20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

3. mál, sala ríkisbanka

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég er nú ekki komin hér í ræðustól til að lýsa stuðningi við þessa þáltill. þeirra hv. þm. Bandalags jafnaðarmanna, en tel samt ástæðu til að gera hana að umræðuefni.

Ástæðan fyrir því að ég get ekki stutt þessa till. er einfaldlega sú, að ég held ekki að það leysi neinn vanda þó að bankar landsins, ríkisbankarnir, væru seldir. Ég held að pólitísk spilling, sem er greinilega hvatinn að þessari till., verði ekki upprætt á þann hátt. Maður gæti spurt: Hverjir eiga að reka þessa banka? Hverjir eiga að hafa eftirlit með þeim? Og í þriðja lagi og það er kannske aðalatriðið: Hvert verður hlutverk Seðlabanka Íslands? Ég held nefnilega að ýmislegt sem aflaga fer í bankakerfi landsins megi kenna næstum ónothæfum lögum um Seðlabanka Íslands. Skal ég fara nánar út í það, með leyfi forseta, og skal ég reyna að lengja ekki mál mitt mjög.

Sannleikurinn er sá: Það er afskaplega nauðsynlegt að taka af Seðlabankanum það pólitíska vald sem hann hefur og setja ný lög um seðlabankann með það að meginmarkmiði að afnema það pólitíska vald sem hann nú hefur, því að hann beinlínis ríkir og ræður yfir hverri þeirri ríkisstjórn sem í landinu situr, og auk þess þarf að breyta ráðstöfun bankans á arði. Það nær ekki nokkurri átt að bankaráð Seðlabankans ráðskist með verulegar fjárhæðir, sem eru auðvitað peningar landsmanna og engra annarra, eins og hann gerir. — Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér einhverja verstu lagagrein sem ég held að sé að finna í lagasafni Íslands, sem er 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands frá 1961. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í öllu starfi sínu skal seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstjórnina að ræða, er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal“ — og bið ég hv. þm. að hlýða nú vel á — „engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstjórnin markar að lokum, ná tilgangi sínum.“

Öðru eins og þessu held ég að sé nú aldeilis leitun að í nokkru lagasafni.

Það er brýnt að breyta lögum um Seðlabankann, því að sannleikurinn er sá, að bankarnir, sem hv. þm. Guðmundur Einarsson vill nú selja, verða líka undir fargi Seðlabanka Íslands, og það eru sparisjóðir landsins líka.

Ég er hjartanlega sammála þeim þm. Bandalags jafnaðarmanna þar sem þeir tala um í grg. að bankar landsmanna séu ekki sýnilega í þjónustuhlutverki við landsmenn. Það er svo sannarlega rétt, og kannast líklega allir íslenskir borgarar við þá píslargöngu sem það er að ganga inn í banka sem maður hefur kannske skipt við áratugum saman og biðja um smálán. Það er hreint eins og maður ætli að fara að fremja innbrot, enda fræg og fleyg setning sem hraut af munni seðlabankastjóra um nýju höllina sem verið er að byggja: Landsmenn skyldu ekki hafa áhyggjur af því. Það væri byggt fyrir eigið fé bankans. — Og landsmönnum brá hvergi. Bankarnir reka nefnilega sína þjónustu hér í landi eins og þeir séu að fara með eigið fé. Því þarf sannarlega að breyta, en ég er með miklar efasemdir um að leiðin til þess sé að selja bankana.

En svo að ég haldi lítið eitt áfram með þær nauðsynlegu breytingar, sem gera verður á lögum um Seðlabanka Íslands, þá er hægt að fara grein fyrir grein í núverandi lög. Í 11. gr. er talað um að innlánsstofnanir þær, sem um ræðir í 10. gr. o.s.frv., svo og aðrar opinberar lánastofnanir og fjárfestingarsjóðir, skuli geyma laust fé sitt á reikningi í Seðlabankanum eftir því sem við verður komið. Síðan kemur hér mikið mál um innlánsbindingu, sem Seðlabankinn ákveður. Slíkar bindingar á að sjálfsögðu að ákveða af ráðherrum og ríkisstjórn, enda eru þetta bein hagstjórnartæki.

Í 13. gr. laganna segir, með leyfi forseta, og ég skal ekki lesa alla greinina:

„Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta.“

Hvaða vit er í þessu? Vitaskuld eiga ráðherrar og ríkisstjórn að ákveða hámark og lágmark vaxta en ekki Seðlabankinn. Þetta þarf t.d. líka að skoða í sambandi við ýmis vandamál sem upp hafa komið. Það liggur t.d. fyrir að niðurstöður dóma stangast á við vaxtatilkynningar Seðlabanka Íslands og það verður ekki annað séð en að lög um Seðlabanka Íslands standist ekki fyrir dómstólum. Ég held líka að það þyrfti að líta á ýmsar ákvarðanir Seðlabankans í ljósi laga nr. 58 frá 1960, um bann við okri. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fara að taka þessa hluti alvarlega og gera á því könnun hvort þetta stangast ekki allt á.

