30.01.1984
Neðri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Suðurl. komst þannig að orði að það væri mikil festa og mikið öryggi núna í efnahagsmálum Íslendinga. Það er fróðlegt að heyra þessa yfirlýsingu hjá þeim mönnum sem eru búnir að standa hér langtímum saman kveinandi yfir því að allt sé komið á vonarvöl í þjóðfélaginu og það megi enginn hreyfa sig, það megi ekki koma til að nokkur maður fái fimmeyrings kauphækkun þá sé voðinn vís. En ætli það sé mikil festa og mikil öryggistilfinning sem læsir sig núna um láglaunaheimilin á Íslandi? Ætli það sé ekki óskaplega mikil öryggistilfinning og festa sem lýsir sér í því fyrir mann, sem er með 15 þús. kr. á mánuði eða eitthvað þaðan af lægra, að fara út í búð að kaupa í matinn? Ætli það hríslist ekki um þetta fólk sérstök ánægja og gleði um þessar mundir þegar það fer að borga fasteignagjöldin sem voru snarhækkuð umfram annað af borgarstjórnaríhaldinu í Reykjavík? Ætli það sé ekki alveg sérstök ánægja, festa og öryggistilfinning sem lýsir sér hjá Reykvíkingum þessa dagana sem fá fréttina um 25% hækkun á Hitaveitu Reykjavíkur? Ætli þetta fólk sé ekki alveg sérstaklega ánægt og bjartsýnt núna þegar það þarf að fara að borga reikningana sína frá því í desembermánuði s.l.?

Þegar hv. 1. þm. Suðurl. er að tala um festu og öryggi þá er hann nefnilega ekki að tala um þetta fólk. Hann er að tala um allt aðra Íslendinga. Hann er að tala um tiltölulega mjög fámennan hóp manna, vegna þess að þessi stóri meiri hluti vinnandi atþýðu á Íslandi stendur núna í heimilisrekstri sínum frammi fyrir óleysanlegu dæmi, stendur frammi fyrir því að launin á unna vinnustund eru núna lægri að kaupmætti en nokkru sinni fyrr síðan 1953 samkvæmt opinberum tölum m.a. frá Þjóðhagsstofnun. Það fólk sem hér er um að ræða skynjar ekki öryggistilfinninguna, bjartsýnina og gleðina, sem hríslast um forkólfa Vinnuveitendasambands Íslands, sem eru núna að halda hátíðir til að fagna hinum nýja aðila, ÍSAL. Þetta fólk býr við allt annan hlut. Það er ekki gleðin eða hamingjan sem lýsir sér í fjárhag þess um þessar mundir. Það er þess vegna ekki þetta fólk sem formaður Sjálfstfl. er að tala hér um. Hann er að tala um allt annað fólk. Hann er að tala um lítinn hóp fjármagnseigenda hér í landinu, sem býr núna við gullöld og gleðitíð sem aldrei fyrr. Það er rétt, það fólk er til. Og það er það fólk sem hann hefur hitt að máli.

