30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt til að lýsa afstöðu minni í heild til þessa frv. Ég geri mér náttúrlega sjálfur grein fyrir því að afstaða mín til núverandi stjórnarskipunar litar kannske að einhverju leyti skoðanir mínar í þessu máli. Ég verð að játa það að ég hef eftir þessa stuttu setu mína á þingi orðið, ef svo má segja, enn ákveðnari í andstöðu minni við þingbundið stjórnarfar eins og við búum við í dag. Það er í sjálfu sér kannske annar handleggur. En vitanlega lætur það mann ekki alveg lausan.

Burtséð frá þessari afstöðu minni er ég alls ekki sammála um nauðsyn þess að fjölga þm. þar sem greinilegt er að þessi fjölgun þjónar flokkunum en ekki fólkinu. Það er afskaplega lítill munur á því fyrir Íslending að vera þriðjungur úr atkvæði eða 40% úr atkvæði, á meðan sýnt er að atkvæði hans vegur ekki jafnt og annarra. Það er hætt við því að íbúar Seláss og Breiðholts hér í Reykjavík yrðu dálítið kringlóttir í framan ef þeim væri tjáð að atkvæði þeirra hefði tvöfalt meira vægi en íbúa á svæðinu frá Snorrabraut að Garðastræti. Mín afstaða til þessa máls mótast sem sé af því að ekki er hægt að sannfæra einn eða neinn um það, að þarna hafi fólkinu verið þjónað með einum eða öðrum hætti.

Ég hef aftur á móti tvær spurningar til ríkisstj. og þá hæstv. formælanda. Spurningarnar eru þessar: Er það ætlun ríkisstj. að afgreiða þetta mál á þessu þingi? Ef svo er, hversu lengi ætlar ríkisstj. sú sem nú situr að sitja eftir að frv. þetta hefur verið samþykkt?