25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hæstv. fjmrh. mælti hér fyrir um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs hefur þegar fengið meðferð í hv. Ed. eins og hæstv. ráðh. gat um. Og þar urðu nokkrar deilur um málið þar sem stjórnarandstaðan flutti þar till. um breyt. á frv. sem gerði ráð fyrir að gengið væri frá því í lagatextanum með óyggjandi hætti að það fé sem aflaðist með sölu þeirra skírteina sem hér um ræðir færi örugglega í Byggingarsjóð ríkisins og það sem vantaði síðan á að þetta dygði á árinu 1983 yrði svo fengið að láni úr Seðlabankanum til að tryggt væri að staðið yrði við þau loforð sem gefin hafa verið húsbyggjendum um greiðslur þessara lána á árinu 1983.

Við umr. um málið í hv. Ed. greindi hæstv. fjmrh. frá því að hann teldi að ef ekki seldist nægilega mikið af þessum bréfum eða spariskírteinum þá væri í rauninni ekkert annað að gera fyrir húsbyggjendur en að bíða þar sem ekki væri kostur á að draga meira á Seðlabankann en þegar hefði verið gert. Ekki væri kostur á að taka frekari erlend lán og ríkissjóður hefði ekki möguleika til að bæta við greiðslur til Byggingarsjóðs ríkisins.

Nú liggja fyrir hjá Byggingarsjóði ríkisins umsóknir nokkuð á fjórða þúsund samkvæmt auglýsingum sem félmrn. hefur látið frá sér fara um helmingshækkun á þeim lánum sem veitt hafa verið á árunum 1981 og 80 til húsbyggjenda. Og það mun vera ljóst nú þegar kostnaðurinn við að standa við þessi loforð nemur þegar 250 millj. kr. og það er jafnljóst að fjármunir nást ekki fyrir áramót með sölu þessara spariskírteina til að standa við þau fyrirheit sem þarna hafa verið gefin húsbyggjendum. Vantar þar vafalaust mjög mikið á, vafalaust tugi millj. kr., kannske 100 millj. eða meira. Um það er að sjálfsögðu ekki hægt að segja á þessu stigi málsins.

En ég vil í tilefni af þessu frv. og umr. sem fram fer hér spyrja hæstv. fjmrh. að því: Ætlar ríkisstj. að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um greiðslu á þessum lánum til húsbyggjenda fyrir áramót? Og ef svo er, sem ég tel í rauninni algjörlega óhjákvæmilegt og ríkisstj. sé dæmd til að gera, vil ég spyrja: Hvernig á að standa við þessi lán? Verður það gert með þeim hætti sem fjmrh. hæstv. taldi alls ekki koma til greina þegar hann ræddi málið í Ed., þ.e. þeim hætti að dregið verði frekar á Seðlabankann, að greitt verði úr ríkissjóði meira en gert hafði verið ráð fyrir? Eða verður það gert með lántökum af einhverjum toga sem ekki hefur verið gerð hér grein fyrir?

Þetta frv. er fyrst og fremst flutt til að reyna að koma til móts við þær staðreyndir að loforð ráðherranna í húsnæðismátum kosta peninga, og ef sú aðferð sem hér er lögð til gefur ekki nægilega fjármuni verður auðvitað að leita annarra leiða. Þegar málið var til meðferðar í Ed. þá flutti stjórnarandstaðan svofellda brtt.:

„Það fé sem fæst með sölu skuldabréfa, sbr. 1. og 2. mgr. þessarar gr., skal endurlánað húsbyggjendum sem viðbótarlán úr Byggingarsjóði ríkisins. Seðlabanki Íslands skal lána Byggingarsjóði ríkisins þessa upphæð, 200 millj. kr. til bráðabirgða.“

Þessi till. var felld í Ed. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort svo háttar til að ríkisstj. hafi ákveðið þrátt fyrir að hún hafi fellt till. í Ed. að koma til móts við húsbyggjendur og Byggingarsjóð ríkisins með þeim hætti sem till. gerði ráð fyrir. Ég hef um það rökstuddar upplýsingar að ætlunin sé að koma til móts við Byggingarsjóð ríkisins með greiðslum úr Seðlabankanum á þann hátt sem till. stjórnarandstöðunnar gerir ráð fyrir, till. úr Ed., þó að stjórnarliðið hafi ákveðið að fella till. í Ed.