Hv. 1. þm. Suðurl. og hæstv. iðnrh. komu hins vegar upp um sig í ræðum sínum hér í dag, þegar þeir voru að ráðast að fólkinu í álverinu, hálaunafólkinu í álverinu, sem hæstv. iðnrh. tuggði upp aftur og aftur, hálaunafótkið í álverinu. Ætli það væri ekki rétt að hann færi að hitta eitthvað af þessu fólki og kanna hvaða lífskjör það hefur? Þegar hann var að tala um hálaunafólkið í átverinu, að það mætti ekki koma til greina að kaupið hjá þessu fólki hækkaði nokkurn skapaðan hlut, þá var hann ekki fyrst og fremst að ráðast að því. Það var ekki það sem vakti fyrir honum. Það var ekki það sem vakti fyrir þessum ræðumönnum íhaldsins hér í dag, heldur það að þeir vildu halda niðri lífskjörunum í landinu í heild. Fjöregg þeirra er kjaraskerðingin. Það má ekki koma til að nokkur maður í landinu geti náð kaupinu sínu upp vegna þess að þá er hin stórfellda kjaraskerðing íhaldsins í hættu. Það er þetta sem þeir eru að segja. Þeir eru að tala um það að hinn mikli fjöldi láglaunafólks í landinu, sem býr núna við 10 961 kr. á mánuði, þessi mikli fjöldi láglaunafólks má ekki hækka kaup sitt um krónu vegna þess að þá eru efnahagsmarkmið íhaldsstjórnarinnar undir forustu formanns Framsfl. í hættu. Þessir menn eru að tala um áldeiluna sem hluta af efnahagsvandanum í landinu eins og hann leggur sig, þeir eru að tala um áldeiluna sem hluta af fiskverðsvandanum, sem nú blasir við næstu daga, þeir eru í átökum núna, þessir menn, um að bjarga útgerðinni fram hjá sjómönnum og skerða enn skiptahluta sjómanna. Þær tillögur liggja nú fyrir í ríkisstj. með hvaða hætti sé hægt að skerða enn þá meira skiptahlutfall sjómanna í landinu. Þetta eru þeir að tala um. Og þeir eru að ræða um það með hvaða hætti álversdeilan getur hugsanlega haft áhrif á þessa mynd alla. Það er þess vegna sem þeir ráðast að þessu fólki í Straumsvík sem þeir kalla hálaunamenn. Þeir sjá að fjöreggið, sem er úr áli, er í hættu. Kauplækkunarstefnan er í hættu, kaupránið er í hættu. Það er þess vegna sem þeir leggja þessar áherslur, þessir hv. þm., hér í dag.

Hv. 1. þm. Suðurl. talar svo um það af mikilli kokhreysti að ekki megi viðurkenna ægivald hagsmunasamtakanna og það sé í rauninni það sem ríkisstj. sé fyrst og fremst að leggja áherslu á. Engin ríkisstj. hefur hlaðið eins undir annan aðilann og veitt honum annað eins vald og þessi. Engin ríkisstj. hefur aukið eins við ægivald Vinnuveitendasambands Íslands eins og núverandi ríkisstj., ekki aðeins með hinni almennu kauplækkunarstefnu, sem flytur fjármuni til í þjóðfélaginu, heldur líka með því að reka fyrirtæki fólksins, ríkisfyrirtækin, inn í Vinnuveitendasamband Ístands og með því að ÍSAL verði aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands. Með þessu móti er ríkisstj. að hlaða undir þetta ægivald sem aldrei fyrr.

Hæstv. forsrh., sem ku vera framsóknarmaður, virðist ekki sjá neinn annan möguleika í þessari stöðu við að samræma kaup og kjör og kjarasamninga í landinu en að þvæla þessum fyrirtækjum öllum inn í Vinnuveitendasambandið. Ætli hæstv. forsrh. hafi gleymt því að það er til félagsskapur sem heitir Vinnumálasamband samvinnufélaganna? Hvernig er það, er kannske meiningin að næsta skref verði það að Vinnumálasamband samvinnufélaganna gangi í Vinnuveitendasamband Íslands? Það væri það eina rökrétta fyrir hæstv. forsrh. Ég vil leggja fram fsp. til hans um þetta mál og óska eftir að hann svari því. Ætlar hann að skella Vinnumálasambandi samvinnufélaganna inn í Vinnuveitendasamband Íslands? Það væri svo sem eftir öðru. Og síðan Framsfl. eins og hann leggur sig inn í íhaldið, það fer best á því, vegna þess að Framsfl. hallar sér nú orðið eingöngu yfir til hægri í íslenskum stjórnmálum. Hann sér ekkert annað úrræði, ekki neitt. Ég legg þessa fsp. hér fram til hæstv. forsrh.: Ætlar hann að beita sér fyrir því að Vinnumálasambandið gangi inn í Vinnuveitendasamband Íslands? Það væri það eina rökrétta. Ég er ekki að segja að mér finnist hæstv. forsrh. alltaf rökréttur, en það gæti þó verið að hann væri það í þessu tilviki. Er það meiningin hjá honum að beita sér fyrir því að Vinnumálasambandið gangi inn í Vinnuveitendasamband Íslands?

