29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

397. mál, eftirlit og mat á ferskum fiski

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er í undirbúningi meira af fræðsluefni um meðferð á fiski og það er ætlunin að gera mynd um meðferð á fiski um borð í togurum. Það er því miður svo að víða í bátaflotanum er tiltölulega léleg aðstaða og einnig í sumum af togurunum. Ég hef tekið eftir því að hjá þeim sem eru best útbúnir og t.d. hafa komið nýlega úr endurbótum hefur mat á fiski og gæði hráefnis mjög batnað. Það er mjög mikið atriði að þessi útbúnaður sé sem bestur um borð í skipunum. Við höfum beint því til Fiskveiðasjóðs að endurskoða reglur um lánveitingar m.a. með það markmið í huga að hvetja meira til þess að koma upp slíkri aðstöðu.

Ég skal ekki leggja neinn dóm á það hvernig slík tilraun sem þessi skal fara fram. Ég vil ekki setjast í það dómarasæti. Ég treysti þeim vísindamönnum og rannsóknarmönnum sem um þetta fjalla, það er þeirra starf, og ég vil ekki blanda mér í það. En alla vega mun koma út úr þessu ákveðin niðurstaða, jafnvel þótt það sé sjálfsagt rétt hjá fyrirspyrjanda að það er í mörgum tilfellum erfitt að hafa fisk svo lengi í vatni. En það fer að sjálfsögðu eftir aflabrögðum og aðstöðu um borð í skipum. Hún er mjög misjöfn og í sumum skipum er það e.t.v. hægt en í öðrum ekki. En ég tek undir það að það er mikilvægt að fá sem best úr þessu skorið, þannig að ekki séu deilur um það á milli aðila í sjávarútveginum og rannsóknar- og vísindamanna hvernig best sé að standa að þessum hlutum til að ná sem almennustum bestum árangri, jafnvel þótt einstakar aðferðir geti skilað jafngóðum árangri í öðrum tilvikum. T.d. hefur það að sjálfsögðu mjög mikið að segja hvað fiskurinn er vel lifandi, því að fiski sem er vel lifandi blæðir út á tiltölulega stuttum tíma en ef fiskur kemur hálfdauður í aðgerð tekur það mun lengri tíma.