29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

6. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Með till. þessari, sem frsm. hefur hér nýlokið við að kynna, um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, er hreyft mjög tímabæru og merku máli. Út af fyrir sig má segja að það sýni hve tímabær og merk afvopnunar- og friðarmálin eru að mati Alþingis að nú skuli liggja fyrir þrjár tillögur sem um þau fjalla, en þetta er hin fyrsta af þeim, sem borin var fram hér í þingbyrjun.

Við Íslendingar höfum lengi látið lönd og leið þá miklu umræðu um friðar- og öryggismál, sem átt hefur sér stað á síðustu árum og reyndar miklu lengur, með öðrum þjóðum. Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hverjar eru ástæður þess fásinnis, ef svo mætti kalla. Er hér við að fást svo risavaxið og jafnvel ógnvænlegt málefni að við treystum okkur ekki til þess að eiga þátt í umr. nema kannske svona rétt úti á jaðri? Eða er ástæðan sú, að við höfum talið að okkur skorti sérfræðiþekkingu á úrræðum í afvopnunarmálum og úrræðum til takmörkunar vígbúnaðar? Eða er ástæðan e.t.v. sú, að vegna þess að við höfum engan her á eigin vegum, þó svo við höfum ágætt varnarlið í landinu, teljum við okkur þess vanbúna að ræða um vopnakerfi og vígbúnað, sem eru þó svo snar þáttur í þjóðfélagsumræðunni með öllum nálægum þjóðum. Það er e.t.v. erfitt að svara þessum spurningum, en ég hugsa að allir þessir þrír þættir, sem ég nefndi, eigi hér einhvern hlut að máli og kannske fleiri.

till. sem hér er borin fram á þskj. 6 um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar minnir okkur á þá staðreynd, að þessi mál ganga ekki lengur hjá garði okkar Íslendinga án þess að þau komi okkur við og án þess að við verðum að marka okkur afstöðu til þeirra, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er vissulega kominn tími til þess að rödd Alþingis heyrist, þar sem því er skorinort lýst yfir að brýna nauðsyn beri til að þjóðir heims, og þá ekki síst kjarnorkuveldin, sameinist um raunhæfa stefnu í afvopnunarmátum, sem leitt geti til samninga um gagnkvæma og alhliða afvopnun. En þá er vitanlega nauðsynlegt að menn átti sig á þeirri spurningu og því orði sem hv. 11. þm. Reykv. vék hér að áðan, því að það er vitanlega kjarni málsins hvað er raunhæft í þessum efnum, og sýnist kannske sitt hverjum um það mál.

Það sem ég nefndi er ekki síst áríðandi nú um stundir, þegar miklir og afdrifaríkir atburðir eru að gerast í varnar- og vígbúnaðarmálum Evrópu og Bandaríkjanna, þar sem ábyrgðin og ákvörðunartakan hvílir þungt á því varnarbandalagi m.a. sem við erum þátttakendur í, Atlantshafsbandalaginu. Ég hugsa að það hafi margir orðið fyrir vonbrigðum, þegar fregnir bárust um að fulltrúar Sovétríkjanna gerðu sér lítið fyrir og slitu afvopnunarviðræðunum í Genf um meðaldrægar kjarnaflaugar og gengu út af fundum þar. Ég sagði: það hafa ugglaust margir orðið fyrir vonbrigðum með þá niðurstöðu, en ugglaust hefur hún ekki valdið undrun manna vegna þess að því var löngu yfirlýst af fulltrúum Sovétríkjanna að þeir mundu grípa til þess ráðs ef Atlantshafsbandalagið héldi fast við áform sín sem samþykkt höfðu verið um uppsetningu eldflauga í ýmsum Evrópuríkjum. Engu að síður höfðu menn vonað í lengstu lög að Sovétríkin mundu ekki grípa til þess ráðs, þar sem samkomulag og samningar eru ólíkt betri en vopnuð átök — eru vitanlega eina leiðin til þess að komast að friðsamlegri niðurstöðu í þessum efnum, jafna ágreininginn og móta þá málamiðlunarstefnu sem stórveldin bæði, sem þarna eiga hlut að máli, geta sætt sig við. Nú hafa þeir ánægjulegu atburðir gerst að bréf hefur borist frá félaga Andropov, þar sem hann gefur til kynna að Sovétríkin séu fús til framhaldandi viðræðna og er það vel.

