12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Það má segja að raunverulega sé fjallað um þetta mál í tveimur lotum í þinginu. Það hefur raunverulega verið lagt fram fyrir löngu síðan í formi fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1984. Breytingarnar sem koma fram í þessu frv. miðað við fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina eru sáralitlar. Mig langar nú til að beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. hverjar þær eru til þess að það komi alveg ljóslega fram.

Í öllum aðalatriðum má því segja að þetta mál sé ekki lagt fram sem nýtt mál hér í þinginu. Það er gerð ítarleg grein fyrir málinu í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem lögð var fram hér óvenju snemma og í samræmi við það sem lög um stjórn efnahagsmála gera ráð fyrir, og síðan kemur frv. til lánsfjárlaga. Ég vil láta í ljósi ánægju mína yfir því, að lánsfjárlagafrv. skuli koma fram miklu fyrr en venja hefur verið undanfarin ár. Ég álít að það sé talsvert atriði að afgreiða þetta mál helst fyrir áram6tin vegna þess að það er stefnumarkandi um fjárfestingarmál á næsta ári og þess vegna eðlilegt að stefnan liggi fyrir áður en árið byrjar. Það sem hefur verið meingallað á undanförnum árum er einmitt það, að þetta mál hefur ekki verið afgreitt fyrr en á útmánuðum, í mars, stundum aprílmánuði en þrátt fyrir það hafa menn hafið framkvæmdir auðvitað í fjárfestingu meira og minna frá ársbyrjun, þó að aðalframkvæmdatímabilið sé ekki fyrr en síðar.

Nú er það svo með margar framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að verði framkvæmdar í samræmi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að þær þurfa mikinn undirbúning, ekki aðeins framkvæmdalega séð heldur varðandi fjármögnun og marga aðra undirbúningsþætti. Það væri því vissulega mjög æskilegt að málið væri afgreitt fyrir jólin, svo að fjárfestingarstefnan lægi fyrir áður en árið sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin tekur til hefst. Ég fagna því þess vegna hvað þetta frv. kemur snemma fram.

Það sem vekur athygli mína í sambandi við þessi mál sérstaklega er það að gert er ráð fyrir því að hægja á fjárfestingunni. Það er náttúrlega ekki fagnaðarefni nema öðrum þræði, en það er þó fagnaðarefni vegna þess að ég held að það sé nauðsynlegur liður í baráttunni við verðbólguna í landinu, nauðsynlegt til að minnka þenslu og eftirspurn og skapa meiri stöðugleika í okkar efnahags- og atvinnumálum. Það er gert ráð fyrir því í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni að heildarfjárfestingin fari niður í 23.4% af þjóðarframleiðslu ársins og dragist saman um 6.3%. Auðvitað geta menn aldrei, þegar gerðar eru áætlanir af þessu tagi, slegið því föstu að þetta verði reyndin. Það fer auðvitað eftir því hvað þjóðartekjurnar og þjóðarframleiðslan verður mikil á næsta ári. Það er aldrei hægt að slá því endanlega föstu. En þetta er veruleg lækkun frá því sem var þegar fjárfestingar voru mestar, þegar hlutfallið var venjulega milli 26 og 28%.

Ég vil sem sagt ítreka þá fsp. til hæstv. fjmrh. að hann upplýsi hvaða breytingar eru í þessum lánsfjárlögum frá fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni. Ég held að þær séu sáralitlar, mjög litlar, þannig að í raun og veru eigi ekkert að koma mönnum á óvart í þessu máli.