20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þessa þáltill. Ein af ástæðunum fyrir því er sú, að við lestur grg. sem hér fylgir virðist aðalástæðan fyrir hinu háa raforkuverði á Íslandi vera gjörsamlega hulin flm. Ég hygg þess vegna að það sé ekki seinna vænna að sérfræðingar fjalli um þetta mál og veiti þá nauðsynlegustu grunnfræðslu í málinu sem eðlilegt er að þm. hafi á þessu sviði, miðað við þá miklu umfjöllun og það mikla lestrarefni sem fyrrv. hæstv. iðnrh. afhenti þinginu til afnota.

Ég játa að staða þessara mála er vissulega það alvarleg að sennilega er ekkert eitt í þessu landi sem stuðlar meir að byggðaröskun í dag en hvernig er komið í raforkumálum. En ég hygg að hver sanngjarn maður geri sér grein fyrir því, hafi hann lesið þau gögn sem fram hafa verið lögð, að það eru fyrst og fremst sölumál raforkunnar sem hafa brugðist. Hitt er svo alvarlegt umhugsunarefni, að e.t.v. höfum við þm. með því að afhenda Landsvirkjun virkjunarréttinn yfir Blöndu og yfir Fljótsdalsvirkjun verið að bjarga gjaldþrota fyrirtæki, ef það væri látið standa uppi með sína samninga.

Það er vissulega hægt að hugsa sér að hægt sé að fullnýta þá grein sem er í landsvirkjunarlögunum og heimila að velta yfir á atmenning þeim hækkunum sem þarf til að standa undir öðrum óhagstæðum samningum. Það er vissulega hægt að hugsa sér að Landsvirkjun hefði getað haldið áfram á þessari braut. En það er mikil spurning hvort það hefði gengið upp hefði sjálfstætt virkjunarfélag verið látið virkja Blöndu og Fljótsdalsvirkjun og selja þá raforku á eðlilegu verði. Þá er hætt við að hefði orðið kurr í því liði sem hefði setið uppi með að greiða kostnaðinn af þeim misheppnuðu samningum sem við höfum gert.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en vænti þess að það verði leitað vel þegar þeir sérfræðingar verða valdir sem hér er lagt til að séu óháðir.