07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

146. mál, umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa orðið talsverðar umræður um selveiði. Ástæðurnar eru ýmsar. Fyrst urðu umræður um selveiði vegna mótmæla sem voru upprunnar erlendis við seladráp. Á seinni árum hafa orðið verulegar umræður um þessi mál innanlands vegna vaxandi vandamála í sjávarútvegi sem eru tengd hringormum í fiski. Kostnaður sjávarútvegsins af hringormatínslu er gífurlegur. Þar til s.l. vetur var hann einungis tengdur framleiðslu frystra og ferskra afurða en nú er svo komið að kaupendur saltfisks hafa einnig gert kröfu til hringormalausra afurða.

Fyrir rúmlega fjórum árum skipaði þáverandi sjútvrh. nefnd sem hlaut nafnið hringormanefnd. Nefndinni var m.a. ætlað að hafa yfirumsjón með rannsóknum sem þá þegar voru hafnar á vegum Hafrannsóknastofnunar á selastofninum við Ísland. Í nefndinni eiga sæti framkvæmdastjórar fimm stórra útflutnings- og fiskverkunarfyrirtækja auk formanns nefndarinnar, Björns Dagbjartssonar forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.

Vorið 1982 fór hringormanefnd inn á þá braut að hvetja til selveiða með greiðslu veiðilauna. Þessi aðgerð hringormanefndar sætti mikilli gagnrýni almennings, samtaka náttúruverndarmanna og Náttúruverndarráðs. Náttúruverndarráð ályktaði fyrst um málið sumarið 1982 og hefur nú nýlega sent aftur frá sér greinargerð sem birtist opinberlega í Morgunblaðinu 21. jan. s.l. Með leyfi forseta vil ég vitna í ákveðna kafla hennar. Þar sem rætt er í skýrslunni um ályktun Náttúruverndarráðs frá sumrinu 1982 segir m.a.:

„Átaldi ráðið þau vinnubrögð hringormanefndar að hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd, án þess að leitað væri álits aðila og stofnana sem málið snertir, svo sem Hafrannsóknastofnunar og Náttúruverndarráðs. Ráðið beindi þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar, að hún beitti sér fyrir setningu laga, er tryggðu að mál sem þetta fengi eðlilega umfjöllun stjórnvalda.“

Þarna er í júlí 1982 óskað lagasetningar um selveiði. Í áliti Náttúruverndarráðs sem birtist á dögunum er að finna ýmsar hugleiðingar um þessi mál og raunar er þar dregið í efa ýmislegt varðandi vinnubrögð og ályktanir hringormanefndar. Geta menn lesið það þar sjálfir. Þar kemur fram það álit Náttúruverndarráðs að ákvörðun um átak til fækkunar sela hafi í raun og veru verið tekin áður en rannsóknir hófust að neinu marki.

Önnur atriði sem gagnrýnd hafa verið eru í fyrsta lagi samsetning nefndarinnar, þ.e. að þar er enginn fulltrúi frá Hafrannsóknastofnun eða Náttúrufræðistofnun þrátt fyrir yfirlýst rannsóknarhlutverk nefndarinnar.

Í öðru lagi hefur verið gagnrýnd tregða á dreifingu þeirra skýrslna sem nefndin gefur út þar sem ýmsum opinberum rannsóknastofnunum hefur verið neitað um eintök. Fleiri hafa gert athugasemdir. sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu sendi nýlega frá sér fréttatilkynningu um málið þar sem komist var svo að orði m.a., með leyfi forseta:

„Aukafundur sýslunefndar Vestur-Húnavatnssýslu lýsir undrun sinni á þeirri aðferð sem viðhöfð er við að halda niðri selstofni við landið þar sem skotmenn eru verðlaunaðir fyrir seladráp. Það hefur m.a. leitt til þess að bændur hafa orðið fyrir mikilli ágengni skotmanna, jafnvel á friðlýstum varplöndum og sellátrum. Sýslunefndin bendir á að mun eðlilegra væri að styrkja þá sem áður stunduðu selveiðar og höfðu af því tekjur þannig að þeir gætu áfram nýtt sér kópaveiði í ábataskyni.“

Augljóst er að þetta mál hefur víða komið við sögu. Um það urðu fróðlegar umr. í des. s.l. í dagblöðum vegna óska skattstjóra um upplýsingar um upphæðir veiðilauna. Þeim óskum svaraði formaður hringormanefndar eitthvað á þá leið að þessi veiðilaun væru ekki skattskyld enda væru menn að sinna þjóðþrifastörfum.

Mitt í öllu þessu stendur sú staðreynd að fiskiðnaður landsmanna ber gífurlegan bagga vegna hringormahreinsunar. Þessi kostnaður er í milljónum og milljónatugum talinn, jafnvel hjá einstökum fyrirtækjum. Nýlegar fréttir frá Snæfellsnesi sýndu að vegna hreinsunar á saltfiskbirgðum hjá einu einstöku fyrirtæki nam kostnaðurinn, ef ég man rétt, um 4.5 millj. kr. Nýlega kom fram í fréttum að kostnaðarauki saltfiskvinnslunnar á s.l. ári hefur verið áætlaður um 100 millj. kr. Hér þarf að sætta mjög mörg sjónarmið. Sætta þarf sjónarmið fiskverkenda, útgerðarmanna, landeigenda, náttúruverndarmanna og almennings. En umfram allt þurfa aðgerðir að hvíla á traustum grunni þekkingar.

Ég vil að lokum vitna í greinargerð Náttúruverndarráðs sem birt var hinn 21. jan. s.l. og ég hef áður minnst á, með leyfi forseta:

„Náttúruverndarráð vill ítreka þá skoðun sína, að brýna nauðsyn ber til að sett verði hið fyrsta lög um selveiðar við Ísland, er tryggi fullnægjandi stjórnun þessara veiða. Ráðið telur rétt í því sambandi, að sjútvrn. hafi yfirumsjón mála er selveiðar varða.“ Síðan segir:

„Náttúruverndarráð vill að lokum taka það fram, að það er að sjálfsögðu ekki andvígt skynsamlegri nýtingu sela hér við land. Hins vegar vill ráðið enn vara við ótímabærum og hæpnum aðgerðum til fækkunar sela. Eins og fram hefur komið hér að framan er þörf miklu meiri rannsókna á fjölmörgum atriðum, er snerta hringormavandamálið. Þegar haft er í huga hversu gífurlegir hagsmunir eru hér í húfi verður það og að teljast nauðsynlegt að veita miklu fjármagni til hnitmiðaðra rannsókna.“

Eins og komið hefur fram í þessu máli mínu hefur tvívegis a.m.k. verið ítrekuð þörf á setningu laga um selveiðar við Ísland. Því hef ég borið fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um það mál.