02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil segja það varðandi hækkanir sem orðið hafa hjá núv. ríkisstj. að orkumálin munu vafalaust koma hér til umr. þegar núv. hæstv. iðnrh. er við og eðlilegt að ræða þau á þeim vettvangi. Ég er dálítið hissa á því að hv. 5. þm. Austurl. virðist enn ekki hafa gert sér grein fyrir aðalatriðum í mínum málflutningi, þeim tveim atriðum sem ég lagði höfuðáherslu á, og hefur viljað fara út um víðan völl með það mál.

Ég tel að það hafi ekki legið nægilega ljóst fyrir, til þess að hægt væri að taka ákvörðun um einhliða hækkun raforkunnar, hvað bar á milli. Og ég tel að það liggi ekki enn þá fyrir hvað bar á milli.

En hinu vona ég að hv. 5. þm. Austurl. og hæstv. fyrrv. iðnrh. geri sér grein fyrir, að því hætti fulltrúi Framsfl. á sínum tíma þátttöku í álviðræðunefndinni að iðnrh. vildi þar stjórna vinnubrögðum nefndarinnar en treysti sér ekki til að bíða eftir því hver niðurstaða yrði og meta þá málefni eins og efni hefðu staðið til.