09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel það vera mjög brýnt að umr. fari fram um þetta efni áður en fjárlög verða afgreidd og áður en fjárlög koma til 2. umr. Ég vonaði að hér kæmu á dagskrá í Sþ. þáltill. sem fluttar hafa verið hér á þinginu um þessi efni. Það er þáltill. frá hv. 4. landsk. þm. um orkusparnað, sem vissulega varðar þetta mál, og þáltill. sem við höfum flutt sjö þm. Alþb. í Sþ. um lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar og átak í orkusparnaði. Í þeirri till. koma okkar áherslur fram í þessu efni og alveg ákveðnar tillögur um hvernig að þessum málum verði staðið þegar frá næstu áramótum eða á næsta ári og síðan á árinu 1985, því að gert er ráð fyrir að reynt verði að vinna sig áfram í áföngum í framhaldi af því sem fráfarandi ríkisstj. hafði viljað fá í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. greindi frá því að ekki lægju fyrir tillögur frá þeirri nefnd sem hann skipaði skömmu eftir að hann settist á stól iðnrh. til þess að fjalla um húshitunarmálin, og vissulega er það bagalegt að álit nefndarinnar skuli ekki liggja fyrir vegna fjárlagaumr. Ég get rifjað upp að ekki hagaði alveg ósvipað til fyrir ári. Þá var að störfum nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að gera tillögur til mín, þá sem iðnrh., varðandi fjáröflun til jöfnunar og lækkunar húshitunarkostnaðar, en hún lauk ekki starfi sínu fyrr en 28. jan., hún skilaði áliti sínu á þessu ári. Þær tillögur liggja hins vegar fyrir um tekjuöflun í þetta og til þeirra tillagna vísum við Alþb.-menn í umræddri þáttill. um lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar og átak í orkusparnaði.

Ég tel að það liggi fyrir markaðar ábendingar frá fulltrúum þingflokkanna um tekjuöflunarmöguleika, þó svo að upphæðir þurfi að endurskoðast í ljósi þeirra markmiða sem menn setja sér. Hv. þm. Karvel Pálmason vék hér að þeirri þungu byrði sem fólk víða á landinu hefur orðið að axla vegna geysilega hás húshitunarkostnaðar. Það eru rafhitunarsvæðin og dýrustu hitaveiturnar, sem að jafnaði eru þær sem nýjar eru og bera háan fjármagnskostnað. Ég efast ekkert um hug landsbyggðarþm. og þar á meðal hæstv. iðnrh. í þessu efni, að hann vilji reyna að ná þar einhverjum árangri, en ég vil vísa til þess sem fram kemur í till. okkar Alþb.manna um þetta efni, að rétt sé að taka upp viðmiðun við kauptaxta, sérstaklega vegna þess að kaup hefur nú verið skert stórlega sem kunnugt er og eðlilegt er að það séu reistar skorður við því og sett ákveðin markmið um hversu langan tíma það geti tekið lágtekjumann að vinna fyrir þessum nauðþurftum. Við höfum sett markið við átta vinnuvikur miðað við dagvinnutekjutryggingu hjá verkamannafélaginu Dagsbrún miðað við næsta ár og gjaldskrárnar verði við það sniðnar að það fari ekki fram úr þessu á næsta ári. Þá hefur það verið reiknað út af aðilum sem einnig hafa veitt iðnrn. stuðning í þessu máli, að miðað við þetta markmið og gjaldskrár yrðu stilltar af þannig, ekki bara varðandi rafhitun heldur líka varðandi hitaveiturnar, þurfi til að ná þessu marki fyrir íbúðarhúsnæði í landinu 421 millj. kr., sem sagt innan við það sem margumrætt orkujöfnunargjald á að skila, eftir því sem hæstv. ráðh. var að upplýsa hér. Ég ætla ekkert að fara í umr. um lagatúlkanir í því sambandi, það hefur verið margrætt af minni hálfu, en ég vildi bera þetta saman. Og ef atvinnuhúsnæði er tekið þarna til viðbótar bætast þarna við 136 millj. kr., miðað við þetta markmið í niðurgreiðslu, og heildarkostnaðurinn verður þá 557 millj. kr. Fyrir árið 1985, miðað við að ná lengra í þessum efnum og þá sex vikna viðmiðun á ári, hækka þessar tölur í: fyrir íbúðarhúsnæði 604 millj. kr. og 206 millj. fyrir atvinnuhúsnæði eða samtals 810 millj. kr. sem verja þyrfti í niðurgreiðslur miðað við áætlun um gjaldskrár, til þess að ná þeirri lækkun sem þarna er gert ráð fyrir.

