15.12.1983
Sameinað þing: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

139. mál, frysting kjarnorkuvopna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir fylgi við þessa fram komnu till. um frystingu kjarnorkuvopna. Ég ætla ekki að fara að ræða málið efnislega, enda ekki ástæða til af minni hálfu þar sem ég hef nýlega mælt fyrir till. sem efnislega felur í sér svipað og fram kemur í þessari till. Það var þáltill. um nauðsyn afvopnunar og tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna, en þeirri till. hefur þegar verið vísað til utanrmn. Það sem nýtt er, að segja má, í þessari till., er að íslensk stjórnvöld taki frumkvæði í þessum efnum til viðbótar við stuðning við áskoranir þm. frá fjölda landa, sem vikið var að í þeirri till. sem ég er 1. flm. að. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en vænti þess að þessar till. allar fái sem fyrst meðferð í hv. utanrmn.