18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

66. mál, tölvuvinnsla og upplýsingamiðlun varðandi landbúnaðinn

Jón Helgason:

Herra forseti. Mig langaði með örfáum orðum að lýsa yfir stuðningi við tilgang þessarar till. Það kom fram í máli framsögumanns að hér væri að vísu um takmarkað svið að ræða. En ég er sannfærður um að þarna er hægt að vinna að hagræðingu sem gæti orðið til hagsbóta á þessu sviði.

Mig langaði þó sérstaklega til þess að nota þetta tækifæri til að leggja áherslu á hversu nauðsynlegt það er að við reynum að vinna að aukinni hagræðingu á öllum sviðum. Það er talað um að tölvuöldin geti haft í för með sér mikla byltingu fyrir okkur, en hún kemur því aðeins a.m.k. að fullum notum að henni sé þá beitt með eins mikilli hagkvæmni og kostur er. Á mörgum sviðum sjáum við að verið er að vinna sama verkið af mörgum aðilum. Mér dettur t.d. í hug mat fasteigna, sem margir aðilar vinna að. Augljóst virðist vera að miklu væri ódýrara og heppilegra að það verk væri unnið af einum aðila. Allir sem á því þyrftu að halda gætu síðan hagnýtt sér það. Þetta er að vísu miklu meira mál en felst í þessari till., en ég held að hún sé jákvætt spor í rétta átt.