13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

1. mál, fjárlög 1984

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Við 1. umr. um fjárlagafrv. hér í þingi sagði ég frá því að einn af viðmælendum fjvn. hefði bent okkur á það hversu snjall leikari hv. þm. Karvel Pálmason er. Það eru orð að sönnu og sannast alltaf þegar hann kemur hér í ræðustólinn. En hann upplýsti okkur um annað líka, í þessari ræðu sinni áðan: að hann heyrir menn þegja eins og hann upplýsti þegar hann heyrði að hv. þm. Egill Jónsson kallaði ekki fram í fyrir honum en hitt er venjulegra að menn heyra þegar það er gert. En þetta vekur aðeins athygli mína á því hve snjall hv. þm. Karvel Pálmason er.

Það er ekki ætlun mín, herra forseti, að taka langan tíma hæstv. Alþingis í þessum umr. um fjárlagafrv. og ekki heldur ástæða til. Formaður fjvn., hv. þm. Lárus Jónsson, hefur þegar mælt fyrir nái. meiri hl., sem við framsóknarmenn stöndum að, og hefur hann gert ítarlega grein fyrir þeim brtt. sem n. leggur fram. Ég mun því reyna að verða stuttorður.

Frv. til fjárlaga fyrir árið 1984 var vísað til fjvn. á fundi Sþ. mánudaginn 31. okt. s.l. Fjvn. hafði að vísu samkvæmt venju tekið til starfa nokkru fyrr til að flýta fyrir nefndarstörfum, undirbúningi og framgangi mála. Síðan má segja að unnið hafi verið sleitulaust, fjölmargir fundir haldnir og rætt við ótrúlegan fjölda fólks, miklu fleiri en fjöldi viðtala gefur til kynna, þar sem miklu oftar háttar svo til að margir einstaklingar mæta til fundar og flytja mál eins aðila, hvort sem það er nú sveitarfélag, ráðuneyti, ríkisstofnun, félagasamtök eða aðrir sem telja sig eiga brýnt erindi við fjvn.

Allur sá ótrúlegi fjöldi fólks sem kemur til viðtals við fjvn. og allt það pappírsflóð sem hjá n. hrannast upp hlýtur að leiða hugann að því hvort notuð séu rétt vinnubrögð. Hlýtur ekki að vera hægt á þeirri tækni- og tölvuöld sem nú er að koma þessum upplýsingum á framfæri og vinna úr þeim á hentugri, þægilegri og ódýrari hátt en nú er gert? Þessu varpa ég hér fram til umhugsunar án þess að vera með till. til breytinga eða vilja eyða tímanum nú í frekari vangaveltur. Ég tel þó fyllilega tímabært að þetta verði athugað nánar.

Hver er svo árangurinn af öllum þessum viðtölum, fundarhöldum og fyrirhöfn með ærnum tilkostnaði, a.m.k. hjá fulltrúum sveitarfélaga utan af landsbyggðinni, sem allt þetta fólk hefur á sig lagt? Að nokkru leyti kemur hann fram í þeim breytingum sem n. leggur hér til að gerðar verði á frv. Vonandi hafa ýmsir haft nokkurn árangur af erfiði sínu og er það vel ef tekist hefur að veita einhverjum úrlausn þó ekki hafi allt fengist sem um var beðið. En svo eru einnig, því miður, ýmsir sem sjálfsagt telja sig litla eða enga úrlausn hafa fengið. Og svo verður vafalaust lengst af, að ekki er hægt að gera öllum til hæfis og allra síst nú eins og ástand og horfur eru í efnahagslífi þjóðarinnar.

Ég lét þau orð falla við 1. umr. um frv. að það væri lagt fram við óvenjulegar og erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu. Meðan n. var að störfum hafa þessar horfur síst batnað. Heldur má segja að útlit hafi versnað að mun. Á ég þar að sjálfsögðu við fram komnar spár um aflahorfur á næsta ári. Fram hjá þessu er útilokað að horfa, og verður að sjálfsögðu að bregðast við í samræmi við það. Því hefur verið ákveðið að endurreikna launaforsendur frv. svo sem fram kom í framsöguræðu formanns n.

