja strax ágreiningsefnin í gerðardóm, sem aðilar samþykktu, og hlíta niðurstöðum hans. Þá hefði verið unnt að hefja þegar í stað umræður um endurskoðun samninga um skattgreiðslur og orkuverð.

Hér er um margfalt meira hagsmunamál að ræða en áframhaldandi karp um fortíðina. Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum að stjórnendur ÍSALs eru reiðubúnir að ganga til samninga um hækkað orkuverð að uppfylltum ákveðnum, en ekki óaðgengilegum skilyrðum. Hve mikil sú hækkun gæti orðið get ég ekki fullyrt um, en ég er þess alveg viss að árangur þeirra samninga mun skila mun meiri tekjum og fyrr en áframhaldandi karp um fortíðina. Jafnvel gæti hér verið um að ræða allt að 1 millj. dollara á mánuði, sem hæstv. iðnrh. hefur sparað Álfélaginu, en ekki varið íslenska hagsmuni, eins og hæstv. félmrh. lýsti svo fjálglega fyrr í kvöld.

Hækkað orkuverð mundi ekki einungis tryggja hagkvæmt rafmagnsverð til almennings til húshitunar sem annars. Í allri þessari umræðu má ekki gleyma þeim sem hjá fyrirtækinu starfa og fjölskyldum þeirra, en um 700 fjölskyldur byggja afkomu sína á áframhaldandi rekstri fyrirtækisins.

Einn af þeim málaflokkum sem ég tel að vel hafi tekist til um er meðferð utanríkismála. Ólafur Jóhannesson utanrrh. hefur haldið á þeim málum af festu, en lipurð. Hvassir vindar hafa oft leikið um hann frá Alþýðubandalagsmönnum, en ávallt hafa þau mál snúist í höndum þeirra, enda er hjá þeim meira barist af kappi en forsjá.

Meðal þeirra mála sem heyra undir utanrrh. eru málefni Keflavíkurflugvallar og varnarliðsins. Það er samdóma álit þeirra sem í raun til þekkja, að ekki hafi um árabil betur til tekist um meðferð þeirra en nú. Tekist hefur að tryggja endurbætur á geymslu og löndun á olíuvörum varnarliðsins í samræmi við vilja Alþingis og óskir sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Unnið er áfram að málefnum flugstöðvarinnar þrátt fyrir óskiljanlega andstöðu ráðh. Alþb. gegn flugstöðinni. Það hefur áfram verið unnið að undirbúningi málsins og jafnframt hefur mótframlag Bandaríkjastjórnar til framkvæmda við flugstöðina fengist framlengt til 1. okt. n.k. Reikna má með að öllum undirbúningi verði lokið u.þ.b. er ný stjórn tekur við og því hafi framkvæmdir um byggingu flugstöðvarinnar í raun ekki tafist svo mikið. Hér er um stórmál að ræða, ekki einungis með tilliti til þeirrar auknu umferðar sem um Keflavíkurflugvöll er, bæði af íslenskum og erlendum aðilum, heldur er hér um að ræða nauðsynlega framkvæmd til að tryggja sem mestan aðskilnað hers og þjóðar. Utanrrh. hefur og lagt áherslu á að umfang framkvæmda á vegum varnarliðsins verði sem jafnast á milti ára til þess að framkvæmdir þessar hafi sem minnst áhrif á vinnumarkaðinn á Suðurnesjum.

Herra forseti. Ég get ekki lokið máli mínu án þess að fagna því að fyrir þingslit tókst að samþykkja frv. til stjórnskipunarlaga, sem stundum hefur verið nefnt formannasamkomulagið. Lög þessi tryggja íbúum suðvesturhorns landsins svipað vægi atkvæða og var eftir kjördæmabreytinguna 1959. Ég vil þakka formanni Framsóknarflokksins Steingrími Hermannssyni fyrir hans þátt í þessu máli. Mér er til efs að svo vel hefði tekist til við þetta samkomulag, sem er í raun sátt á milli landshluta, ef hans hefði ekki notið við við afgreiðslu þess.

Margt hefði betur mátt fara á valdatíma þessarar ríkisstj., en margt hefur líka verið vel gert. En í ljós hefur komið að vilji er ekki allt sem þarf. Það þarf líka kjark — kjark til þess að fylgja málum fram, kjark til þess að fylgja sannfæringu sinni. En síðast en ekki síst þarf heilindi — heilindi til þess að viðurkenna það sem miður hefur tekist, heilindi til þess að gera þjóðinni grein fyrir þeim vandamálum sem að steðja og ekki síst heilindi við samstarfsaðila sína. Vilji, kjarkur og heilindi er það sem þarf. Því hlýtur það að vera heilladrýgst að auka áhrif Framsóknarflokksins í komandi kosningum fremur en styrkja þá upplausn og þann klofning sem ríkjum ræður í hinum flokkunum og flokksbrotum. Ég þakka áheyrnina og býð góða nótt.