25.10.1983
Sameinað þing: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

4. mál, framkvæmd byggðastefnu

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég fagna því út af fyrir sig að þetta mál er komið hér á dagskrá. Ég tel líka rétt að skoða allar leiðir til að skýla og einfalda þessi mál, finna þar betri leiðir og fá þeim betri farveg. Hér hefur verið leitast við það, í það minnsta af frsm. þessarar till., að leita nokkuð öfgalaust nýrra leiða, og mér finnst sjálfsagt að skoða þær leiðir vel, hverjar þar koma til athugunar og hverju má þar breyta, hvað má þar bæta. Ég held að hér sé hins vegar um það viðamikið mál að ræða að ég hætti mér ekki út í langa tölu um það. Það spannar alla okkar þjóðfélagsþróun vissulega, uppbyggingu atvinnuveganna okkar, byggðina í landinu, búsetuna, hvernig hún á að vera.

Ég held að heitbrigð og víðsýn byggðastefna sé traustur grunnur almennrar velferðar í landinu, ekki bara úti um byggðir landsins heldur ekki síður fyrir þéttbýlið í landinu. Þetta tekur til hvers konar atvinnutækifæra, hvar þau er að finna, hvernig þau eru nýtt, til hvers konar þjónustu, hvernig hún er rækt á hinum einstöku stöðum, hvernig mennta- og menningarmöguleikar fólksins eru, og inn í þetta fléttast vitanlega allir samgönguþættirnir, bæði á sjó, og landi og í lofti.

Ég held hins vegar að hvað sem öðru líður sé nauðsyn byggðar sem víðast ótvíræð og hafi þjóðhagslegt gildi sem sé auðsætt. Þar kemur til í fyrsta lagi nýting landsgæðanna, þar sem vitanlega þarf að vinna að af skynsemi og fyrirhyggju, þannig að um ofnýtingu verði ekki að ræða, en skynsamleg nýting landsgæða í landbúnaði okkar hlýtur að vera ein meginforsenda þjóðfélagsins. Hið sama er að segja um miðin og nýtingu þeirra, þá sem hagstæðasta nýtingu þeirra. Þar kemur auðvitað nálægðin við þessi mið inn í myndina og veldur því að við þurfum svo sannarlega á því að halda að sjávarþorpin séu sem best í stakk búin til þess að íbúar þeirra geti sótt á þessi mið. Aðrar auðlindir koma vissulega inn í þessa mynd einnig, þar sem orkuþátturinn er kannske veigamestur. Þar hljótum við að stefna að því að orkan dreifist, orkunýtingin verði sem jöfnust um landið, að hún sé sem næst vettvangi í eigin þágu. Þetta stefnir sem sagt allt að því að byggð sem víðast eigi fyllsta rétt á sér.

Ekki ætla ég að fara út í neinn meting við þéttbýlið um verðmætasköpun okkar, en vissulega gefur ræða hv. síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Reykv., býsna mikið tilefni til þess, þar sem hann ræddi um þær fjárfestingar sem hefðu verið í landbúnaði okkar og sjávarútvegi. Vissulega hafa þær kannske verið um of. Ég gef tekið undir það með honum. Mér þykir hins vegar býsna hvimleitt þegar menn ræða um offjárfestingarnar í þessum aðatatvinnuvegum okkar, þessum undirstöðuatvinnuvegum okkar, sem einhverja meinsemd á meðan þeir líta fram hjá þeim fjárfestingum sem engum arði skila, en vissulega eru meira áberandi í þessu þjóðfélagi en nokkuð annað, í verslun, í bönkum og í ýmiss konar gerviþjónustu hvarvetna. Það er býsna leiðinlegur og hvimleiður málflutningur að syngja þennan söng alltaf um offjárfestingu í aðalatvinnugreinum okkar, sem skilar sér þó býsna miklu betur til baka til þjóðfélags okkar en sú fjárfesting sem við horfum upp á og vitanlega er langmest hér í þéttbýlinu vegna þess að þar er stærstur markaður fyrir þessa gerviþjónustu og reyndar ýmsa aðra þjónustu sem er býsna nauðsynleg, en hefur þanist út langt yfir öll takmörk.