Brtt. þær sem n. flytur hér geta vart talist háar eða óeðlilegar þótt ástandið sé erfitt. Samtals nema þær um 166 millj. króna eða tæplega 1% af heildarútgjöldum frv. Sumpart stafa svo litlar brtt. sem raun ber vitni af því að við undirbúning frv. var reynt að áætla rekstrarútgjöldin eins raunveruleg og frekast var talið unnt, svo fjárlög yrðu sem raunhæfust og á þann hátt það stjórntæki sem þeim ber að vera. Virðist það hafa tekist nokkuð og kom fram í viðtölum við ýmsa aðila að þeir teldu sig geta við unað. Er brýnt að það megi takast og nauðsynlegt að fylgjast náið með því að eftir fjárlögum verði farið. Á hinn bóginn verður svo að segjast að n. reyndi að vera eins sparsöm og aðhaldssöm og frekast var unnt. Ýmsa liði var þó nauðsynlegt að lagfæra og leiðrétta. Ætla ég ekki að tíunda þá alla en aðeins drepa á örfá atriði.

Allverulegar breytingar voru gerðar á stofnkostnaðarframlögum til þeirra skóla sem ætlað er að byggja upp verkmenntun í landinu. Má þar nefna 9 millj. kr. til Fiskvinnsluskólans svo og 4 millj. kr. til Tækniskóla Íslands og aðrar 4 millj. kr. til Verkmenntaskólans á Akureyri. Auk þess voru hækkuð framlög til nokkurra mennta- og fjölbrautaskóla. Framlög til lista voru einnig hækkuð nokkuð, einkum til leiklistar- og tónlistarflutnings, þó vafalaust telji þeir sem þar eiga hlut að máli að of lítið hafi verið að gert. Liðurinn æskulýðsmál hefur hækkað verulega. Munar þar mest um hækkun til Ungmennafélags Íslands, en talið var eðlilegt að það fengi svipaða hækkun og Íþróttasamband Íslands hafði áður fengið. Tel ég hvortveggja þessi samtök vel að þessu komin og fjármagni til þeirra vel varið, enda verður seint fullþakkað það mikla starf sem innt er af hendi í æskulýðs- og íþróttamálum fyrir tilstuðlan og með stuðningi þessara samtaka, að ekki sé minnst á hin uppeldislegu og þroskandi áhrif sem allt þetta starf hefur í för með sér.

Hvað varðar brtt. við landbrn. vil ég nefna stuðning við búgreinar eins og loðdýrarækt en till. er um fjárveitingu til að efla ráðgjöf á því sviði svo og skógrækt, en nú virðist talsverður áhugi á því að efla skógrækt í landinu, m.a. bæði í Eyjafirði og í Suður-Þingeyjarsýslu og er því einnig flutt till. um fjárveitingu að upphæð 500 þús. kr. til svokallaðra „nytjaskóga.“ Eins og nú háttar í landbúnaðinum tel ég mjög mikilvægt að efla og auka fjölbreytnina og því bæði sjálfsagt og skylt að ríkið hjálpi nokkuð til og létti undir með þeirri þróun.

