31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

165. mál, sleppibúnaður björgunarbáta

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Tortryggni ríkir í þessum efnum milli stjórnvalda og sjómanna. Það er óeðlilegt þegar um slík mál er að ræða. Ég tel að þessi tortryggni ríki vegna þess að illa hefur verið á málum haldið af hálfu Siglingamálastofnunar. Sá belgur sem Sigmundsbúnaðurinn byggir á hefur aldrei brugðist þegar hann hefur verið reyndur. Það hefur verið leitað eftir því að fá sterkari belg. Sá belgur sem ræðir um er venjulegur lóðabelgur, hefðbundinn lóðabelgur, og framleiddur hefur verið sérstakur belgur mun sterkari, sem að sjálfsögðu tekur við af þeim fyrri. Það er reiknað með því í þessum búnaði að skipt sé um árlega miðað við gömlu belgina.

En málið snýst ekki um það. Málið snýst um það að Sigmundsbúnaður gerði miklu meiri kröfur en Siglingamálastofnun stillti upp varðandi annan búnað, mun strangari kröfur, t.d. það að hann þyldi ísbrynju sem væri 12–15 cm, en ekki 3–4 cm eins og Siglingamálastofnun stillti upp. Gormabúnaðurinn fraus fastur á sama tíma og belgbúnaðurinn þoldi 17 stiga frost. Sá belgur sem nú er notaður í þessum búnaði þolir 30 stiga frost.

Þegar allt er skoðað og tækniatriði málsins einnig er því um að ræða spurninguna um hvort á að velja besta tækið fyrir sjómenn eða ekki. Ég tel að rn. ætti að taka af skarið, láta ganga úr skugga um hvað er besta tækið og sjá til þess að annað tæki fari ekki í íslensk skip. Það á ekki að bjóða íslenskum sjómönnum annað en það besta í öryggistækjum og öryggisbúnaði og þarna er misbrestur á.