06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar frá þessari umr. var horfið s.l. mánudag var það vegna þess að hæstv. iðnrh. hafði þurft að bregða sér frá og ekki var hægt að halda umr. áfram öðruvísi en hann væri viðstaddur vegna þess hvernig hann hafði hagað orðum sínum m.a. um starfsmenn átversins og fleira í þeim umr. sem fóru fram s.l. mánudag.

Umr. hófst eins og hv. þdm. muna vegna ákvörðunar um að ÍSAL yrði aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands. Af því tilefni beindi ég og hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson nokkrum fsp. til hæstv. forsrh. Í svari kom fram hjá hæstv. forsrh. að upphaf þessa máls, hugsanlegrar aðildar ÍSALs að Vinnuveitendasambandinu, var skeyti frá ÍSAL — eða eins og hæstv. forsrh. komst að orði: „Iðnrn. barst skeyti frá ÍSAL þar sem í fáum orðum sagt — skeytið er nú á ensku en ég fer efnislega með það hér — er farið fram á að ríkisstj. falli frá því ákvæði að ÍSAL verði ekki heimilt að gerast aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands þegar það kýs að gerast aðili.“

Það er sem sagt augljóst mál að ÍSAL, sem sendir iðnrn. skeyti á ensku, hefur frumkvæði að því að komast inn í Vinnuveitendasamband Ísands. Það eru ekki klókindi eða stjórnviska hæstv. iðnrh. eða hæstv. forsrh. sem þessu valda eins og ætla hefði mátt af ummælum þeirra hér á dögunum þegar þeir voru að hrósa sér af þessari gjörð, að þeir væru með þessum hætti að koma í veg fyrir að hinn vondi auðhringur hefði úrslitaáhrif á íslenskum vinnumarkaði. Í ljós kemur að það er í raun og veru auðhringurinn sem hefur frumkvæði að því að biðja um — að vísu á enskri tungu — að hann sé felldur inn í það kerfi sem Vinnuveitendasamband Íslands hafur komið upp hér á landi.

Um leið og ÍSAL verður aðili að íslensku atvinnurekendasamtökunum er auðvitað verið að tryggja þessu stóra fyrirtæki möguleika til þess að fá menn í stjórn bæði Félags ísi. iðnrekenda og Vinnuveitendasambands Íslands. Verið er að losa um þær sérstöku reglur sem gilt hafa um vinnustöðvanir í Straumsvík. Það hlýtur að gerast um leið, eða hvað? Ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Er það ekki þar með svo að starfsmenn álversins hljóti að hafa sama rétt og aðrir launamenn í landinu til samúðarvinnustöðvana eða þátttöku í vinnustöðvunum á sama hátt og aðrir launamenn í landinu skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur? Mér sýnist að ríkisstj. sé með þessu í rauninni að losa algjörlega um allar hömlur í þessu efni sem vissulega hafa verið á starfsmönnum álversins umfram starfsmenn annarra fyrirtækja í landinu vegna sérstakra ákvæða í lögum um álverið frá sinni tíð.

Hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. láta málið líta þannig út að þeir séu fyrst og fremst að reyna að koma í veg fyrir að þessi erlendi auðhringur ráði kaupinu á Íslandi. Skrifuð er mikil lofgjörð um hæstv. forsrh. í Tímann núna um helgina sem er svona svipuð og menn sjá stundum í póstinum hjá sér um Kim II Sung, ágætan mann ekki allfjarri hér á hnettinum. En í þessari lofgjörð um hæstv. forsrh. Íslands er talað um að það sé mikil stjórnviska hjá honum að losa um þessa hluti þannig að hægt verði að koma í veg fyrir að hringurinn geti ráðið kauplagi í landinu. En í rauninni hefur það verið opinbert leyndarmál á liðnum árum að þeir menn sem vildu erlent fjármagn inn í landið í stórum stíl vildu gjarnan að þessi hringur borgaði hærra kaup en gekk og gerðist á hinum atmenna vinnumarkaði í landinu til þess að gera slíka atvinnustarfsemi útgengilegri í augum launafólks en ella hefði verið. Þannig að hér var að einhverju leyti um að ræða vísvitandi stefnu sem fylgt var á sinni tíð og til þessa.

Hins vegar eru umræður um hátekjumennina í Straumsvík fyrir neðan allar hellur vegna þess að mikið af þessu fólki sem þar er vinnur við almennan launataxta vaktavinnu meira og minna allan sólarhringinn við afskaplega erfið skilyrði. Mér er kunnugt um að þarna er um að ræða fjölda fólks sem hefur jafnvel unnið hjá fyrirtækinu frá upphafi og hefur 15, 16 og 17 þús. kr. á mánuði. Það er fólk sem kannski hefur unnið hjá þessu fyrirtæki í 15 ár. Það þætti einhverjum lítið ef launaflokkurinn væri með þeim hætti ákvarðaður hjá þeim sjálfum.

