12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur þegar komið fram, þá var þessu frv. dreift síðdegis á föstudag, þannig að flestir ef ekki allir Ed. þm. úr stjórnarandstöðunni a.m.k. sjá það fyrst nú í dag og sama dag er málið tekið hér til umr. Þetta eru auðvitað gjörsamlega óviðunandi vinnubrögð. Þetta er ekki hægt að bjóða þm. upp á. Á þessu verður að verða breyting. Hér er um eitt af stærstu málum þingsins að ræða, sem nauðsyn er að skoða mjög ítarlega og gaumgæfilega og ræða, og það verður að gera þá kröfu til hæstv. fjmrh. að hann a.m.k. gefi þm. tíma og tækifæri, þm. stjórnarandstöðunnar til að lesa frv. yfir áður en það er tekið til umr. Það er alveg hreint á mörkum að svo hafi verið og þetta eru ekki boðleg og ekki sæmandi vinnubrögð fyrir Alþingi.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að ræða hér einstakar greinar þessa frv. Það hefur einfaldlega ekki gefist ráðrúm eða tími til að skoða það svo sem vert væri. Og þetta er ekki eina dæmið um stórmál sem eru lögð hér fram og knúin fram til umr. með allt of skömmum fyrirvara.

Því ber auðvitað að fagna, að þetta skuli lagt fram fyrr en oftar áður, en eðlilegra hefði verið, hæstv. fjmrh., að gefa þm. lengri frest til að kynna sér þetta mál. Auðvitað hafa þm. stjórnarflokkanna, eins og hér hefur verið á minnst, haft málið til athugunar sjálfsagt næsta lengi, en þm. stjórnarandstöðunnar sjá það fyrst nú í dag. Ég gagnrýni þessi vinnubrögð harðlega og vonast til að þetta eigi ekki eftir að endurtaka sig hér í öðrum málum. Stjórnarandstaðan á sinn rétt hér á þingi og það verður að taka eðlilegt tillit til hennar viðhorfa og sjónarmiða. Það eru lágmarkskröfur.

Í fljótu bragði sýnist mér hins vegar að hér sé stefnt í nokkra erlenda skuldaaukningu þvert ofan í það sem segir í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. Ég segi í fljótu bragði, vegna þess að ráðrúm hefur hreint ekki gefist til að skoða þetta mál svo sem vert væri og bera sig saman við þá sem best til þekkja. Þessi vinnubrögð af hálfu hæstv. fjmrh. eru ekki til fyrirmyndar og ég ítreka það, að ég vona að þetta endurtaki sig ekki hér. Ég vona að þm. stjórnarandstöðunnar verði gefinn eðlilegur tími til að skoða þetta ofan í kjölinn, því eins og ég sagði áðan er hér auðvitað um eitt af stórmálum þingsins að ræða, sem brýnt er að fái hér ítarlega og eðlilega umfjötlun.