25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. varðandi hjartaskurðlækningar á Landspítalanum. Fsp. er svohljóðandi: Hver eru áform ríkisstj. varðandi stofnun deildar fyrir hjartaskurðlækningar á Landspítalanum? Mál þetta hefur verið lengi til umr., m.a. í heilbrrn. og á Landspítalanum. Þegar ég kom í heilbrrn. í febrúar 1980 lá fyrir bréf frá þáv. hæstv. heilbrrh. Magnúsi H. Magnússyni til Landspítalans um að hafist skyldi handa um undirbúning að hjartaskurðlækningum á spítalanum. Þar lá jafnframt fyrir að landlæknir, sem samkv. lögum er ráðgjafi heilbrrh., var andvígur því að þessi þjónusta yrði tekin upp á Landspítalanum. Ég leitaði þá eftir áliti landlæknis á nýjan leik í þessu efni og á árinu 1982 kom fram að landlæknir taldi að þá væru aðstæður aðrar en verið hafði þegar hann var beðinn um álit á þessu máli á árinu 1979.

Af þeim ástæðum lagði ég á það mikla áherslu á s.l. ári — og heilbrrn. og forráðamenn ríkisspítalanna - að þessi starfsemi yrði tekin upp þar og við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1983 var við það miðað að stigin yrðu fyrstu skrefin í þessu efni. Ég tel að fjárhagslegar röksemdir séu afdráttarlausar í þessu efni og það sé hagkvæmt að taka upp hjartaskurðlækningar hér á landi miðað við þann gífurlega kostnað sem Tryggingastofnun ríkisins verður að leggja í vegna þess mikla fjölda fólks sem leitar sér lækninga erlendis nú orðið og talið er að geti orðið 150–160 manns á þessu ári.

En það eru ekki aðeins fjárhagslegar röksemdir sem hér vega þungt vegna þess að þær geta ekki einar ráðið úrslitum í máli af þessu tagi. Hér koma einnig til mannlegar ástæður sem eru þær að það fólk sem verður að sækja lækningar utanlands á oft mjög erfitt með að sætta sig við þá tilhugsun, m.a. vegna þess að margir kunna ekki erlend tungumál og óttast framandi umhverfi. En í þriðja og síðasta lagi þá er ljóst að Íslendingar eiga þegar þjálfaða hjartaskurðlækna sem geta vel veitt slíkri starfsemi forustu hér á landi. Þannig er það mín skoðun að bæði fjárhagslegar, mannlegar og tæknilegar röksemdir mæli með því að þessi starfsemi verði tekin upp hér á landi.

Ég vil leyfa mér að fara fram á það að hæstv. núv. heilbrrh. tjái sjónarmið sín í þessu efni. Ég tel að hér sé um að ræða stórt og þýðingarmikið mál og áríðandi sé fyrir hv. Alþingi að vita um viðhorf heilbrrh. áður en fjárl. fyrir árið 1984 verða afgreidd.