Nú horfa samt mál svo, að Atlantshafsbandalagið mun halda fast við þá fyrirætlun sína að byrja á því að koma fyrir Pershing-eldflaugum í Vestur-Þýskalandi og stýriflaugum í öðrum fjórum Evrópulöndum í samræmi við fyrri samþykktir sínar og sem mótvægi við þann kjarnorkubúnað Sovétríkjanna sem þegar er fyrir hendi í Evrópu. Þessi framkvæmd mun vitanlega kalla á svipaðar framkvæmdir Sovétríkjanna í löndum Austur-Evrópu, eins og tilkynnt var af miðstjórn Sovétríkjanna fyrir um það bil tveimur vikum. Þau vopn verða þá til viðbótar þeim 243 S-20 flugskeytum, sem Sovétríkin hafa þegar sett upp í Evrópu, og þeim 232 S-4 eldflaugum þeirra, sem þar eru fyrir og standa þar á skotpöllum. Ákvörðun Atlantshafsbandalagsins var tekin í ljósi þessara yfirburða Sovétríkjanna á sviði kjarnorkueldflauga í Evrópu og sem svar við þeim. Síðustu mánuðina hafa menn þó alið þá von í brjósti, að í stað fjölgunar eldflauga í Evrópu mundi saman draga í Genfarviðræðunum um fækkun kjarnorkueldflauga sovétríkjanna í Evrópu, svo að ekki kæmu til framkvæmda þau áform Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins sem ég var að lýsa, en þær vonir hafa ekki ræst hvað sem síðar verður í þeim viðræðum sem vonandi eru fram undan og um hefur verið rætt.

Nú vita allir menn sem það vilja vita, að því fer fjarri að Evrópa þurfi á nýjum kjarnorkueldflaugum eða vopnafans að halda. Fyrir utan þær eldflaugar sem áður voru nefndar ræður Atlantshafsbandalagið í dag yfir 6 þús. kjarnorkuvopnum í Evrópu. Sambærileg tala að því er Sovétríkin varðar er talin vera 9–12 þús. Þessu til viðbótar ráða Bretar og Frakkar yfir 162 kjarnorkueldflaugum á þessu svæði. Það liggur því í augum uppi, ef litið er hér á heildarmyndina, að það er að bera í bakkafullan lækinn að fjölga kjarnavopnum í Evrópu frá því sem nú er. Þó að Atlantshafsbandalagið hafi lýst því yfir nýlega að það muni eyðileggja nær 2000 af eldri flaugum sínum er gereyðingarmáttur hinna nýju eldflauga beggja aðila slíkur að um verulega aukningu verður hér að ræða.

Það er í ljósi þessarar uggvænlegu þróunar og með hana að bakgrunni sem sú þáltill. sem hér er á ferðum er miklu tímabærari en ella. Þeir atburðir sem hafa verið að gerast undanfarna mánuði og misseri í vígbúnaðarmálunum í Evrópu hafa loks fært okkur Íslendingum heim sanninn um að við getum ekki lengur staðið utan sviðsins sem hlutlausir áhorfendur, að mestu skoðanalausir um þróunina í þessum efnum. Við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu og eigum þess vegna óbeinan hlut í viðræðum stórveldanna í Genf, sem staðið hafa að undanförnu. Það liggur jafnframt í augum uppi að stórvægileg fjölgun kjarnorkueldflauga í Evrópu hlýtur að hafa áhrif á okkar eigið öryggi ekki síður en þeirra þjóða sem nær eru skotpöllunum. Í þessu sambandi má minna á það, að er Sovétríkin gengu út af samningafundunum í Genf nú fyrir nokkrum dögum var því af hálfu þeirra m.a. lýst yfir að vígbúnaður mundi nú upp settur í löndum Austur-Evrópu og jafnframt aukinn kjarnorkuvígbúnaður á hafinu, en það er mál sem vitanlega hlýtur að snerta okkur Íslendinga beint og styður enn það atriði sem ég var að nefna. Þess vegna er nú e.t.v. tímabærara en nokkru sinni fyrr að Íslendingar móti sér raunhæfa stefnu í afvopnunarmálum og leggi sitt lóð á vogarskálina svo að þessari óheillaþróun megi verða snúið við og jafnframt að Íslendingar láti rödd sína heyrast svo að eftir verði tekið. Þar hvílir skyldan og ábyrgðin fyrst og fremst á Alþingi og ríkisstj. þessa lands og undan því verður ekki lengur vikist.

Ég held að það sé ekki ofmælt þótt sagt sé að atburðir síðustu misseranna hafi vakið þjóðina til umhugsunar um hina miklu nauðsyn þess að stöðva vígbúnaðarkapphlaup stórveldanna og stefna í átt til afvopnunar svo sem næst síðasti ræðumaður, hv. 4. þm. Reykv., ræddi í ítarlegu, ljósu og glöggu máli rétt áðan. Friðarhreyfingar hafa verið stofnaðar hér á landi líkt og í nágrannalöndunum, ráðstefnur haldnar, ályktanir gerðar um hvert bæri að stefna á þessu sviði. Í því sambandi er ekki úr vegi að minnast á nýlega ályktun sem Kirkjuþing samþykkti samhljóða eftir miklar umr. Þar er skorað á alla Íslendinga og allar þjóðir heims að vinna að friði í heimi, stöðvun vígbúnaðarkapphlaups og útrýmingu gereyðingarvopna. Kirkjuþingið beindi því til stjórnmálaflokkanna og ríkisstj. að fylgja þessu máli eftir, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Við slíkri áskorun er erfitt að skella skollaeyrum.

