07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil votta það sem hæstv. forseti sagði hér áðan, að hann hefur lagt sig fram um það að hafa gott samstarf við stjórnarandstöðuna um þau mál sem hér hafa verið tekin fyrir. Hins vegar er það svo að hæstv. ríkisstj. hefur óskað eftir því að reyna að ljúka þinginu eftir 10 daga, þ.e. laugardaginn í næstu viku. Þá er meiningin að fram hafi farið 2. og 3. umr. fjárlaga, þá er beðið um að þingið hafi afgreitt lög um tekju- og eignarskatt, þá er beðið um að þingið hafi afgreitt lánsfjárlög, sem hafa þó ekki verið sýnd hér í þinginu enn þá, og þá er beðið um að þingið hafi afgreitt frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins sem er allviðamikill lagabálkur sem var sýndur hér í gær.

Það liggur í augum uppi að ef hæstv. ríkisstj. hefur hug á því að ljúka þinginu með eðlilegum hætti núna á tiltölulega skömmum tíma þá er nauðsynlegt að það takist að tryggja gott samstarf um framgang mála. Átti ég þó ónefnt það málið sem kannske er flestum ofarlega í hug einmitt þessa dagana, en það er frv. um hversu beita á fiskveiðitakmörkunum hér við land, sem ku vera væntanlegt frá hæstv. ríkisstj. Þegar litið er yfir þennan málalista, sem ég hef hér rakið, herra forseti, þá er greinilegt að þeir sem standa hér fyrir þinginu, þ.e. ríkisstj. og hæstv. forsetar, verða að leggja sig fram um það að tryggja sem best samstarf allra aðila um framgang mála. Það er alveg óhjákvæmilegt.

Í fyrradag var haldinn fundur formanna þingflokkanna og forseta. Þar var lagður fram listi yfir þau mál sem ríkisstj. óskar eftir að fá afgreidd og sá listi var tekinn til athugunar af formönnum þingflokkanna. Ég kynnti hann t.d. fyrir mitt leyti þingflokki Alþb. strax þann sama dag. Í gær, á kvöldfundi í Sþ., barst mér hins vegar viðbótarútgáfa af þessum forgangslista, listi tvö, með nýjum málum sem ekki höfðu verið á hinum fyrri lista. Hafði nú verið bætt inn svo litlum málum sem Húsnæðisstofnun ríkisins og lánsfjárlögum, sem þó hafa ekki sést hér á hv. Alþingi enn þá.

Eftir því sem stjórnarandstaðan veit best núna eru listar eitt og tvö í gildi í dag. Það hefur ekki borist í mínar hendur a. m. k. þriðja útgáfan. Þó kann svo að fara að hér komi listi með enn nýjum málum þegar líður á þetta kvöld. Mér finnst öll þingstjórn núna svo ruglingsleg að það sé alveg óhjákvæmilegt að biðja um það að hæstv. forsetar þingsins kalli saman núna á eftir, t.d. kl. sex eða kl. hálf níu, fund með formönnum þingflokkanna þar sem farið verði yfir málið lið fyrir lið og reynt að átta sig á því hvernig hv. alþm. ætla að olnboga sig í gegnum verkin núna á næstu dögum.

Þegar við komum hér til fundar í dag var gert ráð fyrir því t.d. að það stóra frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins yrði tekið fyrir strax númer eitt. Eftir að gengið höfðu umræður manna á meðal varð niðurstaðan sú að taka þetta mál fyrir í kvöld. Þá hafði m.a. hæstv. forseti Sþ. neitað að halda deildafund á morgun um húsnæðismálin, sem ég þó fyrir mitt leyti var tilbúinn til að beita mér fyrir. Það er ljóst að stjórnarandstaðan er tilbúin til þess að greiða mjög fyrir framgangi mála og leggja sig fram í því efni, bæði að því er varðar fundahöld, kvöldfundi og nefndarfundi. En það verður þá að liggja fyrir hvað það er sem ríkisstj. vill í þeim efnum. Hún hefur nú gefið út lista eitt og lista tvö og það liggur ekki fyrir hvort von er á þeim þriðja. Hér ber ég fram ósk um að hæstv. forseti Nd. sjái til þess að hæstv. forseti Sþ. beiti sér fyrir fundi með formönnum þingflokkanna og forsetum þingsins áður en þessi sólarhringur er allur, svo að unnt sé að skipuleggja verkin með skikkanlegum hætti.