25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2324 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

152. mál, skemmtanaskattur

Tómas Árnason:

Hæstv. forseti. Það gefur auga leið að erfiðara er að reka starfsemi eins og kvikmyndahús í fámenni en í fjölmenni og þarf í raun og veru ekki að fara um það mörgum orðum. Ég vil fagna þessu frv. sem þm. fyrir landsbyggðarkjördæmi því að mér er vel kunnugt um að víða í kauptúnum og kaupstöðum eru talsvert verulegir erfiðleikar við að reka starfsemi á borð við kvikmyndahús. Það er staðreynd að unga fólkið sérstaklega sækir enn þá þrátt fyrir sjónvarpið verulega kvikmyndahúsin og það er ein af þeim skemmtunum sem unga fólkið getur notið úti á landsbyggðinni.

Ég vildi aðeins í sambandi við þetta mál vekja athygli á því að ég held að kominn sé tími til að gefa meiri gaum að möguleikum ungs fólks um allt land en ekki síst í kaupstöðum og kauptúnum úti um landið til að verja sínum tómstundum. Félagsheimilin sem voru gífurlega mikið félagslegt átak á sínum tíma voru þannig byggð að nánast var byggt utan um dansgólf og það var leiksvið. Menn hugsuðu ekki lengra á þeim tíma þegar félagsheimilin voru byggð. Nú hefur orðið talsverð breyting að því leyti til að ástæða er til að útvíkka þessa starfsemi víða í kaupstöðum og kauptúnum og raunar einnig hér á höfuðborgarsvæðinu, að herða róðurinn í því efni að gera ungu fólki mögulegt að verja sínum frítímum við sem heilbrigðastar aðstæður. Það er spurning hvort ekki væri einmitt ástæða til — og ég vil nú beina því til hæstv. menntmrh. — að taka þessi mál til endurskoðunar og athugunar. Þau eru kannske í athugun, kannske er starfandi nefnd sem er að fjalla um þessi mál, ég veit það ekki. En væri ekki ástæða til þess að taka þessi mál til heildarathugunar? Við sjáum það sem ferðumst um kauptúnin og kaupstaðina út um landið að iðulega er hópur af ungu fólki í kringum bensínafgreiðslustöðvarnar og sjoppurnar. Og hvers vegna er unga fólkið þarna? Það er þarna vegna þess að það hefur engan stað til að víkja að þó að að vísu hafi orðið geysileg bót í þessum efnum í sambandi við byggingu íþróttahúsa, sundlauga og slíkra mannvirkja þar sem þau eru. En eigi að síður er það staðreynd, t.d. á Austurlandi sums staðar, að unga fólkið hefur í raun og veru engan annan stað til að fara á utan þar sem íþróttamannvirkin eru, og það eru nú ekki allir í því eins og kunnugt er, heldur en í kringum sjoppurnar. Þetta sjá auðvitað þm. og allir sem eiga heima og ferðast um þessa staði. Þess vegna vildi ég vekja athygli á þessu og að ástæða væri til að hefja heildarendurskoðun á því máli að bæta enn aðstöðu fyrir unga fólkið, ekki síst í minni kaupstöðum og kauptúnum, svo að ég leggi nú sérstaka áherslu á það, en auðvitað gildir það sama um alla byggð í landinu.