25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka sérstaklega þá velvild að leyfa mér að koma hér upp. Eins og þú sagðir var ég hér á mælendaskrá en komst ekki að fyrr en svo seint um kvöldið að ég gat ekki verið við og vegna ókunnugleika fór ég ekki fram á frestun þá. En þetta er aðeins örstutt sem ég vildi koma að áður en málið verður tekið í n.

Þetta eru aths. við tvennt hérna í frv. Hið fyrra er hvort í þessu frv. felist nokkrar þær tillögur sem tryggja gæðaeftirlit á verksmiðjutogurum, þ.e. togurum sem verka aflann sjálfir. Þetta er raunar stórmál sem þyrfti rækilega umfjöllun, en ég vildi varpa þessu fram til athugunar í n.

Í öðru lagi þykir mér menntun gert lágt undir höfði í þessu frv. Það virðast t.d. engar menntunarkröfur vera gerðar til fiskmatsstjóra sem á þó að hafa yfirumsjón með allri starfsemi ríkismats sjávarafurða og m.a. gefa umsögn um hæfni matsmanna, fiskmatsmanna. Í 10. gr. sem er allt of loðin að mínu mati segir svo, með leyfi forseta:

Sjútvrn. löggildir matsmenn að fenginni umsögn fiskmatsstjóra. Þeir skulu hafa sótt námskeið fyrir fiskmatsmenn en þeir sem lokið hafa prófi fiskiðnaðarmanna skulu að öðru jöfnu njóta forgangs til löggildingar.“

Og í öðru lagi er sagt: „Fiskmatsstjóra er heimilt að veita mönnum án tilskilinna réttinda undanþágu til matsstarfa í allt að þrjá mánuði ef sérstakar aðstæður leyfa.“

Nú höfum við Fiskvinnsluskóla hér á landi sem menntar fólk í fiskmati og ætla mætti að próf þaðan væri fullgilding á hæfni manna til þessara starfa. En hér er talað um námskeið og ekki einu sinni kveðið á um hver eigi að halda þau námskeið. Þetta vil ég biðja n. að athuga vel.

Og að lokum — svo að ég sé nú ekki að misnota mér frekar velvild forseta — vildi ég varpa því fram til umhugsunar hvort ekki er nær að leggja fram nægilegt fé til uppbyggingar Fiskvinnsluskólans heldur en að eyða því í stofnun af þessu tagi.