Eitt af því sem kom fram hjá hæstv. forsrh. var að ákvörðunin um að setja ríkisverksmiðjurnar inn í Vinnuveitendasambandið hafi verið sérstaklega rétt og skynsamleg. En þetta er sami flokkurinn og tók ákvörðun um það 1971 að taka ríkisverksmiðjurnar út úr Vinnuveitendasambandi Íslands. Þá héldu forustumenn Framsfl. langar ræður um hvað það væri skynsamlegt og nauðsynlegt og hvað þeir væru þar mikið að læra af reynslunni. En 12–13 árum seinna eru þeir komnir á allt aðra skoðun.

Þetta sýnir betur en margt annað hvers lags amaba Framsfl. er í íslenskum stjórnmálum. Hann hefur enga ákveðna lögun og hann tekur lit af umhverfi sínu. Þegar Alþb. er sterkt eins og var í kosningunum 1971 og Framsfl. er að semja við Alþb. er Framsfl. tilkippilegur til að semja um þau mál sem Alþb. leggur áherslu á. Þegar íhaldið er aftur á móti nokkuð öflugt eins og var eftir síðustu kosningar fer Framsfl. alveg á hinn kantinn. Hæstv. núv. forsrh., formann Framsfl., munar ekkert um að steypa sér flikkflakk aftur fyrir sig í skoðunum í þessu efni eins og hefur komið fram í þessu máli og mörgum öðrum aftur og aftur.

Þetta vekur fyrst og fremst athygli á því hvers lags eintak af stjórnmálaflokki Framsfl. er. Hann er í rauninni meðaltal af umhverfi sínu deilt með tveimur, þremur eða fjórum eftir atvikum en hann ræður aldrei úrslitunum vegna þess að hann er niðurstaða dæmis þegar deilt hefur verið upp um styrkleika hinna þjóðfélagslegu afla í landinu. Þannig er þessi Framsfl. og hefur tekist með þeim hætti að halda sér í ríkisstj. lengur en nokkrum öðrum flokki á undanförnum árum vegna þess að flokkar eins og Alþb. og Sjálfstfl. hafa hjálpað honum, hlaupið undir bagga með honum af og til og haldið honum í ráðherrastólunum. Það skyldi þó ekki vera að einn meginhlutinn af þjóðfélagsvandamálunum á Íslandi stafaði af því að þessi sérkennilegi flokkur hafi verið hafður í ríkisstj. eins lengi og raun ber vitni um. Hæstv. iðnrh. mætti hugleiða það eitt augnablik.

Hæstv. iðnrh. fjallaði um það með nokkuð fróðlegum hætti hér hvernig hann umgengst grundvallaratriði og skilyrði. Eftir að ég hafði verið að ræða um að Alþfl. setti það skilyrði að ÍSAL gengi ekki í Vinnuveitendasambandið svaraði hæstv. iðnrh. því þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Á sínum tíma setti Alþfl. þetta skilyrði fyrir samþykkt sinni um samningana við Alusuisse og á þetta var fallist þótt það bryti í bága við lög.“ Þetta eru orðrétt ummæli hæstv. iðnrh: „...og á þetta var fallist þótt það bryti í bága við lög.“

Með þessum orðum er hæstv. iðnrh. að segja að yfirlýsing ríkisstj. 1966, viðreisnarstjórnarinnar, sem var forsenda stuðnings Alþfl. við álsamningana á sínum tíma, hafi verið beint lögbrot. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að það séu nokkuð stór orð hjá hæstv. iðnrh. að dæma forvera sína með þessum hætti lögbrjóta, en það gerir hann með alveg ótvíræðum hætti í þessu orðalagi. Hann segir að vísu síðan: „Það var ekki að vilja Sjálfstfl. og hefur aldrei verið en samkomulag varð að nást.“

M.ö.o. er Sjálfstfl. tilbúinn til að brjóta lög til þess að ná samkomulagi. Það er eina ályktunin sem hægt er að draga af því purkunarlausa valdatafli sem hæstv. iðnrh. þarna setur á svið og greinir frá. Þeir eru ekki vandir að virðingu sinni á þessum bæ þegar kemur að því að gefa samstarfsflokknum fyrirheit. Jafnvel lögbrot eru notuð í því skyni eins og hæstv. iðnrh. hefur rækilega lýst og þeir hika ekki við að hafa þann hnífinn upp í erminni að þeir muni ganga á bak þeirra yfirlýsinga strax og þeir fá tækifæri til.

Hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni hér eins og hv. 7. þm. Reykv. benti á: „Fyrst á að borga mér hærra rafmagnsverð, svo á að hækka kaupið.“ Ég held að fróðlegt sé í þessu sambandi að líta til þess að kauplækkunin sem orðið hefur á undanförnu einu ári hjá þessu stóra fyrirtæki suður í Straumsvík er í kringum 130 millj. kr. En rafmagnsverðshækkunin, hið ótrúlega afrek hæstv. iðnrh. Sverris Hermannssonar, hvað ætli hún geri? Hún gerir um 115 millj. þannig að skv. þeim upplýsingum sem ég hef hafa starfsmennirnir í álverinu þegar greitt allan kostnað af hinu ótrúlega afreki með kauplækkun sinni. Það er ekki að furða þó að iðnrh. geysist hér fram með stóryrðum og hæli sér af þessum mikla árangri og ráðist að hálaunamönnunum í Straumsvík í sömu ræðu.

Hæstv. iðnrh. er nefnilega býsna önnum kafinn við það þessa dagana að sýna fram á hvað vinnuaflið og rafmagnið er ódýrt á Íslandi. Hann hefur sent út bækling sem heitir „Fjárfestingartækifæri í kísilmálmiðnaði á Íslandi“. Þar kemur fram að þeir sem vilja fjárfesta í þessum greinum geta búist við því að rekast hér á mikla gullöld og gleðitíð fyrirtækjanna. Í fyrsta lagi er rafmagnið hér á landi á afar hagstæðu verði. Og ekki nóg með það heldur eru launin alveg sérlega hagstæð fyrir hin erlendu stórfyrirtæki skv. þessum auglýsingabæklingi sem iðnrh. hefur sent út um allan heim til að auglýsa hvað íslenskir verkamenn eru billegir og vinnuafl þeirra og rafmagn á Íslandi sáraódýrt.

Í þessum sérkennilega bæklingi á enskri tungu sem hann dreifði hér á Alþingi með eftirgangsmunum fyrir nokkru kemur líka fram að stjórnmálastaða á Íslandi er afskaplega heppileg og þægileg fyrir svona auðhringa að glíma við. Þess vegna er ekki að furða þó að þessi hæstv. iðnrh. hafi áhuga á því að halda niðri kaupinu í Straumsvík. Ef kaupið í Straumsvík hækkar mjög verulega hrynur auðvitað grunnurinn undir þessum auglýsingabæklingi um billega vinnuaflið á Íslandi sem hann sendi út um heim undanfarnar vikur.

Þessi bæklingur er alveg einstakur vegna þess að það hefur aldrei áður gerst að stjórnvöld, þ.e. iðnrn. — það er ekki fyrirtæki hér á landi eins og t.d. Landsvirkjun sem er að auglýsa þetta — tilkynni að verð á vinnuafli á Íslandi sé orðið svo billegt að auðvelt eigi að vera fyrir erlend stórfyrirtæki að fjárfesta hér eins og hæstv. forseti og formaður stóriðjunefndar hefur kannski áttað sig á. Það er mikið hrós fyrir hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson þegar hann er búinn að sitja sjö mánuði í ríkisstj. með íhaldinu að þá skuli vera sendur vítt um heim auglýsinga- og áróðurspési um að kaupið á Íslandi sé svo lágt að hin erlendu stórfyrirtæki mættu aldeilis þakka fyrir ef þau fengju það ódýra vinnuafl sem íslenskir verkamenn láta í té í Straumsvík.

Hér er um að ræða yfirgengilega sölumennsku á íslensku vinnuafli af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég hygg að svona vinnubrögð séu dæmalaus af ríkisstj. í þessu landi og hvort sem svo er eða ekki er hitt ljóst að hér er um að ræða gjörð sem er fordæmanleg.

Í plöggum frá bandaríska hermálaráðuneytinu Pentagon sem var lesið upp úr hér í þinginu 14. nóvember s.l. í utandagskrárumræðum um hugsanlega staðsetningu eldflauga hér á landi var tekið þannig til orða að Ístand væri kostajörð. Hæstv. iðnrh. hefur tekið að sér að auglýsa þessa kostajörð og tilkynna að hérna taki menn ekki mikið fyrir viðvik sín og að rafmagnið sé hér á lágu verði.