Ég vil einnig nefna hér að jafnhliða þessari lífsnauðsynlegu lækkun og jöfnun þessa grundvallarþáttar í lífi manna í landinu þarf að verða hér átak í orkusparnaði vegna þess hversu þjóðhagslega það er þýðingarmikið og alveg nauðsynlegt að fylgja þar fast eftir því sem byrjað var á í sambandi við fyrirgreiðslu. Um það höfum við markað ákveðnar tillögur. Ég hef heyrt að hæstv. iðnrh. hefur áhuga á því efni og þykir gott að heyra það.

En vegna þess að hér inn í umr. hefur komið spurningin um það hvernig hæstv. ríkisstj. hefur staðið við kosningaloforðin og fyrirheitin um lækkun hitunarkostnaðar, þá vil ég rifja það upp sem ég tók til umræðu um daginn við umr. um brbl. ríkisstj. varðandi fjármálaráðstafanir til að milda kjaraskerðinguna, þar sem er ákvæðið um 150 milljónirnar. Ég benti á það, sem nauðsynlegt er að menn átti sig á, að húshitunarkostnaðurinn hefur þrátt fyrir þessar auknu niðurgreiðslur hækkað, en ekki lækkað. Hækkunin svarar til tveggja vikna launa eða hálfs mánaðar launa fyrir vel einangraða meðalíbúð og við það bætist síðan álíka mikið fyrir sams konar íbúð meðalnotanda vegna hækkunar á hinum almenna heimilistaxta. Í stað þess að húshitunarkostnaður hafi lækkað í tíð núv. ríkisstj. hefur hann hækkað og orkukostnaður meðalheimilis hækkað um sem nemur mánaðarlaunum lágtekjumanns. Þetta eru staðreyndir sem fyrir liggja og ég hef ekki séð viðleitni til að hrekja þær með rökum, aðeins í orði að menn hafi vísað þessu frá, en þetta liggur fyrir. Húshitunartaxtinn hefur hækkað um 17.4% þrátt fyrir niðurgreiðslur og atmenni heimilistaxtinn um 38.5%.

Ég vænti þess að fjárveitingavaldið og ríkisstj. beiti sér fyrir því fyrir 2. umr. fjárlaga að það verði aukið við till. ríkisstj. sem fram koma í fjárlagafrv., vegna þess að þær eru svo langt frá því að hrökkva fyrir því sem líta verður á sem lágmarksáfanga í þessu máli á næsta ári. Þar eru 230 millj. kr. og að auki 60 millj. kr. sem eru merktar viðskrn. Þar vantar mikið upp á að náð verði viðunandi áfanga. Jafnframt þarf auðvitað að huga að lánsfé á lánsfjáráætlun í sambandi við orkusparnaðarmálin sem hafa komið til umr. líka vegna frv. um húsnæðismál sem mælt var fyrir hér í hv. deild í gær og að þeim málum þar vikið.

En ég vildi að lokum, um leið og ég ítreka þessar staðreyndir og áhyggjur af þessari þróun mála og því sem hér vantar á, benda hæstv. iðnrh. á að olíustyrkjamálið og útrýming olíuhitunarinnar hefur ekki gengið fram á þessu ári, samkvæmt því svari sem hann veitti mér við fsp., með þeim hætti sem vonir stóðu til. Nú er það svo, að í flestum tilvikum eru menn að fara af olíu yfir á dýra rafhitun eða dýrar hitaveitur, þannig að það lækkar ekki þörfina á niðurgreiðslu og stuðningi við viðkomandi notendur. En það er sjálfsagt og reyndar lögbundið markmið að menn fari af olíustyrk yfir á innlenda orku strax Ég það er mögulegt. Og samkvæmt svari hæstv. ráðh., sem lagt var fram í deildinni nú í vikunni, er fjöldi olíustyrkja, að vísu er þar áætlað fyrir Vestfirði, er heildarfjöldi þeirra notenda sem fá olíustyrki um 2 300 talsins. Þar af virðist samkv. upplýsingum Rafmagnsveitnanna og Orkubús Vestfjarða vera unnt að tengja yfir á innlenda orku megnið af þessum notendum á þessu ári. Ég var að leggja saman tölurnar um hvað stendur út af miðað við upplýsingar frá þessum aðilum. Það eru samtals 363 notendur sem ekki ættu þess kost að fá tengingu fyrr en á næsta ári eða síðar, þar af 167 á árinu 1984 og 196 síðar. Þarna sýnist mér því að nauðsynlegt sé að haga málum þannig að greiða bæði fyrir þessum skiptum og ýta á að þau gerist í reynd og að það verði svigrúm til þess að nýta það fjármagn sem kann að vera ofáætlað í olíustyrki, þó að þeir þurfi að hækka þar sem menn verða að búa við olíu, að það sé hægt að færa þar á milli liða með eðlilegum hætti í sambandi við fjárlögin.