02.12.1982
Sameinað þing: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

101. mál, umferðarmiðstöð á Egilsstöðum

Flm. (Sveinn Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 103 er lagt fram 101. mál Sþ., till. til þál. um umferðarmiðstöð á Egilsstöðum og vörudreifingarmiðstöð á Reyðarfirði. Flm. auk mín eru þm. Jón Kristjánsson, sem nú er farinn héðan af þingi, Egill Jónsson og Helgi Seljan. Till er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um bætt og breytt skipulag á fólks- og vöruflutningum á Austurlandi með því m.a. að komið verði á fót umferðarmiðstöð á Egilsstöðum og vörudreifingarmiðstöð á Reyðarfirði í tengslum við tollvörugeymslu.“

Með till. fylgir grg. og skal ég rekja hana nokkuð hér. Forsendur þessa máls eru í rauninni þær, að samgöngur milli staða og landshluta hafa löngum verið mjög til umfjöllunar. Mikilvægi þeirra má vera augljóst þegar 10–15% ríkisútgjaldanna er varið til þeirra mála. Þykir þó mörgum sem ekki sé nóg að gert og úrbóta sé víða þörf.

Um tíma hefur starfað nefnd á vegum samgrn. að endurskipulagningu samgangna á landinu öllu. Árangur af þessu starfi hefur þó látið á sér standa og úrbóta er þörf. Það dylst engum. Því til sönnunar má benda á að hér á þinginu eru nú komnar fram aðrar tillögur sem fara nokkuð í sömu átt og þessi till. okkar. Þar á ég við 126. mál á þskj. 129, till. til þál. um skipulag fólks- og vöruflutninga og 53. mál á þskj. 54, till. til þál. um umferðarmiðstöð í Borgarnesi, sem reyndar var fram komin áður en till. okkar var fram lögð. Þetta sýnir einungis að þessi mál eru til umfjöllunar og aðgerða á þessu sviði er þörf.

Tengsl Austurlands við aðra landshluta hafa lengst af verið á sjó. Þeim þætti er nú um margt ábótavant. Í því sambandi er rétt að geta þess, að það er mikils virði fyrir Austfirðinga og þjóðfélagið í heild að beinar siglingar séu milli Austfjarðahafna og annarra landa. Strax upp úr aldamótum sigldu skip í eigu Íslendinga og erlendra aðila beint frá Austfjarðahöfnum með fisk og aðrar afurðir til viðskiptalandanna og fluttu aftur vörur heim. Þetta breyttist ekki fyrr en um 1940 er stríðsátök komu í veg fyrir slíkar áætlunarsiglingar til Evrópulanda. Þá var farið að sigla til Ameríku og vörum yfirleitt umskipað í Reykjavík. Þetta hefur síðan orðið að venju hvað varðar alla aðdrætti til landsins. Faxaflóahafnir taka við vöru sem síðan er notuð vítt um land. Af þessu hlýst kostnaður, dýr og seinvirk dreifing. En aðalatriðið er að Austfirðingar komi sér upp beinu sambandi við Evrópulöndin. Tilraunir með slíki eru nú hafnar og standa heimaaðilar fyrst og fremst fyrir framgangi þessa þáttar.

Með vegarlagningu opnaðist á sínum tíma tenging til Norðurlands, sem þó hefur einungis haldist opin 3–4 mánuði á ári hverju, og er svo enn. Einangrun fjórðungsins er þó fyrst raunverulega rofin með opnun leiðar sunnan jökla árið 1974. Þá leið er nú fluttur verulegur hluti allra nauðsynja frá höfuðborgarsvæðinu. Einangrun Austurlands hefur þó hin síðari árin í vaxandi mæli verið brúuð með samgöngum í lofti sem hafa náð til fólks-, vöru- og póstflutninga. Þessi tengsl hafa styrkst innan fjórðungsins. Um Egilsstaðaflugvöll hafa samkv. skýrslum flugmálastjórnar farið um og yfir 40 þúsund farþegar á hverju ári undanfarið og völlurinn því verið meðal fjögurra fjölförnustu í innanlandsfluginu. Á sviði vöru- og póstflutninga hefur völlurinn ótvírætt þriðja sæti með verulegu forskoti umfram aðra velli. Aðbúnaði vallarins er þó áfátt og gagngerðra endurbóta er þörf.

Það er orðið mjög aðkallandi að hlutaðeigandi aðilar komi sér niður á hver skuli verða stefnan í framtíðaruppbyggingu flugvallar á Egilsstöðum, þess flugvallar, er þjónar mestum hluta fjórðungsins með samgöngum til annarra landshluta. Það hlutverk mun koma enn betur í ljós á allra næstu árum sakir fyrirhugaðrar uppbyggingar raforku- og iðjuvera. Austfirðingar þurfa á velli að halda með bundnu slitlagi, malbiki, og svo löngum að þar geti lent litlar, hraðfleygar vélar og þotur, sem ekki aðeins þjóna innanlandsflugi heldur tengja Austurland jafnframt beint við meginlandið. Er þá ekki verið að fara fram á varaflugvöll fyrir millilandaþotur af stærstu gerð, sem verður að teljast óraunhæft og tilgangslaust markmið. Þess í stað er verið að fara fram á raunverulegar þarfir fjórðungsins nú og í náinni framtíð.