Hér hefur verið rætt mikið um hvaða leiðir skuli fara að því að taka upp sjálfstæða og markvissa byggðastefnu. Það er rétt að Atþingi sá ástæðu til að skipa nefnd í þetta mál. Það er rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. Og ég stóð heilshugar að því. Og af því að ég er líklega eini maðurinn hér inni sem sat í þessari nefnd ætla ég ekki að taka upp neina vörn fyrir þau vinnubrögð. Hins vegar var formaður þessarar nefndar, löngu látinnar nefndar, sjálfur hæstv. forsrh., svoleiðis að það er til hans að leita um vinnubrögð í þeirri nefnd og hvað þar var gert — og reyndar miklu frekar hvað þar var ekki gert, en ég harma það vissulega því full ástæða var til þess að allir þeir aðilar sem þá áttu aðild að íslenska stjórnkerfinu kæmu að þessu máli með opnum huga og jákvæðum og ynnu að því.

Ég get ekki stillt mig um það, af því að hv. 5. þm. Reykv. var hér í ræðustól, að minna hann einnig á aðra nefnd sem einu sinni var kölluð þúsund ára nefndin og við áttum báðir sæti í, hv. 5. þm. Reykv. og ég. Þúsundára nefndin var hún kölluð vegna þess að menn reiknuðu með því að verksvið hennar væri svo gífurlegt að engin leið væri að komast til botns í því. Þessi nefnd, sem var kölluð stofnananefnd öðru nafni, skilaði hins vegar áliti sem því miður ekkert hefur verið gert með, þó eftir hafi verið leitað. Og af því að hér var komið inn á það áðan hvernig Norðurlöndin hefðu hagað sinni byggðastefnu kynntum við okkur það einmitt mjög vel í þessari ágætu stofnananefnd, hvað Norðurlöndin hefðu gert mikið átak í því að dreifa hvers konar valdi, hvers konar þjónustu og hvers konar stofnunum sínum sem víðast um landið, þá auðvitað með full hagkvæmnisjónarmið að leiðarljósi. Í till. okkar, sem við stóðum báðir að, hv. 5. þm. Reykv. og ég, vorum við að reyna að gera tilraun eða leita leiða til slíkrar dreifingar, og hefði betur verið tekið meira tillit til þess. Þó óneitanlega hafi í sumum greinum verið gert nokkuð í því efni á vegum einstakra ríkisstofnana, þá hefur lítið orðið úr því, og engin veit nú hvað af sumum þeirra verður ef þær eru allar komnar á útsölulista hæstv. fjmrh.

Ég vil hins vegar taka það fram út af þeim umr. sem hafa verið um Framkvæmdastofnun ríkisins, að ég held að við megum þó ekki gleyma því í öttum þeim umr. að átakið sem gert var upp úr 1971 gegn þróun áranna þar á undan er í raun og veru skýrast dæmi um hversu unnt er skipulega að snúa öfugþróun við á skömmum tíma. Öfugþróun segi ég vegna þess að þá hafði mikill fólksflótti verið frá landsbyggðinni og margar byggðir þar stóðu vissulega höllum fæti. Ég er ekki þar með að segja að í einhverju af þessum aðgerðum hafi ekki verið farið offari, að það hafi verið staðið fyllilega að málum af hagkvæmni í öllum greinum. En hvar er það gert í okkar þjóðfélagi? Því miður hvergi. Þessi dæmi eru oft dregin fram — fyrst og fremst þau neikvæðu — til að skapa um leið neikvæða mynd, en meginmálið var auðvitað að þarna var sinnt gífurlega mikilli uppbyggingu atvinnu og þjónustu og því, sem ekki má gleyma, að í kjötfar þessa kom stóraukin og betri verðmætasköpun í þjóðfétagi okkar, sem hefur gert okkur það kleift á síðustu árum að komast það sem við höfum komist. Í stað flótta og óvissu fyrir fólkið í þessum landshlutum kom blómlegt og vaxandi framfaraskeið. Mér dettur ekki í hug að segja annað en að í þessari mynd allri á Framkvæmdastofnun vissulega ríkan þátt og gerði margt vel. Og mér finnst aðalatriðið ekki mega gleymast, hversu Byggðasjóður og stofnunin sem heild átti stóran og virkan þátt í jákvæðri þróun byggðar þá, framförum í atvinnulífi fjölmargra byggðarlaga og auknu öryggi íbúanna í kjölfarið í mörgum greinum. Ég held að í allri hinni neikvæðu niðurrifskenndu umræðu, sem um sumt á rétt á sér, megi þetta ekki gleymast.

