01.02.1984
Efri deild: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

Þingsköp

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Ég vil taka undir orð hv. 5. landsk. þm. um að það er mjög miður að svo skuli haga til með vinnubrögð í dag að ekki er hægt að taka fyrir neitt þeirra mála sem hér eru á dagskrá. En það má hv. 5. landsk. þm. vita að það er af ástæðum sem ekki varð við ráðið.

Ég las hér upp fjarvistir þm. áðan. Þar kemur fram að hv. 11. þm. Reykv., sem á 3. málið á dagskrá, er með fjarvistarleyfi og af óviðráðanlegum ástæðum gat hæstv. menntmrh. ekki mælt fyrir frv. um höfundalög í dag. Þá er eftir 1. mál á dagskrá, stjórnarskipunarlög. Þar á eftir að taka ákvörðun hjá þingflokkum um að kjósa í nefnd þá sem á að fjalla um það frv. og það var ekki tilbúið fyrir þennan fund.

Mér þykir þetta mjög miður. Ég gerði þær ráðstafanir sem ég gat til þess að hægt væri að taka málin fyrir hér í dag, en það fór sem fór.