Herra forseti, ég ætla ekki að þreyta þingheim að sinni með löngum umr. um þetta mál þó að full ástæða væri til. Ég ætla að nefna hér nokkur atriði sem nauðsynlegt er að fá upplýst áður en lengra er haldið og ég mun gera ráðstafanir til þess í þeirri n. sem fær málið til meðferðar, fjh.- og viðskn., að óska eftir frekari upplýsingum. En ég vil spyrja og mun spyrja í fjh.- og viðskn. að því hvort þetta frv. er í samræmi við afstöðu Seðlabanka Íslands. seðlabankinn hefur að sjálfsögðu mjög mikilvægu hlutverki að gegna í málum af þessum toga. Hann hefur annast sölu spariskírteina á undanförnum árum og það er vitaskuld ákaflega þýðingarmikið að með þessi mál sé farið þannig að það sé tryggt að sem best samhengi sé á milli ákvarðana, bæði þeirra sem teknar hafa verið á liðnum árum og þeirra sem teknar eru nú.

Mér finnst sú ákvörðun að tengja sölu spariskírteina — eða spariskírteini — við gengisþróun orka tvímælis, ég segi það sem mína persónulegu skoðun. Ég tel að það ýti undir vantraust á öðrum sparnaðarformum. Ég tel að vísu að fjmrh. hafi verið mikill vandi á höndum í þessu efni vegna þess að búið var að rýra trú manna mjög á lánskjaravísitöluna með ótímabæru blaðri hér og þar á liðnum misserum. Þannig að það var út af fyrir sig eðlilegt að menn reyndu að finna aðra viðmiðun í þessu efni. En ég er alls ekki viss um að gengisviðmiðunin sé þarna sú heppilegasta til að leysa lánskjaravísitöluna af hólmi, þó ekki sé nema að hluta til. Og mér finnst orka mjög tvímælis, þó að hér sé mikill vandi á höndum, að fara út í að taka upp gengisviðmiðun.

Það væri fróðlegt að fá í öðru lagi yfirlit um hvernig gengisbundinn sparnaður hefði þróast síðustu tíu árin miðað við innlendan sparnað sem byggist á lánskjaravísitölu. Ég hef rökstuddan grun um að gengisbundinn sparnaður gefi miklu lakari ávöxtun á liðnum árum, miklu lakari ávöxtun en sá sparnaður sem bundinn er lánskjaravísitölu þannig að mjög verulegum upphæðum muni. Og ég held að nauðsynlegt sé að fá á hreint þegar þetta mál er til meðferðar hér í hv. deild hvernig þetta hefði gerst á liðnum árum, það á að vera einfalt að reikna það út.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að fjmrh. geti ákveðið að gefa út ríkisvíxla sem greiðast skuli eftir ákveðinn tíma frá útgáfudegi sem þó má ekki vera lengri en tólf mánuðir. Ég tel að það sé að mörgu leyti mjög eðlilegur hlutur að fjármagna vanda ríkissjóðs sérstaklega á fyrri hluta árs frekar með útgáfu ríkisvíxla en að ganga á Seðlabankann með þeim hætti sem yfirleitt hefur verið gert þannig að ég tel að hér sé farið inn á skynsamlega braut ef hægt er að selja slíka víxla. En síðan segir: „Fjmrh. getur ákveðið forvexti af víxlum þessum.“

