06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. fyrirspyrjandi, 2. landsk. þm., sagði hér þegar hún mælti fyrir fsp. til mín um átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna, að hér er um gífurlegt vandamál að ræða. Ég vil strax taka það fram að ég mun gera allt það sem í mínu valdi stendur til að vinna gegn því að afleiðingarnar verði verri, heldur fari frekar að snúa þar á betri veg.

Það eru margir sem ég hef átt viðræður við um þetta má1 á þeim stutta tíma sem ég hef verið í dómsmrn. og hef ég rætt það við þá aðila sem mest um það fjalla. Ég held að það sé þess vegna eðlilegt að ég lesi hér upp grg. frá tveimur þeim aðilum sem kannske standa einna mest í þessu daglega af hendi dómsmrn., annars vegar er það lögreglustjóraembættið í Reykjavík og hins vegar er það Sakadómur í ávana- og fíkniefnum og starfsmenn hans.

Lögreglustjóri segir svo um eflingu löggæslu: Hann leggur til að ráðinn verði aðstoðaryfirlögregluþjónn að embætti lögreglustjórans í Reykjavík sem vinni að rannsókn mála og þá fyrst og fremst fíkniefnamála. Hlutverk hans verði að gegna starfi yfirlögregluþjóns rannsóknadeildarinnar í forföllum. Fyrst og fremst yrði hann þó lögtærðum fulltrúa til aðstoðar við að stjórna rannsóknum og hafa umsjón með eftirliti á sviði fíkniefnamála. Lögreglumönnum sem koma til starfa í fíkniefnadeildinni og öðrum deildum sex mánuði í senn verði fjölgað úr tveimur í átta, en ráðnir verði sex lögregluþjónar til embættisins svo mannafli annarra deilda verði ekki rýrður, enda eru þær yfirhlaðnar verkefnum og útilokað að draga úr störfum þar.

Það hefur reynst mjög vel að skipa mönnum úr öðrum deildum til starfa í rannsóknadeild í tiltekinn tíma. Með því hefur rannsóknadeildin verið efld og aðrar deildir gerðar hæfari til að vinna að uppljóstrun brota með góðum árangri. Á þetta ekki síst við á sviði fíkniefnamála, en reynslan sýnir að fíkniefni eru höfð um hönd á almannafæri, veitingastöðum og ýmsum stöðum sem brotamenn venja komur sínar á og lögreglan hefur eftirlit með.

Um leið og lögð er áhersla á að lögreglumenn í öllum deildum lögreglunnar kunni sem best skil á fíkniefnum og hafi vakandi auga með misnotkun þeirra þarf innan fíkniefnadeildarinnar að vinna öflugt og vel skipulagt eftirlitsstarf með innflutningi, dreifingu og neyslu fíkniefna. Í því sambandi er heppilegt að koma á vaktaskiptum innan deildanna svo að sinna megi eftirlitsstörfum á hinum ýmsu tímum sólarhringsins. Í lögregluumdæmum utan Reykjavíkur verði 1–2 lögregluþjónum falið að sinna sérstaklega fíkniefnamálum. Í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli verði 2–3 tollþjónum á hvorum stað falið sérstakt eftirlit með fíkniefnum á starfssvæði sínu. Dæmin sýna að fíkniefnin eru flutt til landsins með skipum og flugvélum í farangri farþega og sjómanna. Því verður að hafa öflugt eftirlit lögreglu og tollgæslu í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. En virkt eftirlit á þessum stöðum getur haft þau áhrif að brotamenn kanni nýjar leiðir, flytji fíkniefni til staða utan Reykjavíkur með skipum sem koma þar fyrst að landi eða sendi þau í pósti frá útlöndum til einhverra staða utan höfuðborgarinnar. Þess vegna er brýnt að lögreglu- og tollgæslumenn hvar sem er á landinu haldi vöku sinni og hafi staðgóða þekkingu og þjálfun á sviði fíkniefnamála.