Ályktun Kirkjuþings, sem ég nefndi, og öll sú umræða sem nú er hafin hér á landi um þessi mál, og það er vel að sú umræða er hafin, vekur upp þá kjarnaspurningu, á hvern hátt þeim markmiðum verði náð sem ég var að víkja að. Við þeirri spurningu er vitanlega ekki til neitt einfalt svar og því er sú úttekt eða tillögugerð sem þáltill. á þskj. 6 gerir ráð fyrir hin mikilvægasta. Í afvopnunarumr. á undanförnum misserum má þó greina fjórar meginhugmyndir í þessu efni, sem kannske er ástæða til að víkja að og nefna mjög stuttlega.

Það er í fyrsta lagi frysting á þróun, framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna. Það er í öðru lagi afneitun upphafs notkunar kjarnorkuvopna í átökum í Evrópu. Það eru í þriðja lagi hugmyndir Palme-nefndarinnar svokölluðu um aðgerðir til eflingar sameiginlegu öryggi. Og það er í fjórða lagi hugmyndin eða tillagan, sem mikið hefur verið áberandi í umr., um kjarnorkulaus svæði. Þessar fjórar hugmyndir, og reyndar eru þær ugglaust miklu fleiri, hygg ég að séu þær hugmyndir sem mest áberandi hafa verið í umr. að undanförnu. Þær eru hver annarri tengdar og að mörgu leyti hafa þær hver um sig til síns ágætis nokkuð.

Hér gefst ekki tími til að þessu sinni að gera þeim frekari skil, en ég vil þó minnast á þá till. sem fyrst var nefnd, hina svonefndu frystingu kjarnorkuvopna. Sú till. hefur víða hlotið hljómgrunn, eins og menn vita, og m.a. verið samþykkt af fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hængurinn er sá, að hún hefur hins vegar hvorki notið stuðnings Sovétríkjanna eða Bandaríkjanna né annarra þeirra þjóða sem yfir kjarnorkuvopnum ráða. Kjarni hennar er sá, að þessi ríki semji þegar í stað um gagnkvæma stöðvun eða frystingu á öllum tilraunum, framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna og einnig þeirra eldflauga og nýrra flugvéla sem hafa það hlutverk að bera slík vopn. Slíka frystingu telja talsmenn þeirrar tillögu vera forsendur þess að draga megi úr áhættu á kjarnorkustyrjöld sem og að fækka kjarnorkuvopnunum. Óhjákvæmilegur þáttur slíks samkomulags verði þó að vera ákvörðun um raunhæft eftirlit með því að samkomulagið verði haldið. Að þeim áfanga loknum verði næsta skrefið það, að stórveldin taki upp samninga um niðurskurð á kjarnorkuvopnum sínum undir alþjóðlegu eftirliti, þannig að um tiltekna hlutfallslega fækkun verði að ræða á hverju ári.

Hér er vissulega um athyglisverða tillögu og nýjung að ræða, en því er ekki að neita að tæknileg vandamál við slíka frystingu kjarnorkuvopna eru mikil. Þar er fyrst og fremst um að ræða framkvæmd eftirlitsins, sem ég vék að hér áðan, svo að unnt sé að tryggja að við samninginn verði staðið. Það er ekki í fyrsta skipti sem rætt er um mikilvægi þess að tryggja eftirlit með framleiðslu kjarnorkuvopna, heldur er það gamalt vandamál þar sem afstaða Sovétríkjanna hefur reynst hvað þyngst í skauti og tregða þeirra til að opna land sitt fyrir alþjóðlegu eftirliti í þeim mæli sem önnur ríki hafa óskað eftir. Þess vegna er óvíst á þessari stundu um framtíð og framgang hugmyndarinnar um frystingu kjarnorkuvopna. Þó er hún vissulega þess virði að henni sé haldið vakandi þótt ekki væri þar um að ræða nema takmarkaða frystingu á ákveðnum tegundum vopna, svo sem fjölda kjarnaodda eða stýriflauga á sjó svo að aðeins tvær tegundir séu hér nefndar.