Hv. 1. þm. Suðurl. setur svo á langar ræður um það að auðvitað eigi ríkisstj. möguleika á því að víkja sér undan kröfum hagsmunasamtaka og segja af sér. Hv. 1. þm. Suðurl. hefur uppgötvað þann möguleika að ríkisstj. segi af sér. Ja, þvílík þekking á stjórnlagafræði og þingræði. Enginn stjórnarandstæðingur bannar ríkisstj. að segja af sér. Fyrir alla muni sjáðu til þess að hún geri það strax í dag. Og ætli það sé ekki þannig, að einmitt í forustu Sjálfstfl. séu menn sem grétu það þurrum tárum að einmitt þessi ríkisstj. segði af sér. Það þykja okkur stjórnarandstæðingum engin tíðindi þó að þessi ríkisstj. segi af sér. Hv. þm. sagði: Ríkisstj. hefur fullan rétt á því að segja af sér. Já, hún hefur fullan rétt á því að segja af sér. (Gripið fram í.) Hefur fullan rétt á því að segja af sér, sagði hv. þm. aftur og aftur, sem viðbragð við kjarasamningum sem ógnuðu kauplækkunarstefnu stjórnarinnar. Skyldi það vera þannig, að hæstv. forsrh. sé á þeim nótunum núna að ríkisstj. segi af sér? Er hann að hugsa um að nota sér þann rétt forsrh. að segja af sér? Fróðlegt væri að það kæmi hér líka fram, hvort svo er. Ætlar hann kannske að taka undir með formanni Sjálfstfl. um það, að ríkisstj. þurfi endilega að muna eftir þessum rétti sínum, þessum rétti til að frelsa sig undan okinu og segja af sér? Þjóðin yrði fegin, þjóðin yrði fegin því, einkum og sér í lagi þær láglaunafjölskyldur sem eru að slást við það þessa dagana að reyna að láta endana ná saman í fjárhag alþýðuheimilanna. Þar yrði fögnuður. Því skora ég á hv. 1. þm. Suðurl. að beita sér fyrir því, að hið allra fyrsta láti hann það verða að veruleika sem hann mælti hér áðan, að ríkisstj. segi af sér. Megi hann vinna það verk hið allra fyrsta að koma henni sem lengst í burtu. En ég spyr: Hefur hæstv. forsrh. sömu skoðun?

Hv. 1. þm. Suðurt. og reyndar 3. þm. Suðurl., sá ágæti maður sem þar situr, hafa talað um það hér í ræðum að Alþb. væri flokkur sem vildi beita sér fyrir upplausn í þjóðfélaginu. Það væri í raun og veru höfuðtilgangurinn með öllum okkar ræðum hér að við vildum upplausn og aftur upplausn. Það væri í raun og veru ekkert annað sem fyrir okkur vekti. Hvað á svona málflutningur að þýða? Og hvað hafa menn fyrir sér í þessu efni? Alþb. leyfir sér auðvitað sem stjórnarandstöðuflokkur og verkalýðsflokkur að gagnrýna þessa ríkisstj. Við gagnrýnum kauplækkunar- og kaupránsstefnuna, við gerum það, og beitum okkur mjög hart í þeim efnum. Við höfum auðvitað þennan rétt sem stjórnarandstöðuflokkur og skyldu líka að veita ríkisstj. lýðræðislegt aðhald. En að menn geti fundið dæmi þess að Alþb. hafi vikið sér undan skyldum á Íslandi á liðnum árum, það hygg ég að sé í raun ekki til. Alþb. var tilbúið til þess eftir kosningarnar s.l. vor að beita sér fyrir efnahagsráðstöfunum til að draga úr verðbólgu og til að tryggja fulla atvinnu í landinu. Alþb. hafði um árabil, hálfan áratug segja þeir nú helst ráðh. þegar þeir eru að tala um okkur, hafði um árabil tekið þátt í ríkisstj. í landinu til þess fyrst og fremst að tryggja fulla atvinnu og það tókst á Íslandi einu Norðurlanda. Nú blasir hins vegar við, um leið og Alþb. er farið úr ríkisstj., að þá er atvinnuleysishættan meiri en nokkru sinni fyrr. Það er vegna þess að full atvinna er ekki efst á listanum hjá ríkisstj. þegar allt kemur til alls.

