07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2614 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

146. mál, umhverfismál

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. vil ég taka fram að í ágústmánuði 1982 skipaði Steingrímur Hermannsson þáv. sjútvrh. nefnd til þess að semja frv. að lögum um selveiðar við Ísland. Í nefnd þessari voru fulltrúar frá Náttúruverndarráði, Búnaðarfélagi Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og rn. Nefndin skilaði frumvarpsdrögum í ársbyrjun 1983 að lögum um selveiðar við Ísland ásamt grg. og aths.

Frv. þetta hefur verið til athugunar m.a. í rn. Því er ekki að leyna að uppi er ágreiningur um ýmis ákvæði þessa máls milli náttúruverndarmanna, landeigenda og fiskvinnsluaðila varðandi hvernig að selveiðum skuli staðið. Að því er stefnt að endurskoðun frv. ljúki sem fyrst þannig að hægt verði að leggja það fram á yfirstandandi þingi. Ég vil hins vegar taka fram að ég tel mikilvægt að sem best samkomulag sé um mál þetta því að hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir fiskvinnsluna og fiskiðnaðinn og einnig eru mikilvæg sjónarmið uppi bæði hjá landeigendum og Náttúruverndarráði.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að yfirumsjón selveiðanna sé í höndum sjútvrn. sem með aðstoð nefndar skipaðrar fulltrúum m.a. frá Náttúruverndarráði, Hafrannsóknastofnun, Búnaðarfélagi Íslands og Fiskifélagi Íslands setji reglur um stjórn og skipulagningu veiðanna. Enn fremur er í frv. ákvæði um rannsóknir á selum og rétt landeigenda til selveiða. Hér yrði um heildarlöggjöf um selveiðar að ræða en nú eru aðeins í gildi sundurtaus lagaákvæði sem sum hafa aðeins takmarkað gildi.