17.12.1983
Neðri deild: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það hefur margoft komið fram í máli mínu að nauðsyn væri á öflugum stjórntækjum í þessari atvinnugrein, ekki síst við þær aðstæður sem nú ríkja. En það hefur jafnframt komið fram að ég teldi það grundvallaratriði að þingið legði meginlínurnar um þessi mál og væri þannig ábyrgt í heild sinni fyrir meginlínum í stefnumörkun. Þó að ég sjái þannig nauðsyn þess að til víðtækra ráðstafana verði gripið get ég ekki fallist á að valdaafsal verði með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir og þingið firri sig ábyrgð með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Það hefur ekkert með ráðh. sjálfan að gera. Hann er einstök persóna í þessu dæmi. Þó ég treysti honum vel hljóta menn að taka prinsipafstöðu í máli sem þessu og því segi ég nei.