Það hefur hins vegar orðið þannig, að þróunin í yfirstjórn þessarar stofnunar og þróunin, sem að vísu má alveg eins kenna um stjórnvöldum og þá Alþingi um leið, í sjálfvirkninni án skipulags, þróunin í afgreiðslu án nægra athugana og handahófi í allt of mörgu, hefur auðvitað orðið til þess að þessi stofnun hefur orðið í allt of miklu almenn fyrirgreiðslustofnun án fullkominnar áætlanagerðar og framkvæmda í kjölfar þeirra. Þetta er vissulega rétt og það eru verulegra breytinga þar þörf í mörgu. Ég vil þó taka fram að margt sem þar er gert er enn til styrktar og eflingar ýmissi nauðsynlegri atvinnustarfsemi og ýmsum framkvæmdum sem ella næðu ekki fram. Ég tek því ekki undir alhliða gagnrýni á alla starfsemi þessarar stofnunar.

Uppstokkun er þó nauðsyn og hér er leitað leiða til nokkurrar uppstokkunar, því að ég held að allir viðurkenni að við þurfum að leita þarna nýrra leiða og stokka upp — ekki vegna þess að verkefni séu ekki næg, heldur vegna þess hversu nú er komið fyrir þessari stofnun, því vissulega eru næg verkefni í byggðamálum ef við viljum á annað borð halda byggð í landinu.

Ég vona að ekki hafi mátt skilja orð hv. 5. þm. Reykv. þannig, að hann væri með sínum spurningum áðan að varpa því fram, hvort ekki væri í raun og veru mjög til góðs ef byggð raskaðist enn meir í landinu en orðið er. (JBH: Hún mun halda áfram að breytast.) Já, hún heldur áfram að breytast, en hún þarf ekki að gera það á þann veg að þéttbýlið sogi að sér allt og byggðin úti á landi haldi áfram að tæmast, vissulega ekki. Ég vona bara hans vegna að ég megi ekki skilja þessi orð á þennan veg. (JBH: Nei.) Ég tók þau hins vegar á þann veg, að hann teldi að ýmis atriði í okkar þjóðfélagsmynd og þjóðfélagsmynstri hefðu orðið til þess að breyta allri samfélagsgerðinni og þar af leiðandi hefði það verið eðlilegt að nokkur röskun hefði átt sér stað og m.a. þyrfti með nýrri tækni minni mannafla á bak við ýmiss konar framleiðslu í þjóðfélagi okkar. En ég vona svo sannarlega að þeir hv. þm. sem hér sitja mér á hægri hönd — hægri mennirnir tveir hérna — hafi ekki skilið þetta rétt hjá hv. þm. því það væri hreint voðalegt fyrir okkur ef það væri rétt. (EgJ: Við skiljum það nákvæmlega eins og það var talað.) Já, ég skal ekki deila um það við hv. þm. Ég læt aðeins í ljós mínar vonir um þetta.

Ég tek það fram að ég vil taka undir ýmis atriði í þessari till., sérstaklega um betri áætlanagerð, um markvissari aðgerðir í kjölfarið og síðan ákvarðanir um fjármagn og útdeilingu þess. Vissulega er það rétt, að það ætti að vera svo, að hefði Alþingi meiri úrslitaáhrif þar á færðist það í þá átt sem betri mætti teljast. Ég bendi hins vegar á það, að þó að við séum 60 á Alþingi vilja afgreiðslur okkar til ýmissa framkvæmda verða býsna handahófskenndar, ekki síður en hinni ágætu Framkvæmdastofnun. Það er hins vegar rétt, að Alþingi ber þá ábyrgð á því sem slíku og verður að standa skil á þeim fjármunum. En leiðirnar þarf að skoða betur.