Svo sem áður hefur komið fram er gert ráð fyrir því í frv. að á árinu 1984 taki til starfa 11 ný heimill fyrir fatlaða og eru nýjar stöður vegna reksturs þessara heimila áætlaðar um 50. Í brtt. n. er að auki gert ráð fyrir fjárveitingu til reksturs sambýlis á Akureyri, sem nú þegar er starfrækt en hafði ekki komist inn í frv., svo og till. um 2 millj. kr. hækkun til að standa straum af kostnaði við 10. gr. laga um aðstoð við þroskahefta, en þar er gert ráð fyrir greiðslu til foreldra eða forráðamanna fatlaðra barna sem búa heima en ekki á stofnunum. Slíkt hefur að sjálfsögðu í för með sér mikinn tilkostnað fyrir heimilin, auk þess sem viðkomandi foreldri getur ekki sótt hinn almenna vinnumarkað og því sjálfsagt og eðlilegt að greiða til heimilisins á móti þeim kostnaði sem annars væri við rekstur vistheimilis. Hins vegar þykir því miður ekki fært að hækka framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra frá því sem ráðgert er í frv., þó ekki leiki vafi á að þörfin er brýn fyrir frekari úrbætur á þessu sviði, þar sem almennt er gert ráð fyrir því að hefja ekki nýjar framkvæmdir heldur leggja áherslu á að þoka áfram því sem í gangi er. Vík ég aðeins nánar að því síðar.

Nokkur hækkun er á einstökum liðum sem heyra undir heilbr.- og trmrn., svo sem leiðrétting á áður lofuðu framlagi til byggingar DAS, Hrafnistu í Hafnarfirði sem nú er fært upp til verðlags. Einnig má nefna hækkun á framlagi til Hjartaverndar, Krabbameinsfélags Íslands og annarra félagasamtaka sem að heilbrigðismálum vinna.

Þá vil ég að lokum í þessari upptalningu nefna hækkun á framlögum til ýmissa iðnaðarmála, svo sem til iðnaðarrannsókna, iðnþróunar og tækninýjunga og til iðnráðgjafar, en nú er gert ráð fyrir því að hægt sé að ráða iðnráðgjafa til starfa í öllum kjördæmum. Þá er og lagt til að varið verði 1.5 millj. kr. til kynningar á íslenskum iðnvarningi. Margt fleira mætti að sjálfsögðu nefna í þessum brtt. en eins og ég sagði í upphafi er ekki ástæða til þess eftir ítarlega ræðu formanns n. Mig langaði aðeins að drepa hér sérstaklega á örfá atriði.

Þó að reynt sé að setja frv. fram þannig að það megi teljast raunhæft hvað rekstrarútgjöld varðar þá er vitað að fjárveitingar til rekstrar grunnskóla eru vanáætlaðar miðað við óbreytt form. stafar það af því að rætt hefur verið um að breyta kostnaðarskiptingu við grunnskólareksturinn á milli ríkis og sveitarfélaga frá því sem nú er. Ljóst er að til að þessi breyting nái fram að ganga þarf að nást um það samkomulag við fulltrúa sveitarfélaganna. Jafnframt þarf að sjá svo um að kostnaði við þennan rekstur verði réttlátlega jafnað milli sveitarfélaga, þannig að ekki verði lagður óbærilegur kostnaður á minnstu sveitarfélögin, sem að sjálfsögðu þurfa að sjá þeim ungmennum sem þar búa fyrir sambærilegri menntun og gerist í þéttbýlinu. Þetta má hugsa sér að gera t.d. með raunverulegum jöfnunarsjóði sem standi undir nafni eða á einhvern annan hátt sem samkomulag næst um. Náist slíkt samkomulag hins vegar ekki verður það að vera öllum ljóst að skyldan um greiðslu þessa kostnaðar hvílir á ríkissjóði. Verða stjórnvöld að taka á því máli á raunhæfan hátt þegar eða ef til þess kemur.

