06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Áður en ég kem að spurningum hv. þm. vil ég geta þess að fulltrúar Landssamtakanna um jafnrétti og stjórnarskrá afhentu mér nú fyrir nokkrum mínútum mótmæli við fjölgun þingmanna og svofellt bréf sem ég leyfi mér að lesa með leyfi forseta:

„Undirskriftasöfnun þessi er mótmæli við fyrirhugaðri fjölgun alþm. Við teljum að fjölgun þeirra sé óþörf og einungis kostnaðarauki fyrir þjóðarbúið. Miðstýring höfuðborgarsvæðisins er nú þegar svo sterk að þar má engu við bæta. Þar eru höfuðstöðvar löggjafar- og framkvæmdavalds, fjölmiðlunar, fjármagns og þjónustu hins opinbera. Ef sú gjá sem þegar er mynduð milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins breikkar enn frekar mun það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúið. Við slíku verður að sporna og stuðla að farsælli búsetu þjóðarinnar í landinu öttu á jafnréttisgrundvelli, enda er það ekki einkamál alþm. sjálfra að samþykkja slíka fjölgun, heldur þjóðarinnar.

Þessi undirskriftasöfnun er vísbending um vilja þjóðarinnar en telji alþm. þetta ekki nægjanlegt verður undirskriftum safnað um allt land.“

Hér mun vera vísað til þeirrar breytingar sem samþykkt var á stjórnarskrá Íslands fyrir kosningar, þ.e. fyrri umferð, um fjölgun um þrjá og liggur nú að nýju fyrir hinu háa Alþingi. Ég skal ekki gera þetta að umræðuefni frekar en taldi rétt að koma þessu á framfæri, enda hygg ég að fyrirspurnin sé tengd þessari afhendingu.

Út af spurningum hv. þm. vil ég minna á það að fyrrv. forsrh., Gunnar heitinn Thoroddsen, lagði fram á Alþingi frv. til l. um breytingu á stjórnarskránni. Varð það mál ekki útrætt eins og menn þekkja. Eftir andlát Gunnars var stjórnarskrárnefnd endurskipulögð að nokkru, skipaður maður í hans stað í nefndina og hún valdi sér formann, Matthías Bjarnason alþm. Mér er kunnugt um að stjórnarskrárnefnd tók stjórnarskrárfrv. það sem hér var lagt fyrir í fyrra þegar til meðferðar og mun fyrir jól hafa sent það öllum flokkum á Alþingi og óskað eftir athugasemdum og tillögum. Mér er jafnframt kunnugt um að engar slíkar tillögur eða athugasemdir hafa enn komið svo ég ráðlegg hv. þm. að snúa sér til formanns þingflokks framsóknarmanna og kanna hvort frv. eða tillögurnar eru ekki þar.

Hv. þm. spurði einnig að því hvort þessi ríkisstj. hygðist ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar og leggja fram heillegt frv. um þær breytingar. Ríkisstj. mun að sjálfsögðu fjalla um það strax og tillögur stjórnarskrárnefndar liggja fyrir. Og ég vona að það verði fljótlega. En ríkisstj. mun ekki leggja fram slíkt frv. fyrr en stjórnarskrárnefnd hefur lokið sinni meðferð. Nefndin var sérstaklega til þess kjörin af Alþingi og ég geri mér fastlega vonir um að þeirri meðferð sem þar stendur yfir á stjórnarskránni ljúki fljótlega og ríkisstj. fái slíkt frv. til meðferðar og það verði þá lagt fyrir Alþingi.

Ég vil svo aðeins að lokum taka undir það með hv. þm. að það er ákaflega mikilvægt að gætt sé jafnréttis og jafnræðis um landið og vitanlega kemur það fram í miklu fleiru en fjölda þingmanna og skiptingu þeirra. Það eru fjölmörg önnur atriði í stjórnarskránni sem þarf að taka til meðferðar í því sambandi og því að sjálfsögðu æskilegt að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði sem næst á sama tíma og breytingar eru gerðar á hlutfalli þm. milli dreifbýlis og þéttbýlis, enda hefur verið að því stefnt. Við skulum vona að það takist og þá þannig að menn geti verið sæmilega sáttir við niðurstöðuna.