Til þess að ná árangri í baráttunni gegn fíkniefnum hér á landi þurfa löggæslumenn að hafa sérþekkingu á hinum ýmsu efnum, verðgildi þeirra í sölu og dreifingu, neysluvenjum fólks er efnin notar, háttum brotamanna o.s.frv. Því hefur menntun og þjálfun lögreglumanna verið aukin verulega síðari ár á þessu sviði og er kennsla í fíkniefnamálum nú fastur liður í námsskrá Lögregluskólans. Þar hafa oft á undanförnum árum verið haldin sérnámskeið í fíkniefnarannsóknum fyrir lögreglumenn alls staðar af landinu. Einnig hafa lögreglumenn nokkrum sinnum verið sendir til nágrannalandanna á námskeið í rannsóknum fíkniefnamála og hefur það gefið góða raun. Þá hafa verið haldin sérstök námskeið í Lögregluskólanum fyrir starfsmenn fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og þá lögreglumenn sem í öðrum umdæmum verða valdir til þess að sinna fíkniefnamálum sérstaklega. Auk þess er lagt til að lögreglumenn utan Reykjavíkur og tollþjónar frá Reykjavík og frá Keflavíkurflugvelli komi til starfa í ákveðinn tíma í fíkniefnadeildinni árið 1984. Á næsta ári verði lögreglumenn úr Reykjavík og utan af landi sendir til náms og starfsþjálfunar á sviði fíkniefnamála hjá lögreglunni í höfuðborgum Norðurlandanna. Í Danmörku og Svíþjóð er fíkniefnamisferli vaxandi áhyggjuefni, en þaðan og frá Hollandi er talið að berist mestur hluti þeirra fíkniefna sem til landsins koma.

Setja þarf reglur um vinnu og starfsskiptingu á sviði fíkniefnamála milli Sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum, lögreglustjórans í Reykjavík og annarra lögreglustjóra í landinu. Í því sambandi má nefna nokkur verkefni sem heppilegt væri að fela embætti lögreglustjórans í Reykjavík:

1. Að halda heildarspjaldskrá yfir brotamenn og ýmsar upplýsingar fyrir landið allt.

2. Að hafa umsjón með og annast tengsl milli lögreglu og tollgæslu.

3. Að veita aðstoð við rannsókn fíkniefnamála hvar sem er á landinu.

4. Að annast tengsl við erlenda rannsóknaraðila. Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hefur fram að þessu annast þau verkefni sem hér að framan eru talin. Þeim þarf hins vegar að sinna miklu betur, tryggja þar að upplýsingar berist frá öllum umdæmum varðandi fíkniefnamisferli, og nauðsynlegt er að lögreglan í landinu hafi jafnan greiðan aðgang að öllum upplýsingum sem fyrir liggja. Með hliðsjón af sívaxandi málafjölda á þessu sviði ber brýna nauðsyn til að nú þegar verði farið að leggja drög að tölvuvinnslu á sviði fíkniefnarannsókna. Þá er lagt til að stofnuð verði samstarfsnefnd löggæsluaðila á höfuðborgarsvæðinu varðandi fíkniefnarannsóknir. Til að byrja með eigi í henni sæti fulltrúar frá Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Komi í ljós að gagn sé af þessu samstarfi kemur til greina að Selfoss, Keflavík og Keflavíkurflugvöllur taki einnig þátt í því.

Starfsmenn fíkniefnadeildar lögreglunnar eru ætíð reiðubúnir að veita fólki fræðslu og mæta iðulega á fundum hjá félögum og í skólum til að ræða um fíkniefni. Með því telur lögreglan að unnið sé fyrirbyggjandi starf. Með aukinni og markvissri fræðslu og áróðri gegn fíkniefnum má stuðla að sterku almenningsáliti gegn þessum vágesti. Nauðsynlegt er að fleiri, svo sem fræðslu og heilbrigðisyfirvöld, leggi hér hönd á plóginn og brýnt er að athuga með hvaða hætti fræðslu um fíkniefnamál verður best fyrir komið.

Í grg. frá Sakadómi í ávana- og fíkniefnum eru settar fram eftirfarandi tillögur:

1. Núverandi fíkniefnadeild lögreglu verði um stundarsakir og í tilraunaskyni efld með liðveislu frá tollgæslu og öðrum lögregluembættum.

