06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

110. mál, fullnýting fiskafla

Flm. (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að fá tækifæri til að mæla fyrir þessari till. þrátt fyrir miklar annir nú fyrir jólaleyfi þm. Ég lít þó svo á að þessi till. sé fyllilega tímabær í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna minnkandi afla, sem öllum er ljóst. Það hefur komið í ljós að ýmislegt í landhelgislögunum svokölluðu þarfnast endurskoðunar. Og reyndar hljóta þær till. sem nú eru uppi um skiptingu leyfilegs afla að kalla á verulegar breytingar á þeim lögum, og auka þarf verulega heimildir til setningar reglugerða.

till. sem hér er flutt miðar að því að taka af öll tvímæli um heimildir til sjútvrh. að skylda fiskiskip til að koma með að landi altan fisk allra tegunda svo og hvers konar fiskúrgang sem til fellur í veiðiferð. Í 12. gr. landhelgislaganna er bókstaflega gefið í skyn að fiski, sem ekki nær ákveðinni lágmarksstærð, megi ekki landa nema öðruvísi sé ákveðið. Greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh. setur reglur um hvað eina sem snertir framkvæmd laga þessara, svo sem um gerð, útbúnað og frágang veiðarfæra, um lágmarksmöskvastærðir netja og um lágmarksstærðir þeirra fisktegunda sem landa má.“ Og taki þm. eftir þessu: „sem landa má. Skulu reglur um þessi ákvæði aldrei ganga skemmra en alþjóðasamþykktir um sama efni, sem Ísland hefur eða mun staðfesta fyrir sitt leyti“.

Í lögum um upptöku ólöglegs sjávarafla, nr. 32 19. maí 1976, segir m.a. í 1. gr. að ólöglegur sjávarafli sé sá afli eða hluti afla sem ekki nær lágmarksstærð þeirri sem ákveðin er í lögum, reglugerðum eða sérstökum veiðileyfum. Og í 2. gr. sömu laga segir: „Ólöglegur sjávarafli skal gerður upptækur og andvirði hans renna í sérstakan sjóð o.s.frv.“

Eftir setningu þessara laga, sem fyrst og fremst hafa verið hugsuð til verndar smáfiski, varð fljótt ljóst að mikill misbrestur mundi vera á því að undirmálsfiskur kæmi yfirleitt að landi heldur væri honum að jafnaði fleygt á sjó. Sjútvrh. setti því í reglugerð nr. 262/1977 ákvæði um lágmarksstærðir fisktegunda, en þar hljóðar 1. gr. svo, með leyfi forseta: „Skylt er að hirða allan fisk af eftirtöldum tegundum, sem kemur í veiðarfæri íslenskra fiskiskipa: Þorskur, ýsa, ufsi, skarkoli, steinbítur og karfi.“ Þessari reglugerð var breytt þann 9. ágúst sama ár með því að orðið „skarkoli“ var fellt niður og auk þess sett inn heimildarákvæði fyrir þá sem stunda handfæraveiðar til að sleppa í sjóinn þorski undir lágmarksstærð. Þessa síðustu undantekningu verður að telja eðlilega þar sem slíkum handfærafiski sem sleppt er frá borði er oft lífvænt.

Þrátt fyrir ákvæði þessi í lögum og reglugerðum um lágmarksstærðir fisktegunda hafa deilur um veiðar á smáfiski síður en svo hjaðnað. Það hefur ætíð verið og verður að sjálfsögðu framvegis háð dómgreind stjórnanda fiskiskips hvernig hann stundar veiðiskap með framtíðarsjónarmið í huga. Því verður ekki trúað að skipstjórar togskipa stundi vísvitandi dráp á undirmálsfiski í stórum stíl. Það verður heldur ekki séð að ákvæði um skyndilokanir og veiðieftirlitsmenn hafi getað hindrað slys í þessum efnum. Þá hefur því verið haldið fram að vegna ákvæða í lögum um upptöku ólöglegs afla sé smáfiski yfirleitt fleygt þó hann sé allur dauður eða dauðans matur. Hér er um mjög ógeðfellda sóun á verðmætum að ræða. Með því að greiða lágmarksverð fyrir undirmálsfisk og setja jafnframt nýjar reglur um viðurlög vegna undirmálsfisks í afla, á að vera hægt að tryggja að smáfiskur verði að verðmætum án þess að tapað sé neinum möguleikum til að koma í veg fyrir veiðar á smáfiski nema síður væri.