Í ræðu hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. reyndar líka kom fram aftur og aftur að þeir væru sérstakir talsmenn þess að þetta fyrirtæki væri undir íslenskum yfirráðum í kaupgjaldsmálum en að ég og Alþb. vildum svissneskt forræði. Hvers lags rugl er þetta eiginlega? Ég er reiðubúinn til þess hér og nú að standa að löggjöf ásamt hæstv. iðnrh. um að þetta fyrirtæki skuli í einu og öllu lúta íslensku forræði, þar með töldum íslenskum dómstólum svo ég nefni dæmi, þannig að það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. eða hæstv. iðnrh. að ætla að velta sér upp úr svona útúrsnúningum og bjarga sér á hundasundi rökþrota með þvælu af þessu tagi. Það gengur alls ekki upp.

Í ræðu sinni fór hæstv. iðnrh. mörgum orðum um að kaupið mætti alls ekki hækka í Straumsvík, það mundi brjóta ísinn og hann vildi ekki brjóta ísinn. Tveimur dögum seinna birtist í Morgunblaðinu viðtal við hæstv. iðnrh. þar sem hann braut ísinn í kaupgjaldsmálunum og lýsti því yfir: „Ég geri mér ljóst að forsendur í fjárlögum — og nú er ég að segja mjög viðkvæman hlut — nægja ekki til að ná sáttum á vinnumarkaðnum.“

Forsendurnar í fjárlögum eru þær að kaupið megi hækka um 4%. Hæstv. iðnrh., eftir löngu og háværu hálaunaræðuna hér í Nd., er fyrstur ráðherra til kveða upp úr með það að þessar forsendur dugi alls ekki til að ná friði á vinnumarkaðnum. „Við leysum ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu landi nema með samkomulagi og samningum,“ segir hæstv. iðnrh. og undirstrikar að sá rammi dugi ekki til sem hæstv. fjmrh. hefur miðað við í sínum yfirlýsingum, að kaupið megi ekki fara fram yfir 4%. Hæstv. fjmrh. gengur í raun og veru svo langt að í rauninni megi opinberir starfsmenn bara skipta með sér þessum fjórum prósentum, honum komi það í sjálfu sér ekki við hvernig þeir fara að því. Hæstv. fjmrh. virðist líta á fjárlögin sem launabindingarlög þannig að samningsfrelsi opinberra starfsmanna og annarra launamanna í þessu landi sé bundið við þessi 4% og megi ekki fara fram yfir það.

En var hæstv. iðnrh. sá eini sem braut rammann hans Alberts Guðmundssonar, hæstv. fjmrh.? Nei. Sömu daga og hæstv. iðnrh. gaf þessa yfirlýsingu kom önnur yfirlýsing frá hæstv. forsrh. Og hvað sagði hann? Sammála Sverri. Kom á óvart að Albert ætlaði að segja sig úr stjórninni yrði farið yfir 4% markið. Sammála Sverri. Þannig að tveir hæstv. ráðh., forsrh. og iðnrh., hafa lýst því yfir: Launastefna fjmrh. er tóm vitleysa. Það næst aldrei friður og aldrei neinir samningar um þá launastefnu sem hæstv. fjmrh. er með.

Hæstv. fjmrh. var spurður af blöðunum: Hvað ef farið verður út fyrir þennan ramma? Þá sagði hæstv. fjmrh.: Þá er ég farinn — og lýsti því yfir að þá færi hann úr ríkisstjórn ef brotinn yrði upp sá launarammi sem hann er með áherslur á.

Eins og Morgunblaðið minnti á núna um helgina eru þessar yfirlýsingar Sverris Hermannssonar og Steingríms Hermannssonar hæstv. ráðh. nákvæmlega sams konar og yfirlýsingar Ólafs Jóhannessonar í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar vorið 1977. Þá gaf Ólafur Jóhannesson yfirlýsingu um að kaupið ætti að vera minnst 100 þús. kr. Þessar yfirlýsingar hans höfðu auðvitað veruleg áhrif á launasamningana, sólstöðusamningana; sem síðar voru gerðir og í rauninni á þau efnahagslegu átök sem síðan hafa orðið í landinu.

Það er m.ö.o. ljóst að komin er hreyfing á hlutina hjá hæstv. ríkisstj. Hún er að gefa sig. Hún er að átta sig á því að hún kemst ekki lengur upp með þessa kaupránsstefnu í framkvæmd. Hún er að láta sig en hún er hrædd og ráðh. gefa taugaveiklunaryfirlýsingar hver á fætur öðrum á hverjum einasta degi.