Þess vegna er það að sjálfsögðu rangt og fullkomlega ósæmilegt að bera það á Alþb. að það gangi fram í því af einhverju ábyrgðarleysi að efna til upplausnar í þjóðfélaginu frammi fyrir þeim erfiðu vandamálum sem nú er við að glíma á Íslandi. Við höfum þvert á móti sagt aftur og aftur og ég segi það enn: Alþb. hefur verið og er enn tilbúið til þess að glíma við þau úrlausnarefni sem erfiðust eru á Íslandi í dag. Og ég er þeirrar skoðunar að það sé útilokað fyrir þessa ríkisstj. eða aðra að ráða við þau úrlausnarefni öðruvísi en að taka á málunum á miklu víðtækari grundvelli en gert hefur verið núna.

Ég tel að ríkisstj., sem byrjar sinn feril á því að berja verkalýðshreyfinguna, að traðka á réttindum verkalýðshreyfingarinnar, ég tel að sú ríkisstj. sé að dæma sig til árangursleysis í efnahagsmálum og einnig í baráttunni gegn verðbólgu og fyrir fullri atvinnu. Ég held að það sé rangt að hafa uppi slíka stefnu, að ráðast þannig á yfirgnæfandi meiri hluta landsmanna eins og þessi stjórn hefur gert. Hún hefur ráðist á þá menn, á það vinnandi fólk í landinu sem er yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar. Ríkisstj., sem þannig hagar sér, henni mistekst. Aftur og aftur hefur ríkisstjórnum mistekist að halda þannig á málum hér. Þær hafa reynt það, þessar kaupránsstjórnir undanfarinna ára og áratuga, þær hafa aftur og aftur reynt það. En það hefur komið í ljós að ríkisstj., sem ræðst gegn hagsmunum hins breiða fjölda vinnandi fólks, hún er að dæma sig til árangursleysis.

Hvar er hæstv. iðnrh.? Er hann farinn? Ég óska eftir að hann verði sóttur, herra forseti. (Forseti: Hæstv. iðnrh. tilkynnti forföll svo að hann mun væntanlega vera farinn úr húsinu.) Þá óska ég eftir að umr. verði frestað þangað til hann kemur í húsið. (Forseti: Ég skal láta kanna hvort hann er í húsinu.) Geri ég þá hlé á máli mínu á meðan það er kannað? (Forseti: Hins vegar vek ég athygli á því, að þessari umr. var upphaflega beint að hæstv. forsrh. og fsp. fram borin til hans en ekki hæstv. iðnrh.) Það var hérna ráðh. nokkur í dag með hrópyrði, skútyrði og köpuryrði í garð stjórnarandstöðunnar, svo ég noti hans eigin orð, þannig að ég tel ástæðu og nauðsyn á því að svara þeim orðum hans. Ég get hins vegar beðið í ræðustólnum þangað til ráðh. kemur ef þess er óskað. (Forseti: Hæstv. iðnrh. hefur yfirgefið húsið. Eins og ég tjáði hv. þm., þá hafði hann boðað forföll það sem eftir væri þessa fundar. Ef það er ósk hv. þm. að hann sé viðstaddur umr. er ekki um annað að ræða en að fresta þessari umr. nú.) Ég þakka hæstv. forseta.