Nú er það svo í okkar stjórnkerfi að ráðherrum eru oft léð mikil völd og þetta er e.t.v. ekki brot á þeim venjum sem tíðkast hafa í þeim efnum. Þegar fjmrh. hæstv. var spurður í Ed. hvaða viðmiðun hann ætlaði að hafa í þessu efni sagði hann að markaðurinn yrði látinn ráða forvöxtunum. Og þegar hann var nánar spurður hvaða markaður svaraði fjmrh. mjög óljóst í þeim efnum vegna þess eðlilega að engin reynsla er til af fjármagnsmarkaði hér á landi sem hægt er að vísa til í þessu efni. Og ég vil endurtaka spurningu mína til fjmrh.: Hvað segir hann við þá sem vilja kaupa þessa pappíra um hugsanlega ávöxtun þeirra? Á hvaða verðlagsþróun eða á hvaða mælikvarða verðlagsþróunar verður hugsanlega bent? Verður bent þar á framfærsluvísitölu plús einhver prósent í vöxtum, byggingarvísitölu, lánskjaravísitölu? Verður þar bent á erlenda gjaldmiðla eða hin sérstöku dráttarréttindi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Þetta er mjög nauðsynlegt að fá að vita hér, kannske ekki endilega í umr. í dag, heldur áður en málið verður afgreitt héðan frá deild.

Síðan segir í þessu frv.: „Hann“ — þ.e. fjmrh. „getur einnig ákveðið í stað forvaxta að víxlar þessir verði seldir á almennum markaði.“ Nú er það út af fyrir sig þannig að víxlar eru iðulega seldir á almennum markaði. En það gildir hér hið sama og um vaxtaákvörðunina að lítil hefð og lítil reynsla er til í þeim efnum hér á landi. Og ef hann ætlar að opna fyrir það að selja víxlana á markaðsverði er hann auðvitað að opna fyrir það að undir ákveðnum kringumstæðum mundi hann selja víxlana með afföllum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki sé rétt skilið hjá mér að þarna sé í raun og veru opnað fyrir að víxlarnir séu seldir með afföllum. Og ég vil þá spyrja hann að því í framhaldi af því: Mundi slík iðja fjmrh. hæstv. og Seðlabankans ekki stríða gegn lögum um bann við okri sem setja fjármálastarfsemi af þessum toga, þ.e. sölu víxla með afföllum, alveg ákveðnar skorður?

Ef það nú er svo að hæstv. ríkisstj. ætli að afnema okurlögin sem væri náttúrlega eftir henni að gera væri auðvitað miklu hreinna að segja fullum fetum í þessu frv. að ríkisstj. ætlaði sér að afnema okurlögin. En ég fæ ekki betur séð en að sala víxla með afföllum eins og hér er hugsanlega verið að opna fyrir stríði að einhverju leyti gegn okurlögunum.

Ég vil loks spyrja fjmrh. að því áður en málið fer til 2. umr. hér í deild hvað þegar er selt af bréfum samkv. þeim heimildum sem liggja fyrir á árinu 1983 á innlendum lánamarkaði. Það eru mjög lágar upphæðir sem þar er í raun og veru um að ræða. Þannig að ég tel að í raun og veru sé alveg borin von að það seljist nema eitthvert brot af þeim pappírum sem hér er verið að afla lagaheimildar fyrir. En það er svo sem ekkert á móti því að reyna það og ég fyrir mitt leyti vil lýsa mig reiðubúinn til að greiða fyrir málinu í gegnum þingið ef svo færi að þarna væri hægt að greiða fyrir fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins. Það er auðvitað sjálfsagt að gera slíkt vegna þess að frv. er auðvitað fyrst og fremst til komið af þeim ástæðum. En ég held að óhjákvæmilegt sé vegna þess að hér er sumpart lagt mjög inn á nýjar brautir, að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar og deildin sjálf afli sér ítarlegra upplýsinga um þetta mál, bæði frá Seðlabanka og fjmrn. og m.a. um það hvernig salan stendur á þeim spariskírteinum og bréfum sem þegar hefur verið aflað heimilda fyrir.

Ég endurtek það, herra forseti, að ég er ekki endilega að fara fram á að fjmrh. hæstv. svari þessum spurningum öttum núna, það getur verið að eins gott sé að fá við þeim svör til að byrja með í hv. n. En ég taldi óhjákvæmilegt að halda þessum atriðum til haga strax í upphafi umr.