06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

95. mál, húsnæðissamvinnufélög

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Ég kem hér eingöngu vegna þess að ég gleymdi að minnast á eitt atriði sem ég vildi gjarnan að fært yrði til bókar af minni hálfu. Ég þakka hv. 5. þm. Vestfirðinga ábendingar hans og ég tel einmitt að það vandamál sem hann ræddi þurfi að leysa fyrir aðila húsnæðissamvinnufélaga engu síður en fyrir aðila að verkamannabústaðakerfi. Ég hef sjálfur einmitt horft til þessa sama möguleika að þegar um verkamannabústaðakerfið er að ræða geti sveitarfélag með einhverjum hætti yfirtekið lán eða tekið þau í sína vörslu hvernig sem slíkt má nú gerast. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki allt of hrifinn af þeim möguleika sveitarfélagsins að halda síðan eftir af launum fólks. Við verðum alla vega í lengstu lög að gera ráð fyrir ákveðinni ábyrgð aðila í þá veru að mönnum sé einfaldlega treystandi. En orðið hálfkák sem hann nefndi var einmitt það sem ég hrökk sjálfur upp við áðan.

Það hefur verið rætt hvernig húsnæðissamvinnufélögin stæðu að framkvæmdum og ég hef ákveðnar skoðanir í því máli sem ég vil að sú n. sem um þetta mál fjallar taki afstöðu til. Ég tel alveg nauðsynlegt að settar séu einfaldlega reglur um það hvernig að verkum af þessu tagi er staðið. Ég á við að húsnæðissamvinnufélagið sjálft má að mínu mati alls ekki verða að byggingaraðila, heldur eingöngu að verkkaupa þannig að að fullu sé tryggt að þar eigi sér ekki stað einhverjir hagsmunaárekstrar sem valdið geti slysum sem dæmi eru um t.d. frá Þýskalandi.

Það er ekki lengra síðan en í fyrra að hjá mjög svipuðu fyrirtæki, Neue Heimat, einu stærsta fyrirtæki á þessu sviði í Þýskalandi, komu fram mjög undarleg atvik sem leiddu til þess að segja varð upp svo til öllu því liði sem stjórnaði því fyrirtæki, því að þar voru hagsmunir þeirra aðila sem að framkvæmdunum stóðu orðnir svo samantvinnaðir að nánast var ógerningur að greiða þar úr með öðrum hætti.

Einfaldlega er um að ræða að það verði ekki formaður stjórnar húsnæðissamvinnufélagsins sem teiknar húsnæðið, það verði ekki framkvæmdastjóri húsnæðissamvinnufélagsins sem geri verkfræðiteikningarnar og það verði ekki vinir og kunningjar þessara aðila sem annist byggingaframkvæmdir, heldur verði þessi verk einfaldlega boðin út með þeim hætti sem tíðkast hjá siðuðum mönnum.