24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Atvinnuleysi er nú meira en nokkru sinni fyrr á undanförnum árum. Eins og fram hefur komið hér eru nú nær 4000 manns atvinnulausir, einkum í sjávarplássum en reyndar víða annars staðar. Margur gerir sér ekki grein fyrir því hversu erfitt ástand er hjá því fólki sem er atvinnulaust.

Hæstu atvinnuleysisbætur sem unnt er að fá fyrir einstakling eru 500 kr. á dag eða um 10 þús. á mánuði og væri gaman að vita hvort nokkur hér inni treysti sér að lifa á slíku.

Þetta ástand er óþolandi og úr því verður að bæta. Það er óþolandi að í þessu landi þar sem svo mikil auðæfi eru til sem raun ber vitni þurfi verkafólk að standa atvinnulaust án verkefna. Ég er sannfærður um að sé leitast við að breyta þessu er það hægt. Ég viðurkenni að erfið afkoma fiskvinnslunnar eða útgerðarinnar hefur mikið með þetta að gera. Því er ástæða til að spyrja hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggst gera til að leysa vanda útgerðarinnar.

Það verður að vera höfuðstefnumál hverrar ríkisstj. að sjá til þess að full atvinna sé í landinu. Svo er ekki í dag. Ég er sannfærður um að margur lítur á þær atvinnuleysistölur sem nú eru fyrir hendi sem hjóm eitt sem ekki beri að taka alvarlega. Það samræmist efnahagskenningum margra manna að hafa dálítið atvinnuleysi eins og sagt er og því tekur margur þessar atvinnuleysistölur ekki alvarlega, því miður.

Hæstv. forsrh. minntist á það áðan að fyrirhugað væri að skipa atvinnumálanefnd með þátttöku nokkurra aðila til að gera tillögur um úrbætur, koma með hugmyndir um hvað gera skuli. Ég vil lýsa því hér yfir að ég tel skipun slíkrar nefndar einskis virði nema henni sé tryggt fjármagn til að sýsla með. Ég hygg að ekki vanti skýrslur í þjóðfélagið, upplýsingar um hvernig ástandið er eða hugmyndir, það vantar fjármuni til að koma þessum verkefnum af stað. Og atvinnumálanefnd sem hefur ekkert vald eða enga fjármuni getur lítið gert og ber dauðann í sér.

Það var upplýst áðan að fyrirhugað væri að efla vinnumálaskrifstofu rn. og er allt gott um það að segja. Þessi vinnumálaskrifstofa hefur staðið sig vel. En það eitt að fylgjast með leysir engin mál og breytir engu. Þótt skýrslugjöf verði virkari á slíkri stofnun kemur það ekki atvinnulausu fólki til góða, því miður, ég óttast að svo sé.

Eitt er það sem ástæða er til að hafa orð á og kemur mér þá í hug mál sem margir hafa áhyggjur af, þ.e. sú þróun sem á sér stað varðandi fiskvinnsluna. Farið er að flytja ísaðan fisk út í stórauknum mæli í gámum. Mér er ljóst að miklir fjármunir fást fyrir þetta, en fólkið situr atvinnulaust á meðan slíkt er gert. Það hlýtur að vera óheilbrigt að flytja fiskinn út ósnertan af vinnuaflinu hér heima, það hlýtur að vera eitthvað að ef ekki er hægt að skapa þann grundvöll sem gerir það að verkum að hagstætt sé að vinna fiskinn betur. Ég vil beina þeirri spurningu til forsrh. hvort þessi mál hafi eitthvað verið athuguð, hvort eðlilegt er að fara þannig með fiskinn að hann fari beint út í gámum án þess að nokkur komi þar nálægt, nokkurt vinnuafl að marki.

Ég vil fullyrða að mjög langt er síðan að slík neyð hefur skapast hjá láglaunafólki eins og nú þessa mánuðina. Það er ekki aðeins sú kjaraskerðing sem dunið hefur yfir þetta fólk, heldur líka skortur á atvinnu. Margir eru að missa húsin sín og aðrir hafa vart ofan í sig að éta, þess eru dæmi. Úrræði virðast lítil til að hjálpa þessu fólki. Það er gott og blessað að skipa nefnd og gott og blessað að hafa góðan vilja, en fólkið hrópar á framkvæmdir, úrbætur og ekkert annað.

Vissulega má margt gera. Mér kemur líka í hug að fyrir nokkru frétti ég af því að fyrirtæki suður á Suðurnesjum er búið að biðja um fyrirgreiðslu í marga mánuði til að flytja inn vélasamstæðu sem getur fullunnið fisk, sett á hann rasp og komið honum í neytendapakkningar á þann veg sem við gerum með íslensku verksmiðjunum úti í Bandaríkjunum. Þetta fyrirtæki hefur markað fyrir þessa vöru og fái það þessa samstæðu gerir það að verkum að 40 manns fengju atvinnu, en fyrirgreiðsla fæst ekki. Menn daufheyrast við svona tækifærum, slíkum verkefnum, því miður.

Ég hef lagt hér fram nokkrar spurningar til forsrh. og ég vænti þess að hann svari þeim. Vissulega er rétt hjá honum að við þurfum öll að hjálpast að til að leysa þennan vanda og við þurfum að vera okkur þess meðvitandi öll að frumréttur hvers einasta manns er að hafa atvinnu.

Ég vænti þess að hafist verði handa við að leysa þann vanda sem nú er í atvinnumálunum. Fyrst og fremst verður það gert með því að koma útgerðinni í gang. Það er ekki bara kvótafyrirkomulag eða stjórnun fiskveiða sem þar er í veginum. Það er einkum það að tapið á togurunum — við getum deilt um það seinna hvers vegna — er það mikið að þeir treysta sér vart að fara út margir hverjir, en það verður til þess að atvinnuleysið heldur áfram ef ekki verður bætt úr.

Ég óttast því miður, þrátt fyrir að menn geri hvað þeir best geta til að leysa úr þessum málum að vegna stefnu ríkisstj., þeirrar kreppustefnu sem á sér stað, verði atvinnuleysi meira á þessu ári en verið hefur öll síðustu ár. Ég skora á stjórnvöld að gera hvað þau geta til að leysa þessi mái. Ég veit að verkalýðssamtökin munu vera fús til samvinnu um að leysa þessi mál eða koma með sitt framlag til þess, en eigi þessi samtök að taka þátt í atvinnumálanefnd eða slíku starfi ber það ekki árangur nema fjármunir séu annars vegar.