2. Tilteknum lögreglumönnum, er þegar hafa aflað sér reynslu og þekkingar á sviði fíkniefnamála, verði falið að sinna þeim verkefnum öðrum fremur á hinum almennu vöktum sem þeir nú starfa á.

3. Stjórn deildar eða hóps, er nefndur var í lið 1. verði tímabundið í höndum dómsmrn.

4. Mönnum frá lögreglu og tollgæslu verði hið fyrsta gert kleift að fara í kynnisferðir og starfa um stundarsakir með félögum sínum í nágrannalöndum.

5. Tollgæslu verði útvegað kolnálartæki til sýnatöku úr póstsendingum, en einkum þó bréfum.

6. Tottgæslu verði útveguð gegnumlýsingartæki til skoðunar póstsendinga.

7. Lögreglu verði tryggt fé til kaupa á sýnishornum af ættuðum fíkniefnum.

8. Lögreglu verði veittur aðgangur að bankastofnun í því skyni að geta þaðan með litlum fyrirvara fengið fjárfúlgu vegna rannsóknaraðgerða.

9. Lögreglu verði með nánar settum reglum og takmörkunum heimilað að greiða fyrir upplýsingar er leiða til haldlagningar fíkniefna og útvega fé í því skyni.

10. Tekin verði upp mánaðarleg verðskráning fíkniefna hérlendis eftir tegundum og slíkar upplýsingar reglulega sendar nágrannaþjóðum í skiptum fyrir sams konar fróðleik þaðan.

Þetta eru í örstuttu máli niðurstöður af umræðum þeirra sem um þetta mál hafa fjallað.

Segja má að hægt sé að skipta málinu í tvennt: annars vegar er það skipulagning og hins vegar aukin starfsemi sem krefst aukins fjármagns til starfseminnar. Ég mun reyna að hraða því sem allra mest að þeim skipulagsbreytingum sem til umræðu hafa verið á vegum rn. og þessara aðila verði hrint í framkvæmd, þannig að skipulögðu samstarfi verði komið á, en jafnframt verður þá leitað eftir því hvað unnt er að fá mikið af fjármagni til að sinna þeim verkefnum sem þarna er lagt til að lögð verði áhersla á í auknara mæli.

En ég vil taka undir það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan, að menn þurfa að skoða málið allt í heild. Það kom t.d. nýlega fram í viðtali við ágætan lækni í blaði, og sama hefur komið fram hjá fjölmörgum viðmælendum mínum um þessi mál, að áfengisneysla er yfirleitt hjá öllum þeim aðilum sem í vandræðum eru orðnir, en önnur fíkniefni notuð samhliða hjá mörgum þeirra. Þetta kemur fram í þessari grein. Ég les hér örstuttar setningar, með leyfi hæstv. forseta, sem hafðar eru eftir Þórarni Tyrfingssyni:

„Það sem er þó ískyggilegast í þessum efnum og hefur farið að renna upp fyrir okkur hin allra síðustu ár er mjög aukið hlutfall þeirra sjúklinga á stöðvunum sem nota sér vín og aðra vímugjafa jöfnum höndum og eru eiginlega háðir þeim báðum, svo og geysileg fjölgun hinna krónísku fíkniefnaneytenda.“ — Síðan segir hann: „Þeir sem nota fíkniefni eingöngu eru sem betur fer aðeins 5% af þessum helmingi, þ.e. þeim helmingi sem notar fíkniefni á annað borð. Það eru aðeins 2.5% þeirra sem koma á stöðina sem eingöngu nota fíkniefni önnur en áfengi. Allir aðrir nota áfengi með eða áfengi eingöngu.“ (Forseti hringir.)

Já, ég hef þá ekki tíma til þess, herra forseti, að fjalla frekar um þetta nú, en mun e.t.v. gera grein fyrir því aftur í umr. á eftir.

Niðurstaða mín er að við reynum öll að sameinast um setningu sem gæti hljóðað eitthvað á þessa leið: Víma er voði. — Það er víman sem er voðinn og hvaða meðul það eru sem til eru notuð skiptir ekki öllu máli, það eru afleiðingarnar sem fyrst og fremst er við að glíma.