07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2617 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

146. mál, umhverfismál

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þá hafa fulltrúar hringormsins úr Framsfl. lokið máli sínu að sinni og er ekkert nema gott um það að segja að þeir vilji vernda einhverjar lifandi skepnur. En mig undrar það svolítið að Náttúruverndarráð birtir skýrslur sínar eingöngu í Morgunblaðinu. Ég hélt að ef Náttúruverndarráð hefði áhuga á því að kynna þessi svokölluðu vísindi sín sem ég tel nú ekki mjög mikilvæg eða merkileg, ef þeir hafa áhuga á að kynna þm. þennan málstað ástarinnar á selnum eigi þeir að senda hverjum þingmanni það plagg en ekki ætlast til að hinn atmenni þm. pæli svo nákvæmlega í gegnum Morgunblaðið.

Leidd hafa verið mjög sterk rök að því að samband sé milli fjölgunar útsetsins og aukningar hringorma í fiski. Ég tel að útselurinn eigi að teljast sekur og meðhöndlast skv. því þangað til náttúrufræðingar hafa sannað hið gagnstæða. Svo mikið er í húfi. Ég skal viðurkenna að það gæti hugsanlega haft neikvæð áhrif á okkar stöðu ef við færum að auglýsa mikið hversu mikinn áhuga við hefðum á að drepa útselinn vegna þess að kvikmyndaleikkonur úti í heimi eru vísar til þess að hafa áhrif á heimsmarkaði. Ég undrast það ekkert þó að einhverjir vilji vernda selinn, þetta er fallegt dýr og hefur mannsaugu eins og kunnugt er. Ég held að virðingarvert sé að menn elski selinn, þyki vænt um hann og vilji passa hann en ég hélt að það væri nóg að vera ástfanginn af eins og fimm þúsund selum en ekki fimmtíu þúsund selum.