Í 14. gr., minnir mig, er ákvæði um að Seðlabankanum sé heimilt að veita ríkissjóði lán. Ja, að heyra nú. Vitaskuld á arður af Seðlabankanum að renna beint í ríkissjóð, eins og gerist með öðrum þjóðum, t.d. í Danmörku og má segja Finnlandi. Nei, seðlabankanum er heimilt að veita ríkissjóði lán.

Ýmislegt sem er í framkvæmd laga um seðlabanka má líka lagfæra. Seðlabankinn á t.d. að starfrækja greiðslujöfnunarkerfi til að auðvelda ávísanaviðskipti og vinna á annan hátt að því að greiða fyrir peningagreiðslum innanlands. Það verkefni er í raun og veru ekki lengur hjá Seðlabankanum. Þetta er bara bókstafur. Það er Reiknistofnun bankanna sem gerir þetta núna og það er gersamlega óþarft að annast þetta á mörgum stöðum.

Seðlabanki einnar þjóðar á t.d. ekki að hafa eigin bankaviðskipti við einstaklinga. Það gerir þessi. Ég held að ég geti fullyrt að t.d. starfsfólk Seðlabanka Íslands gengur með ávísanahefti upp á vasann frá Seðlabankanum. Ég vil biðja menn að hugsa aðeins um þetta. Ekki veit ég hvort menn geta fengið einkalán hjá Seðlabankanum, en það getur allt eins verið. Ég vil taka það fram að ég er ekki að fullyrða um það. Ég veit það ekki.

Það er kannske of langt mál að fara í lögin grein fyrir grein, en ég vil þó ekki ljúka máli mínu öðruvísi en að minnast á ákvæði sem er í lögum um danska seðlabankann, sem ég hef hér í höndunum. Þar er t.d. fjallað skýrt og skorinort um þær skyldur sem seðlabankastjóri hefur sem starfsmaður. Þetta er örstutt grein, en ákaflega afgerandi. Ég legg ekki á hv. þingheim að lesa greinina á dönsku, þó skal ég gera það sé þess óskað, en hér segir:

„Bankastjórar mega ekki eiga sæti í stjórn neinna samtaka um atvinnumál eða neinna félaga um atvinnumál“ — Sé ég ekki að þýða þetta rétt er hér sagt „erhvervsorganisationer eller erhvervsselskaber“. — „né heldur reka eða vera þátttakendur í rekstri nokkurs einkafyrirtækis.“.

Hér á Íslandi situr virðulegur seðlabankastjóri sem formaður stjórnar Landsvirkjunar og stýrir nú einhverjum afdrifaríkustu viðræðum í samningum við erlendan auðhring. Vel má vera að þessi duglegi embættismaður sitji á fleiri stöðum, en þetta er nú ærið nóg og þyrfti að koma í veg fyrir slíkt.

Ég vil minna hv. þingheim á að fyrir tveimur árum, minnir mig, gerði ég fsp. í þinginu vegna stofnunar, sem ég hafði fyrir einhverja tilviljun komist að að er rekin hér í Reykjavík, sem heitir „Bókasafn Seðlabanka Íslands“. Ég gerði nokkra talningu, ég tók úrtak eins og Dagblaðið gerir, talaði við held ég 15 þm. og spurði þá hvar væri Bókasafn Seðlabanka Íslands. 4 af 15 vissu það. Hinir höfðu aldrei heyrt það nefnt og því síður haft hugmynd um að slík stofnun væri rekin. Þessi stofnun er til húsa í tiltölulega nýbyggðu stórhýsi að Einholti 4 og hafði svo mikinn bókakost á því ári sem um var rætt að það var meira en hálfdrættingur á við Háskólabókasafn, sem á að vera undirstaða mennta og menningar í landinu. (Gripið fram í.) Þar fyrir utan er þetta eitt fegursta bókasafn sem ég hef augum litið. Þar eru engar skruddur eða kiljur. Þar er allt bundið í hin fegurstu skinnbönd. Það skal enn og aftur sagt að það er til mikillar fyrirmyndar meðferð á þeim bókum, en í þetta safn kemur hins vegar ekki nokkur maður, nema kannske fáir útvaldir, eins og hv. þm. sem hér hefur kallað fram í. Tveim einstaklingum, sem reyndu að fá að skoða þetta safn, var sagt að það fengju þeir ekki. Blaðamanni frá Tímanum var hleypt inn eftir mikið japl og jaml og fuður.