Mér sýnist að einungis reynslan fái skorið úr því hvort þetta aðhald verði nægilegt. Mér finnst skynsamlegt að líta á fyrstu mánuðina sem þessi ákvæði verða í gildi sem tilraun til að komast að hinu sanna, til að komast að því hve mikil brögð eru að veiðum á fiski sem er undir máli. Á þessum reynslutíma yrði engum refsað, aðeins leitað að skynsamlegum refsimörkum. Síðan yrði það svo að koma í ljós hvort lagasetning og verðlagning á smáfiskinum nægði til þess að hann kæmi að landi, jafnvel þó að það kynni að leiða til útláta eða jafnvel refsinga fyrir skipstjórnarmenn og útgerð. Hitt er svo víst að dauður smáfiskur er engum til gagns.

Þá er það annar megintilgangur till. að tryggja betur nýtingu á fiskúrgangi, þ.e. slógi, hrognum og lifur, og svokölluðum úrgangsfiski, sem er ýmsar kolategundir, gaddaskata, blágóma, gulllax o.s.frv.

Nú er svo komið, og kunnara en frá þurfi að segja, að það þarf ekki að reikna með auknum fiskafla hér við land. Aukin verðmætasköpun í fiskiðnaði hlýtur fyrst og fremst að byggjast á betri meðferð og betri nýtingu þess sem aflað er.

Auk verðmætasköpunar eru það oft umhverfissjónarmið sem leiða til þess að farið er að huga að að nýta úrgangsefni. Það er því miður fremur fátítt hér á landi enn sem komið er, en rétt er þó að hafa það í huga að mengunarvaldur reynist oft vera verðmætt efni, en á röngum stað. Við heimtum margra ára mengunarrannsóknir af væntanlegum iðjuverum en fleygjum svo fiskúrgangi í ómældum þúsundum, tugþúsundum tonna á miðunum. Eitt dæmi er það að um 2 þús. tonnum af humarúrgangi er fleygt á humarmiðunum nú. Þar er sannarlega um skemmd á miðunum að ræða þegar þessi humarúrgangur rotnar. Slóg úr bolfiski, þ.e. þorski og ufsa, er að jafnaði talið vera milli 15 og 20% af þunga fisksins upp úr sjó. Þar af er þriðjungur lifur, þriðjungur hrogn eða svil í kynþroska fiski. Allt þetta hverfur í hafið af togurunum.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur í allmörg ár bent á sérstaklega eina leið til að nýta þessar aukaafurðir um borð í veiðiskipunum. Það er með svokallaðri meltuvinnslu, til fóðurframleiðslu. Þó að það verði e.t.v. ekki hægt að selja alla meltu í fóðurstöðvar strax, þá er alltaf hægt að skilja lýsið úr í hvaða fiskimjölsverksmiðju sem er og þurrka eggjahvítu og steinefni í mjöl. Lýsið eitt ætti að duga fyrir afskriftum af búnaði og aflahlut en fyrirhöfn áhafnar er nánast engin við þá meðferð sem hér er stungið upp á umfram venjulega slægingu. Búnaður til meltuvinnslu kostar nú um 1/2–11/2 millj., allt eftir aðstæðum í hverjum togara, en tekjur ættu að nema a. m. k. 600–800 þús. kr. á ári.

Á Alþingi 1977 var samþykkt þáltill. frá Sigurlaugu Bjarnadóttur þar sem skorað var á ríkisstj. að gera könnun á því hvernig fullnýtingu hrogna og lifrar yrði við komið. Svo er að sjá á útflutningsskýrslum, að nýting hrogna hafi a.m.k. ekki dregist saman á undanförnum árum. Stafar það ugglaust að nokkru leyti af því að áhöfnum togara hefur verið leyft að nýta hrogn til söltunar án þess að þar kæmi til uppgjörs við skip. En það verður því miður ekki sagt um lifrarnýtingu. Nýtingu hennar hefur stöðugt hrakað. Þar sem áður voru, á aflaárunum 1965 og þar á undan, 3–4% af lýsi sem skilaði sér í útflutningi miðað við afla af þorski og ufsa, hefur framleiðslan á síðustu árum að meðaltali verið langt undir 1% lýsis miðað við sama afla sömu fiska.

Einnig má benda á það að niðursuðuverksmiðjurnar hefur skort lifur til niðursuðu, en lifur sem ísuð er í plastpoka geymist hiklaust í nokkra daga. Þannig var lifur reyndar nýtt til niðursuðu t.d. á Akranesi fyrir nokkrum árum og svo var einnig gert í Vestmannaeyjum og þar er jafnvel nokkuð um það enn.