Að mati starfsmanna vallarins á Egilsstöðum eru um 60–80% farþega, sem um völlinn fara, á leið til eða frá nágrannabyggðarlögum í fjörðum niðri. Þjónustu sérleyfishafa er um margt áfátt, t.d. engin um helgar sem stendur og um vetrartímann aðeins tengd einni flugkomu á virkum dögum, þó svo að flogið sé tvisvar flesta daga vikunnar. Á leiðinni Egilsstaðir-Reyðarfjörður aka svo þrír sérleyfishafar og allir samtímis.

Yfir sumartímann hafa allir 7–9 þús. Smyrilsfarþegar haft meiri eða minni viðdvöl á Egilsstöðum auk fjölda annarra ferðamanna. Þjónusta við þennan hóp hefur farið batnandi en er þó helst áfátt samgöngulega séð. Í því sambandi er rétt að benda á það ástand, sem skapaðist s.l. vor, þegar sérleyfishafar á Austurlandi lögðu niður akstur til þess m.a. að fylgja eftir kröfu sinni um að fá leyfi til aksturs á leiðum sem verið höfðu í höndum aðila utan svæðisins. Þessir aðilar hafa aðeins veitt og veita enn þjónustu þann hluta ársins, þ.e. yfir sumartímann, þegar gróðavonin er mest en láta aðra árstíma án nokkurrar þjónustu. Í sambandi við undirbúning þessarar þáltill. hafði ég samband við framkvæmdastjóra umferðarmáladeildar fólksflutninga og hann ritaði mér svohljóðandi bréf með leyfi forseta:

„Það er ekkert þægilegt að þurfa að viðurkenna að engar skýrslur um farþegafjölda á Austurlandi eru til, þar sem sérleyfishafar á Austurlandi senda þær ekki, m.a. vegna þess að með því sniðganga þeir greiðslu á sérleyfisgjaldi.“

Það voru ekki mörg orðin, en þau segja sína sögu. Þau segja okkur kannske fyrst og fremst í hvílíku neyðarástandi þessar samgöngur eru fyrir austan hjá okkur, þegar sérleyfishafarnir þurfa að stela undan svo smávægilegu gjaldi sem sérleyfisgjaldið er til þess að fleyta áfram sínum rekstri. En það er í rauninni ekkert annað sem á bak við þessa sögu liggur.

Ferðamálaráðstefna Austurlands, haldin á Hallormsstað 28. ágúst 1980, samþykki að skora á yfirvöld að styðja þá hugmynd að umferðarmiðstöð yrði reist á Egilsstöðum. Þeir aðilar sem að þessum málum vinna eystra hafa því leitað hófanna um úrbætur á þessu sviði, en ekki orðið ágengt sakir þess fjárhagslega vanda sem er því samfara að koma slíkri aðstöðu á fót. Fordæmi er þó fyrir þátttöku hins opinbera, þar sem umferðarmiðstöðin í Reykjavík er, og því er þessu máli nú hreyft á vettvangi Alþingis. En umferðarmiðstöð ein og sér er ekki sú lausn sem eftir er leitað, heldur þarf þar jafnframt að koma til betri skipulagning allra fólksflutninga innan fjórðungsins.

Í Austurlandsáætlun frá 1975 er bent á eðlilega meginskiptingu Austurlands í þrjú svæði með tilliti til íbúadreifingar og vegalengda, þ.e. norður- og suðursvæði auk miðsvæðis sem næði frá Héraðsflóa til Berufjarðar. Í þessu sambandi er óraunhæft að tala um Austurland allt sem eitt svæði með einni þjónustumiðstöð eða miðstað, en hann má reikna út að gefnum ýmsum forsendum og miðað við mismunandi stór svæði. Út í þann þátt málsins skal ekki farið hér.

Egilsstaðir eru ótvítætt sá staður sem er höfn fjórðungsins og þjónar fyrst og fremst fólksflutningum, en á Reyðarfirði er eina vöruhöfn Austurlands, sem er talin liggja miðsvæðis gagnvart töluverðu svæði og nokkrum íbúafjölda. Hún þjónar Héraði og þaðan er um veg aðeins 15 km leið til Eskifjarðar, 40 km til Norðfjarðar, 58 km til Seyðisfjarðar og 100 km til Breiðdalsvíkur, en á þeirri leið eru jafnframt Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður. Á Reyðarfirði hefur um nokkurt skeið verið tollvörugeymsla, en takmarkanir og skipulagsleysi á vörudreifingu staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun þeirrar þjónustu, þrátt fyrir töluvert mikinn vilja heimamanna og eftirfylgju af þeirra hálfu.

Landfræðilegar aðstæður valda því að þessir staðir, Reyðarfjörður og Egilsstaðir, sameiginlega hafa miðstöðvarhlutverki að gegna á Austurlandi. Nauðsynlegt er að þar fáist þær úrbætur sem verða stöðunum og öllu svæðinu til framdráttar.

Herra forseti. Með till. þeirri sem hér er flutt er þess farið á leit við ríkisstj. að hún leiti leiða til að bæta skipulag og framkvæmd fólks- og vöruflutninga eða dreifingar á Austurlandi til farsældar fyrir þá sem njóta. Sem lið í þessari endurskipulagningu og úrbótum er bent á að komið verði á fót umferðarmiðstöð á Egilsstöðum og vörudreifingarmiðstöð á Reyðarfirði.

Ég vil svo leggja það til, að að aflokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. allshn. Sþ.