Þegar litið var í ársreikninga Seðlabankans var þetta safn aldeilis ekki þar að finna, þó að keyptar hefðu verið á einu ári bækur í það fyrir 30 millj. Það skal þó sagt seðlabankastjórn og -stjóra til hróss, og má kannske líka þakka það hv. þm. Jóhönnu sigurðardóttur, sem kom í gegn lögum í fyrra um reikningsskil banka, að í ársskýrslu Seðlabankans frá 1982, sem ég hef nýlega fengið í hendur, er þó hægt að sjá að til séu bækur í Seðlabanka Íslands, en töluvert af þeim bókum er keypt fyrir offjár á uppboðum erlendis, þangað sem starfsmenn fara og sækja eina og eina síðu í sjaldgæfa gripi. En þetta safn er ekki fyrir almenning í landinu á meðan almenningsbókasöfn landsins eru í hreinu fjársvelti.

Góðir þm. Ég skal ekki hafa þetta miklu lengra að sinni. Ég skal hvenær sem er ræða lengi um Seðlabankann og hans mál og mun eflaust gera það aftur í vetur. En ég vil að lokum líka minnast á, að ég held að tími væri til kominn að gjaldeyriseftirlit og svokallað bankaeftirlit flyttust inn í rn. Sama mætti e.t.v. segja um hagfræðideild Seðlabankans, sem nú vinnur að meira eða minna leyti að sömu verkefnum og Þjóðhagsstofnun.

Ég vildi nú skýra þessa punkta þar sem málefni bankanna komu hér á dagskrá, en varðandi till. hv. þm. Bandalags jafnaðarmanna, þá er hún að því leyti góðra gjalda verð að hún vekur e.t.v. umr. um málefni bankanna, sem borgarar þessa lands verða að skríða inn í eins og beiningamenn ef þeir þurfa á einhverri þjónustu að halda.

Það er reyndar ákveðið í Seðlabankanum, að við skulum einir manna í heiminum kaupa okkur ávísanahefti til þess að fá að eyða peningunum okkar. Við erum sektuð um hundruð kr. ef við skrifum í ógáti hundraðkall til eða frá, þó launin okkar komi mánaðarlega inn í þessa banka, sem við stöndum að sjálfsögðu undir, launþegar þessa lands. Það er rétt hægt að ímynda sér upphringingar t.d. til lífeyrisþega, sem leggja milljónir og hundruð millj. inn í þessa banka, og ef þeim skyldi nú hafa fatast sjónin og skrifað einhverja tölu, sem ekki væri nákvæmlega innistæða fyrir, er hringt í þetta fólk og talað við það eins og það hafi framið meiri háttar afbrot. Og svo má lesa í blöðum bæjarins einn morgun að Landsbanka Íslands var sleginn á uppboði flugvélargarmur frá einu ágætu flugfélagi hér í bæ fyrir 120 þús. Á vélinni hvíldu skuldir upp á 4.5 millj. En gömlu lífeyrisþegarnir, sem skrifa 100 kr. umfram á tékkaheftinu sínu, þó vitað sé að svo komi inn næsta greiðsla, verða að borga það með líklega 60–70 kr. í sekt. Þetta eru þjónustustofnanir landsmanna í peningamálum, og skulum við þess vegna ekki segja neitt gott um þær.

En hitt er svo annað mál, að ég trúi ekki að hugmyndir BJ um lausn þessara mála séu réttar. Ég held nefnilega að það sé í raun og veru ekkert vænlegra til réttlætis og skynsamlegrar meðferðar peninga í þessu landi að ríkisbankarnir séu settir á uppboð. Ég vil í lengstu lög trúa því, að við getum rekið þjóðfélagið okkar á sæmilega sómasamlegan hátt og ég vil ekki heldur sitja undir því að hv. þm. þjóðarinnar sé ekki treystandi til að vera í bankaráðum, þótt ég viti það harla vel að sumum er það ekki. En við megum ekki öll sitja undir þeim dómi frekar en við verðum öll að sitja undir því að hv. þm. þjóðarinnar sé ekki treystandi til að vera í bankaráðum, þótt ég viti það harla vel að sumum er það ekki. En við megum ekki öll sitja undir þeim dómi frekar en við verðum öll að sitja undir þeim dómi að við venjulegir þm. gerum ekki neitt og séum messaguttar hér og til þess eins að hirða launin okkar. Það er ekki rétt heldur. En ég vil lýsa því yfir, að ég held að það séu áreiðanlega til þeir þm. í þessum sal sem væri treystandi til að hafa eftirlit og umsjón með störfum ríkisbankanna án þess að beita því lúalega bragði að hella peningum í kjördæmi sín til lítils gagns fyrir heimamenn, þegar öllu er á botninn hvolft, þannig að ég held að við læknum ekki þá spillingu, sem þar hefur átt sér stað, með þessari till. Þess vegna hlýt ég að vera henni ósammála.