Hin mikla friðar- og afvopnunarumr. síðustu mánaða leiðir hugann að málum sem standa okkur að vissu leyti nær á þessu landi. Í 32 ár hefur erlent varnarlið dvalist hér á landi að okkar beiðni. Starf að vörnum landsins, ákvörðunartaka og stefnumótun í þeim efnum hefur á þessum tíma alfarið verið í höndum yfirmanna varnarliðsins í samvinnu við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og við íslensk yfirvöld í utanrrn. Þó höfum við Íslendingar verið af eðlilegum ástæðum lítt til ráða kallaðir, ekki vegna þess að viljann hafi skort af hálfu varnarmálayfirvalda, heldur einfaldlega vegna þess að okkur hefur skort sérþekkingu og sérmenntaða menn á þessu sviði. Þó eru varnir og öryggi þjóðarinnar verkefni sem forgang ættu að hafa fram yfir flest annað og augljós nauðsyn þess að við höfum getu og þekkingu til að mynda okkur þar sjálfstæðar skoðanir. Hér hefur óneitanlega nokkur vanræksla átt sér stað, þótt oft hafi verið á þessa brotalöm bent í opinberri umræðu hér á landi. Það sæmir okkur þó ekki öllu lengur sem sjálfstæðri þjóð að standa utan við umræður og ákvarðanatöku um okkar eigin varnir og öryggi og þiggja í þeim efnum mestalla vitneskju af öðrum, þótt góðir og tryggir bandamenn séu. Á þessu þarf að verða breyting hið fyrsta. Við þurfum að eignast lið íslenskra kunnáttumanna sem er í stakk búið til að vega og meta þær varnarákvarðanir og þá varnarstefnu sem okkar eigin hag varðar og vera jafnan til ráðgjafar íslenskum stjórnvöldum þegar efni standa til. Í því sambandi má minna á þá þáltill. um íslenskan varnarráðgjafa sem þrír flokkar fluttu hér á síðasta þingi, en náði ekki fram að ganga. Það var hið merkasta og þarfasta mál og væri vissulega ástæða til að vekja það aftur og endurflytja á yfirstandandi Alþingi.

Herra forseti. Þegar rætt er um afvopnunarmál og takmörkun vígbúnaðar er nauðsynlegt að minnast á eitt atriði að lokum. Það varðar störf okkar Íslendinga og framlag til þessara mála á alþjóðavettvangi. Allt frá stofnun samtakanna hafa Sameinuðu þjóðirnar gefið afvopnunarmálum og friðargæslumálum mikinn gaum.

Það skyldi engan heldur undra, þar sem samtökin voru stofnuð til að varðveita friðinn og efla eindrægni í sambúð ríkja veraldar. Nær frá upphafi hafa hin Norðurlöndin sinnt þessu starfi á sviði afvopnunar- og friðarmála af mikilli alúð og áhuga. Þau hafa öll átt sæti í afvopnunarnefnd samtakanna, ýmsum sáttanefndum og í öryggisráðinu sjálfu. Á ráðstefnum um þessi mál hafa þau öll látið mikið að sér kveða og unnið þar merkt og jákvætt starf. Nægir í því efni að nefna aðeins eitt nafn — nafn Ölvu Myrdal sendiherra Svíþjóðar í afvopnunar- og friðarmálum.

Hér er um að ræða pólitískt starf sem ekki kallar á sérfræðikunnáttu á þá lund sem ég var að víkja að áðan. Þrátt fyrir það er Ísland eina ríki Norðurlanda sem leitt hefur þetta mikilvæga starf hjá sér af einhverjum ástæðum. Á þessu sviði hefur rödd okkar ekki heyrst og við höfum þar ekkert haft til málanna að leggja, utan árlegrar ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem við segjumst vera á móti stríði, enda vopnlausir sjálfir. Ég hef aldrei skilið hvernig á þessari einstöku hlédrægni stendur þegar um jafnmikilvæg mál er að ræða og sem skipta sköpum fyrir þjóðir veraldar. Þó hefur okkur sem öðrum Norðurlandaþjóðum einatt staðið til boða að taka sæti á þessum vettvangi, m.a. í öryggisráðinu, en við höfum jafnan neitað því. Þessi stefna er ekki stórmannleg og það er kominn tími til þess að við hættum að vera hlutlausir og fáfróðir áhorfendur í þessu alþjóðasamstarfi. Við erum þar fyllilega gjaldgengir, eigum mannkostamenn sem fyllt gætu sæti okkar á þeim vettvangi með sóma og rækt það hlutverk þar sem okkur ber að rækja. Nú þegar umræðan um frið og afvopnun er að komast í öndvegi hér á landi er full ástæða að breyta hér um stefnu og ganga af fullri einurð til liðs við þær þjóðir sem hér telja með réttu að verðugt verk sé að vinna.

Friðarverðlaunahafinn Willy Brandt sagði nýlega í ræðu: Fleiri vopn gera mannkynið ekki öruggara, heldur aðeins fátækara. — Við skulum gera okkar til að koma í veg fyrir að svo verði.