12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Nú loks er komið að því að málefni flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli eru rædd. Nú eru framkvæmdir hafnar eftir langan undirbúning, undirbúning sem var á fullu í stjórnartíð Alþb. og fyrri ríkisstj. Saga þessarar flugstöðvar eða umræður um hana hafa lengi verið í gangi. Hafa menn yfirleitt verið þeirrar skoðunar að það væri nauðsynlegt að byggja nýja flugstöð, komast úr því flugkoti sem menn hafa búið við að undanförnu, hvar aðbúnaður starfsfólks hefur verið fyrir neðan allar hellur og við höfum þurft að una við það að hafa herflug og farþegaflug á sama stað. Ég tel það mikils virði að nú skuli þetta mál vera komið svo langt sem raun ber vitni og lýsi yfir samþykki mínu við þá lántöku sem hér er farið fram á.

Það er oft talað um þessa flugstöð eins og þetta verði stærsta bygging norðan Alpafjalla, en svo er ekki. Ég minni á að bygging ein á Höfðabakka er stærri en þessi bygging, bygging í eigu Íslenskra aðatverktaka. Þegar rætt er um fjármögnun flugstöðvar þá er ekki úr vegi að spyrja hvort athugað hafi verið hvort ekki væri ástæða til að nota eitthvað af þeim mikla hagnaði sem verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli hefur haft í för með sér, hagnaði sem ekki liggur aðeins í risastórum fasteignum heldur í hundraða milljóna kr. inneign í bönkum landsins.

Það var gert að umræðuefni hér að Bandaríkjastjórn setti skilyrði varðandi þessa byggingu. Ég býst við að flestum mönnum sé það ljóst að ríki hernaðarástand hér þá verður ekki spurt að því hvort byggingar verði teknar til hernaðarnota eða ekki. Á það ekki aðeins við um þessa byggingu heldur allar aðrar byggingar. Mér sýnist því að þetta skilyrði sé afskaplega meinlaust. Ég tel að ný flugstöð muni auka á reisn íslensku þjóðarinnar og verða okkur til mikils sóma. Það hefur dregist úr hömlu að hefja framkvæmdir, en ég fagna því að þær eru nú hafnar.

Ég tek og undir þá fsp. sem kom fram áðan varðandi framkvæmdakostnað. Það er ekki ljóst í dag hversu dýrt þetta verður, en ef marka má fyrstu útboðin ætti þessi bygging að verða ódýrari en áætlað var í fyrstu. Og er það ekki rétt að framlag Bandaríkjastjórnar sé fast framlag en það sem á vantar verði greitt af íslenska ríkinu? Gott væri að fá svör við þeirri spurningu á eftir.