Ég segi það t.d., að þó að breytt skipulag og starfsaðferðir Framkvæmdastofnunar sé hér til umræðu og það sé talað um að leggja hana niður sem slíka, sem vel er athugandi, vil ég ekki taka undir það á þessu stigi að Byggðasjóður verði lagður niður, alls ekki. Honum verður þá að finna annan farveg og betri, ef menn eru svo á móti þessari skipan, því að ég held að á Byggðasjóði með þau markmið sem t.d. er hér talað um, — Byggðasjóður sem tekur við byggðaáætlunum, tekur við beinum umsóknum um afmörkuð verkefni, varðandi sérstakan byggðavanda þar sem hallast stendur t.d. til aðstoðar og til beins hvata þegar þess er þörf, — sé raunveruleg þörf, ekki til þeirra aðgerða að meiri hluta sem hann sinnir í dag, heldur til þeirra aðgerða sem geta bjargað einstökum byggðum þegar verst stendur og geta haft verulegan hvata í för með sér þegar vaxtarmerki eru á ferðinni. Ég held að slíkt sé ótvíræð nauðsyn, og menn verða þá að koma með annað form í stað þessa því að ég óttast að ef hlutverk sjóðsins verður fært alfarið hér inn á Alþingi inn í almenn fjárlög gleymist þessi þáttur meira og minna.

Varðandi það að misnotkun fjármagnsins hverfi úr sögunni ef Alþingi tekur þetta að sér alfarið, þá held ég að það sé mikill misskilningur. Ég held að við höfum séð allt of mörg dæmi þess, hvort sem við höfum verið í stjórn eða stjórnarandstöðu, að hér eru teknar ákvarðanir út frá þeim meiri hluta sem ræður hverju og hverju sinni, sem atveg eins má flokka undir pólitíska misnotkun á fjármagni og það sem þarna inn frá er framkvæmt. Hins vegar tek ég undir það, að rétt sé að leita allra leiða til að afmarka byggðastefnuna betur, skýra hana betur og færa hana í betri og markvissari farveg til að koma byggðinni verulega að gagni. Ég held nefnilega að aldrei hafi verið meiri þörf andófs í byggðamálum en einmitt núna, aldrei verið meiri þörf aðgerða en einmitt nú og aldrei verið meiri hætta á óheillaröskun.

Við sjáum það núna í þeim fjárlögum sem liggja fyrir, að samdráttur og niðurskurður einkennir alla framkvæmdaþætti. Það er eðlilegt um sumt og skal viðurkennt að við verðum að draga saman seglin þegar svo er komið okkar þjóðarbúskap sem nú er, en það er alveg ljóst að á sama tíma og þetta er að gerast verða stórframkvæmdir á suðvesturhorninu í algleymingi, flugstöðvarframkvæmd, Helguvíkurframkvæmd, væntanleg tvöföldun álversins og virkjanaframkvæmdir tengdar henni. Allt verður þetta á fullum hraða, allt verður þetta sett í gang og allt er þetta á einu og sama svæði. Samdrátturinn og niðurskurðurinn eru nefnilega ekki inni í þessari mynd. Þarna er um milljarðana að ræða — en ekki þá tugi milljóna eða hundruð — sem fara í alla aðra framkvæmdaþætti og sem landsbyggðin byggir að miklu leyti á.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég áskil mér allan rétt til að skoða einstaka liði þessarar till., tel að margt horfi þar til bóta, sérstaklega í þeirri grg. sem þarna er, en sums staðar sé kannske farið nokkuð offari í fullyrðingum. Varðandi 4. liðinn áskil ég mér hins vegar rétt til að vera andvígur því að Byggðasjóður verði lagður niður án þess að nokkuð annað komi í staðinn, sem við getum séð að geti þjónað sama tilgangi eða eigi sömu skyldur við landsbyggðina og Byggðasjóður.