Vandamálin eru auðvitað mörg. Eitt er álverið. Þar er verið að reka prófmál gegn ákveðnum hópi launamanna af ríkisstj. Annað er fiskverðið. Þar eru menn að velta því fyrir sér hvað þeir geti tekið mikið fram hjá skiptum, tryggt útgerðinni mikinn hlut fiskverðshækkunarinnar án þess að það komi í hlut sjómanna. Það þriðja eru samningar BSRB þar sem hæstv. fjmrh.

hefur þegar gert ákveðið tilboð en forsrh. og iðnrh. segja að það tilboð sé ekki nóg, það þurfi að hækka og ekki þurfi að gera ráð fyrir því að þessi rammi haldi, rammi hæstv. fjmrh. dugi ekki til. Það fjórða er kjaradómur Bandalags háskólamanna sem menn eru að horfa á þessa dagana líka að komi núna í febrúarbyrjun. Og það fimmta eru svo samningar ASÍ.

Allt er þetta á hreyfingu núna einmitt þessa dagana og ástæðan fyrir taugaveiklunaryfirlýsingum hæstv. ráðh. er vitaskuld sú að þeir sjá ekki fram úr þessu vegna þess að þeir skynja að launafólk í landinu er óðum að átta sig á að það þarf að hrista af sér þá kaupránsstefnu sem þessir hæstv. ráðh. hafa beitt sér fyrir. Þeir óttast að allt sé að fara í einn hnút og um leið og það gerist fara ráðh. að fiska hver í sinni vökinni.

Hæstv. forsrh. gefur yfirlýsingar um að endilega verði að hugsa um láglaunafólkið og farið er að framleiða einhverja pappíra í forsrn. sem mér er sagt að hafi verið dreift sem trúnaðarmáli í 400 eintökum víðs vegar í landinu. Það er pappír í forsrn. um það hvernig á að koma til móts við fólkið, láglaunafólkið í landinu, hvaða aðferðir eigi að hafa til þess. Vill ekki hæstv. forsrh. láta stjórnarandstöðuna og fjölmiðlana fá þennan pappír? Það væri fróðlegt að sjá hann. Hæstv. forsrh. er farinn að fiska eftir atkvæðum fyrir Framsfl., hann finnur að ísinn er að bresta. Hæstv. iðnrh. er að brjóta ísinn og hæstv. forsrh. finnur að vökin nálgast hann óðum.

Ofan á þetta bætist svo það undarlega ástand í núv. ríkisstj. að þar eru ekki bara tvö stjórnaröfl, þau eru a.m.k. þrjú, þ.e. meiri hl. ráðh. Sjálfstfl., Framsfl. og síðan núv. hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson. Báðum hinum öflunum er sama hvernig fer með ríkiskassann hjá hæstv. fjmrh. og láta sig það einu gilda og gráta þurrum tárum þó að hann hlaupi út úr ríkisstj. og vilja reyndar helst af öllu losna við hann hið allra fyrsta.

Það var athyglisvert sem gerðist í umr. í þinginu á mánudaginn var að formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., lýsti því yfir í sinni ræðu að það þyrfti að fara að huga að kosningum ef launamenn hefðu fram eitthvað af sínum kröfum. Ég er sannfærður um að hv. 1. þm. Suðurl. og hv. 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson og þeir forustumenn Sjálfstfl. báðir sem eru utan ríkisstj. yrðu þeirri stundu fegnastir þegar núv. ríkisstj. legði upp laupana og hætti störfum vegna þess að þeir sjá að ríkisstj. er þegar farin að renna hratt niður hjarnið. Yfirlýsingar ráðh. benda til þess. Þessir tveir hv. þm., forustumenn Sjálfstfl., mundu gráta það þurrum tárum þó að ríkisstj. færi frá. Ég gæti trúað að þeir yrðu manna fegnastir að losna við að vera í vinnumennsku hjá Steingrími Hermannssyni formanni Framsfl. enda geri ég ekki ráð fyrir því að þeir telji sig borna til þess að vera um aldur og ævi í kaupamennsku hjá formanni Framsfl. (FrS: Það er rétt til getið.) Það er rétt til getið, sagði hv. þm. Friðrik Sophusson.

Nú er staðan þannig að ríkisstj. hefur setið í 8 mánuði. Hún hefur talað um festu og öryggi og að hún sé að leysa hin miklu efnahagslegu vandamál í þjóðfélaginu. Staðan er hins vegar þannig núna eftir aðeins 8 mánuði að kominn er brestur í stjórnarsamstarfið. Það er allt á fleygiferð hjá hæstv. forsrh., hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. Það er kominn brestur í stjórnarsamstarfið og þá er ekki lengur hægt að tala hér um festu. Ljóst er að ríkisstj. er á undanhaldi. Það er niðurstaðan af umr. á hv. Alþingi og í fjölmiðlum síðustu vikuna.