Þá má einnig vekja athygli á því að í þáltill., sem Guðmundur G. Þórarinsson o. fl. fluttu vorið 1981 um lífefnavinnslu, var m.a. gert ráð fyrir lífefnavinnslu úr fiskúrgangi. En til þess verður fiskúrgangur að koma að landi.

Við Íslendingar höfum nú eignast a.m.k. þrjú verksmiðjuskip sem geta unnið og fryst afla um borð. Við framleiðslu fiskflaka ganga u.þ.b. 60% af þunga slægðs fisks úr sem hausar og bein. Búast má við því að frystitogurum fjölgi og það gefur auga leið hvernig umhorfs verður á miðunum ef úrgangi frá kannske 30 skipum yrði fleygt á veiðislóðinni. Og sannast sagna hafa sjómenn annarra skipa þegar bent á að úrgangur frá þessum tveim eða þrem frystitogurum er þegar orðinn mjög áberandi. Það er því nauðsynlegt að grípa þegar í taumana og skylda verksmiðjuskip til að hirða allan sinn úrgang og koma með hann að landi frystan, meltan eða þurrkaðan. Sams konar skyldur ættu að fylgja grásleppuveiðum. Það er ófært að fyrir hverja tunnu af grásteppuhrognum sé hent hálfu tonni af úrgangi í sjóinn.

Það skal ítrekað að til þess að megintilganginum með flutningi þessarar till. verði náð og allur fiskafli, sem veiðist, komi að landi er óhjákvæmilegt að fyrir hann sé greitt. Í lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins er kveðið á um það að ráðið skuli verðleggja allan fiskafla.

Það er þó mögulegt að á meðan verðlagsgrundvöllur er að skapast fyrir sjávarfang, sem lögin mundu skylda sjómenn til að flytja að landi, verði að koma til einhver opinber ábyrgð á lágmarksgreiðslum til seljenda. Í því sambandi má benda á að löndunarkostnaður, ís o. fl., eru útgjöld sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Það yrði allt of langt mál að fara hér nákvæmlega út í hagkvæmnisútreikninga til að sýna fram á hvað hægt væri að borga fyrir hinar ýmsu tegundir sjávarfangs sem nú falla ónýttar frá borði. Ég minntist áðan á kostnað við meltuvinnslu og væntanlegar tekjur í því sambandi en búnaður til að heilfrysta úrgang og frystigeymsla um borð í togurum kostar 1/2–1 millj. kr. eftir aðstæðum um borð. 10 tonn af frosnum úrgangi í hverri veiðiferð eru væntanlega 30–40 þús. kr. virði sem loðdýrafóður, sem á ársgrundvelli nálgast 1 millj. kr. í tekjur. Að vinna manneldisafurðir, t.d. japanskan marning svokallaðan, úr smáfiski kostar meiri fjárfestingu en gefur líka margfalt meiri tekjur.

Eins og áður var sagt er að vænta lagafrv. til breytinga á fiskveiðilögunum, sem væntanlega beinist þó fyrst og fremst að atriðum er varða fiskveiðistjórnun. Nú er og unnið að endurskoðun á reglugerð um eftirlit og mat á ferskum fiski. Það er veigamikið að í báðum tilvikum sé tekið tillit til anda þessarar þáltill., ef samþykkt verður, t.d. að því er varðar skyldur sjómanna til að koma með slægðan fisk að landi að sumarlagi. Það er vandalaust að búa þannig um hnútana með nútíma ílátum að fisk í dagróðrarbátum megi geyma óslægðan þannig að hann skemmist ekki.

Það er alveg augljóst — það skal undirstrikað að sú nýtingaraukning sjávaraflans sem fram kæmi með þessu móti er enginn skjóttenginn gróði. En fyrirlitning hinna síðustu uppgangsára á gömlum dyggðum eins og nýtni og hirðusemi verður nú að víkja: Það verður að leggja alúð við sérhverja viðleitni til að stækka þjóðarkökuna, þó í smáum skömmtum sé. Ef menn ekki koma sér saman um það hvernig skipta eigi þessari viðbót kökunnar, þá verður ríkisvaldið að skerast í leikinn.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, minna á það, að í samþykktum nýlokins Fiskiþings er að finna greinar sem eru nánast samhljóða þessari þáltill. Þetta er orðin brýn nauðsyn sem allir sem tengdir eru sjávarútvegi viðurkenna nú.