11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eitt af því sem gerir það að verkum á Íslandi að lagakerfið í landinu er ónýtt, menn hlýða ekki lögum, er sú aðferð manna að túlka lögin sér í hag. Þeir eru sérfræðingar í þeim leikjum hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., sem hér hefur verið að gera till. Kjarni málsins er sá, herra forseti, að ég er 1. flm. þessa máls. Ég er 4. þm. Reykv. og ég gerði till. um allshn. og, herra forseti, þá till. á að bera upp fyrst. Og þó svo í landinu sitji utanrrh. sem heitir Ólafur Jóhannesson og þó svo að Ólafur Jóhannesson stundi þann leik að túlka lögin, aðferðirnar og leikreglurnar sér í hag, þá er óþolandi að forseti Sþ. hlýði manni sem að þessu leytinu til er óbreyttur þm. í lagalegum skilningi orðsins. Og þó að Ólafur Jóhannesson, hv. 5. þm. Reykv., geri um það tillögur að svona máli sé vísað til utanrmn. á einhverjum furðulegum forsendum, þeim að viðskiptamál sé utanríkismál, og þó að hann túlki sér í hag og þó að forseti eigi ekki meiri karakter til en hér hefur sést í dag, þá geri ég þá kröfu að till. 4. þm. Reykv. sé tekin fyrir fyrst af því að hann er 1. flm. málsins. Svona atburður gerðist hér í gær. Þá viðurkenndi forseti þegar í stað að hefðu orðið mistök og þau voru leiðrétt. Ég krefst þess, herra forseti, að sú till., sem flm. bar fram, að málinu skyldi vísað til allshn., sé borin fram fyrst. Verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll er ekki og verður ekki utanríkismál, hvað svo sem hæstv. forsrh. eða hæstv, utanrrh. segja, — og er engin furða þó að maður rugli þeim að þessu leytinu saman eins og er búið að leika lagakerfið í landinu. Það sem hér er að gerast er dæmigert fyrir það af hverju þjóðfélaginu er farið að leyfast allt. Það er dæmigert að í dag hefur forseti, sem „skandaliseraði“ hér fyrir tveim vikum, „skandaliserað“ aftur. Þetta sjá allir og þetta vita allir, en nú hlusta menn betur en þeir gerðu.

Ég krefst þess, herraforseti, að annað af tvennu gerist: annaðhvort verði mín till. borin fram, af því að hún er flutt fyrst og ég er í mínum rétti, eða að forseti víki úr forsetastóli og varaforseti taki við meðan málið er borið upp. Ég krefst þess, herra forseti, að faríð verði að leikreglum. Það er af þessari ástæðu sem þjóðfélagið er farið að hreyfast.