Í ræðu sinni hér áðan gerði formaður fjvn. grein fyrir þeirri vinnureglu sem reynt var að halda fast við er fjárveitingum var skipt á einstaka framkvæmdaliði. En þar á ég við regluna um að engum nýjum framkvæmdum sé hleypt af stað. Auðvitað er þetta hörð regla, erfið og viðkvæm í framkvæmd. En það hlýtur að teljast skynsamlegt þegar þrengir að í ríkisbúskapnum að stýra fjármagninu fremur til þeirra framkvæmda sem komnar eru vel á veg eða u.þ.b. að takast í notkun fremur en að hleypa af stað fjölmörgum nýjum framkvæmdum, sem þó er að sjálfsögðu beðið um nú ekki síður en oft áður. Engin regla er án undantekningar og sjálfsagt ekki þessi heldur. Og fái hún ekki staðist verða forsendur undantekninga að vera alveg ljósar, annaðhvort mjög brýn þörf fyrir þá starfsemi sem viðkomandi bygging á að hýsa eða mjög alvarlegt ástand í atvinnumálum á viðkomandi svæði. Þessi málsmeðferð vekur líka til umhugsunar um hvort ekki sé rétt og tímabært að taka upp gerð langtímaáætlana varðandi hina ýmsu fjárfestingarliði svipað og nú er gert við gerð vegáætlunar.

Herra forseti. Ég hef orðið langorðari en ég ætlaði mér í upphafi. Ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, nefna nokkur atriði sem enn eru ekki útrædd í fjvn. og koma til umfjöllunar hér við 3. umr. Eftir er að leiðrétta framlög til landbúnaðar í samræmi við jarðræktarlög en þar er um að ræða greiðslur vegna framkvæmda sem þegar hafa verið unnar. Framkvæmdasjóð aldraðra þarf að taka til athugunar með tilliti til ákvæða í lögum um sjóðinn hvað varðar greiðslu stofnkostnaðar hjúkrunarheimila og sjúkrastofnana fyrir aldraðra. B-hluta stofnanir allar eru einnig geymdar til 3. umr. Varðandi þær stofnanir vil ég á þessu stigi aðeins taka fram að við framsóknarmenn munum leggja áherslu á að áfram verði haldið framkvæmdum við lagningu sjálfvirks síma og sveitarafvæðingu samkvæmt lögum og þáttill. sem Alþingi hefur áður samþykkt þar um. Auk þess eru svo nokkur smærri atriði sem ekki hafa enn fengið fullnaðarafgreiðslu í fjvn., en verða tekin til meðferðar milli umr.

Í lok ræðu sinnar hér áðan vék hv. 5. þm. Reykn. Geir Gunnarsson nokkrum orðum að Framsfl. og taldi að þar væri um mikla stefnubreytingu að ræða. Flokkurinn hafi horfið frá félagshyggjustefnu sinni og nú væri ráðist á ýmis félagsleg réttindi. Ég tel að hér sé nokkuð hallað réttu máli og vil minna hv. þm. á að nú þegar hefur hæstv. félmrh. beitt sér fyrir verulegum lagfæringum í húsnæðismálum og þessa dagana er t.d. verið að úthluta viðbótarlánum til húsbyggjenda hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Þá hefur hæstv. félmrh. einnig lagt fram hér í Alþingi frv. til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem um er að ræða verulegar umbætur sem tryggja hag húsbyggjenda. Ráðgert er að taka í rekstur fjölmargar nýjar stofnanir fyrir fattaða, svo sem ég hef áður getið um, þó um stundarsakir verði að draga úr nýframkvæmdum á ýmsum sviðum þegar þjóðartekjur dragast saman. Þá munum við framsóknarmenn beita okkur fyrir því að fyrirhugaður sparnaður í tryggingakerfinu komi ekki niður á þeim verst settu, en eins og allir vita njóta ýmsir bóta í einu eða öðru formi, sem hafa þó mjög mismunandi aðstæður, sumir svo góðar að umhugsunarvert er hvort ástæða er til að greiða fyrir þá t.d. sjúkrakostnað í nokkra daga. Við framsóknarmenn munum áfram sem hingað til standa vörð um ýmis félagsleg réttindi, en við viðurkennum þær erfiðu aðstæður sem nú er við að glíma í þjóðfétaginu og teljum að ekki verði fram hjá þeim gengið.

Að lokum vill ég þakka gott og ánægjulegt samstarf við alla meðnefndarmenn mína svo og starfsmenn fjárlaga- og hagsýslustofnunar.