24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

386. mál, útreikningur verðbóta

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Vel má vera að Seðlabankinn geti túlkað lögin með þeim hætti sem hér var gefið til kynna, en það er áreiðanlega mjög þröng túlkun. Aðalatriðið í þessu máli er að menn átti sig á því hvort þeir telji nauðsyn bera til að settar séu reglur um hvernig reikna skuli verðbætur í almennum samningum af þessu tagi. Við höfum hér dæmin fyrir okkur og þau hafa verið rakin og gefa greinilega til kynna að seljandi t.d. fasteignar geti búið sér til verðbólgugróða á kostnað kaupandans með þeim reglum sem hefur verið fylgt. Upphaflega voru þessar verðbætur hugsaðar þannig að ætlast var til þess að sérhvert verðmæti stæði fyrir sínu en það er á hinn bóginn svo að menn geta hagað útreikningi á þessum verðbótum þannig að seljandinn hagnast á kostnað kaupandans, en það var ekki ætlunin.

Við skulum taka einfalt dæmi um svona aðferð. Það er 30% verðbólga á þremur mánuðum. Þá segja menn: Það er þá 10% verðbólga á mánuði, og reikna út bætur miðað við 10% á mánuði. Þegar menn hafa gert það í þrjá mánuði í röð fá þeir ekki út 30% heldur 33%. Ef við tökum þannig 10% hvert ofan á annað erum við komin upp í 33%. Þarna er búið að búa til verðbólgugróða með reikningsaðferðinni einni.

Út frá þessu og hvað verðbætur eru almennar í viðskiptum hér held ég að fyllsta ástæða sé til að settar yrðu almennar reglur um þetta atriði. Ég held að við þurfum ekki fleiri dæmi en þetta til að sannfærast um það, þótt rekja megi fleiri dæmi.

Ef Seðlabankinn hefur rétt fyrir sér um það að þær lagaheimildir sem fyrir hendi eru séu ekki nægjanlegar til að settar séu almennar reglur um viðskipti af þessu tagi tel ég tvímælalaust að afla eigi nýrra lagaheimilda. Þetta er vegna þess m.a. að viðskipti af þessu tagi eru orðin það almenn og löggilt í þjóðfélaginu.

Þar á ofan er því við að bæta að ýmsar grannþjóðir okkar sem búa við langtum minni verðbólgu en við höfum vanist hafa séð ástæðu til að setja sér reglur um það hvernig vísitölubætur skuli reiknaðar í viðskiptum, t.d. hjá verktakafyrirtækjum, hvernig greint skuli niður á verkþætti eða hvað sé heimilt í þeim efnum.

Margir þm. vita að þannig reglur eru t.d. fyrir hendi í Svíþjóð þó að verðbólgan þar sé kannske innan við 10%. Það er vegna þess að menn telja nauðsynlegt að um þetta séu skýr ákvæði svo að menn þurfi ekkert að fara í grafgötur um hvað rétt er í þessum efnum og það sé ekki verið að snuða neinn og búa til reglur af handahófi — eins og hér hefur verið gert — með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og búið til óréttlæti. Það er að vísu óréttlæti af öðru tagi en það sem fyrir var áður en menn fóru yfir í verðtrygginguna, en engu að síður alvarlegt óréttlæti og kannske að sumu leyti alvarlegra. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að fram fari sérstök athugun á því máli sem hér um ræðir og aflað verði lagaheimilda til að setja þær reglur sem eru auðvitað bæði nauðsynlegar og skynsamlegar í þessu tilviki.