05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv. er að ýmsu eða jafnvel öllu leyti dæmigert fyrir það sem er lítilvægast og kannske lélegast í íslenskri efnahagspólitík. Í fyrsta lagi er hérna um brbl. að ræða, lög sem eru sett að Alþingi óspurðu og koma til umr. hálfu ári eftir gildistöku. Síðan er Alþingi á málfundum eins og menntskælingar svo vikum skiptir í tómarúmi vegna þess að búið er að ákveða þessi mál fram á næsta ár.

Í öðru lagi er þetta frv. ávöxtur stjórnarmyndunarviðræðna þar sem útkoman er ekki í samræmi við það sem sagt er fyrir kosningar og kjósendur veita umboð til þess að gera.

Í þriðja lagi heldur ríkisstj. afgreiðslu málsins til streitu þrátt fyrir ábendingar bæði í fjölmiðlum og á hinu háa Alþingi frá stjórnmálamönnum og efnahagssérfræðingum, ábendingar um að frv. nái ekki mikilvægasta markmiði sínu, þ.e. að létta kjör hinna lægst launuðu. Það geigar í veigamesta atriðinu og samt er einsýni, þröngsýni eða ráðaleysi ríkisstj. svo mikið að málarekstrinum er haldið áfram í gegnum þingið.

Í fjórða lagi er frv. dæmigerð pólitísk dula eða leiktjöld sem veifað er framan í fólk í blekkingarskyni því eins og vikið verður að síðar er þar ekkert sem raunverulegu máli skiptir í efnahagsmálum.

Og ef við snúum okkur að frv. sjálfu og einstökum atriðum kemur í ljós í fyrsta lagi eins og vikið hefur verið að áður að 1400 kr. afslátturinn nýtist akkúrat ekki þeim sem sárast eru þurfandi fyrir þessar kjarabætur.

Í öðru lagi: Þó svo að 1400 kr. nýttust er hér á ferðinni þvílíkur lúsarskammtur að skömm er hverri ríkisstj. að leggja það til og næstum skömm fyrir Alþingi að ræða það alvarlega. 1400 kr. eru 200 kr. á mánuði frá gildistöku laganna til ársloka. Hvað fá menn fyrir 200 kr. á mánuði?

Í þriðja lagi má t.d. taka ákvæðið um 7 ára aldurstakmörkin. Það er athyglisvert því að þar er ein af þessum dæmigerðu stjórnvaldsaðgerðum sem engar forsendur eiga í raun og veru í lífi fólksins sem þær eiga að snerta. Ef ástæða þykir til hækkunar barnabóta á hún auðvitað að koma til þeirra sem njóta barnabóta. Það á sér engar skiljanlegar forsendur í þessu tilfelli að kljúfa þá neytendur niður í smærri hópa.

Í fjórða lagi má síðan taka úr þessu ágæta frv. fyrirheitið um 150 millj. til jöfnunar og lækkunar hitakostnaðar. Það er í raun mál út af fyrir sig. Þar er eina ferðina enn verið að henda peningum út í vindinn. Mönnum hefur verið tíðrætt undanfarnar vikur og mánuði um óarðbæra fjárfestingu í sjávarútvegi, verslun og bankastarfsemi. Hérna er enn eitt dæmi um sóun, en munurinn er bara sá að hér mun ekkert standa eftir, ekki einu sinni óarðbær togari eða óarðbær bankakjallari. Peningar sem varið er til niðurgreiðslu á hitakostnaði án þess að gera nokkrar kröfur um einangrun húsa fara að langmestu leyti til einskis. Þeir peningar vernda engin lífskjör eins og heiti þessa frv. þó bendir til. Þeir vernda hins vegar orkusóun þeirra sem með mestu hugsunar- eða hirðuleysi spreða orkunni út um víðan völl og það er á kostnað þeirra sem fyrirhyggju hafa og gæta sparsemi. Það er dæmalaust að ríkisstj. sem kveðst ætla að taka á vandanum, hefja nýsköpun í umgengni við fjármuni þjóðarinnar skuli á fyrsta degi setja lög um svona sóun. Það er hins vegar eðlilegt að menn vilji létta undir með þeim sem hæstan húshitunarkostnað hafa vegna hás orkuverðs, en það má ekki verða gjöf til þeirra sem sóa þessari dýrmætu auðlind mest.

Ég vil að síðustu bara segja þetta: Þetta þinghald er í raun alveg stórkostlegt. Efnahagsmál eru forgangsverkefni þess. Einu efnahagsmálin sem það ræðir hins vegar um eru 6 mánaða gamlir frumburðir ríkisstj., brbl. sem standa enn í marga mánuði. Menn spyrja sig: Hvar eru efnahagsúrræðin? Þau eru nefnilega engin. Það eina sem Alþingi gerir í efnahagsmálum er að ræða gamlar skóbætur síðan í vor. En það verður kannske þessari þjóð til bjargar að þó eru rædd mikilvæg mál annars staðar úti í þjóðfélaginu. Það eru staðir eins og þing LÍÚ, það eru staðir eins og Fiskiþing, það eru staðir eins og þing Farmanna- og fiskimannasambandsins. Þar hafa menn setið og rætt alvarleg mál og það er spurning hvort ekki væri nú ráð fyrir ríkisstj. að leggja fram einhver mál á þessu þingi sem raunverulega skipta máli og gætu orðið til varnar lífskjörum í landinu. En kannske fer eins og sumir eru farnir að spá að þau mál verði látin bíða og verði síðan gefin út sem brbl. í des. eða jan. svo að kúrsinum sé haldið.

Ég hef lokið máli mínu.