08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2714 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér síðast á dagskrá vísaði ég til þess að skv. lögum er skylt að leggja fram með slíkum frv. mat á kostnaði og þjóðhagslegri arðsemi sem sú framkvæmd sem gerð er tillaga um gæti haft í för með sér. Hæstv. fjmrh., sem gerði grein fyrir þessu máli hér, bar brigður á þetta og hélt alllanga og sérkennilega ræðu og kom víða við, m.a. í dýraríkinu, eins og hans er von og vísa.

Þau lög sem ég vitnaði til voru lög um efnahagsmál o.fl. nr. 13 frá 1979, svokölluð Ólafslög, en þar segir í 13. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárlaga- og hagsýslustofnun skal annast hagsýslustarfsemi fyrir ríkisbúskapinn í því skyni að auka á hagkvæmni og ráðdeild í ríkisbúskapnum og í meðferð opinberra fjármuna.

Meðal þess háttar verkefna fjárlaga- og hagsýslustofnunar skulu vera, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð:

1. Mat á fyrirhuguðum ríkisframkvæmdum með tilliti til arðsemi, kostnaðar, nytja og þjóðfélagslegs gildis.

2. Kostnaðarmat á tillögum frv. sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Skal slíkt mat liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þingnefndar á tilskildum tíma.

3. Athuganir á hagkvæmni í rekstri ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja í því skyni að bæta rekstur og draga úr útgjöldum.

4. Athuganir á hagræðingu í starfsemi ríkisstofnana og fyrirtækja og í samskiptum einstaklinga og fyrirtækja við ríkið.

Þessi verkefni sín skal fjárlaga- og hagsýslustofnun leysa í samráði við hlutaðeigandi rn. og fjvn.

Það er þess vegna alveg ljóst, herra forseti, að með frv. um byggingu flugstöðvar í Keflavík á að liggja fyrir kostnaðarmat, þjóðhagsleg greining o.fl., og þetta mat á m.a. að berast viðkomandi þingnefndum í tæka tíð. Ég fullyrði því að vinnubrögð þau sem viðhöfð hafa verið í þessu máli séu ekki í samræmi við lögin um stjórn efnahagsmála o.fl. frá 1979.

Ég vil leyfa mér í fjarveru hæstv. fjmrh. að leggja fyrirspurnir um þetta efni fyrir hæstv. utanrrh.: Er hann reiðubúinn að tryggja að fyrir hv. fjh.- og viðskn. Nd. verði lagðir útreikningar og áætlanir sundurliðaðar í samræmi við lögin um stjórn efnahagsmála o.fl. nr. 13 frá 1979? Það er atveg óhjákvæmilegt, ef þingið vill starfa að þessum málum eins og eðlilegt er, að þessar upplýsingar liggi fyrir. Og ég held að það sé ekki nokkur vafi á að lögin eigi hér við, þó að hér sé verið að tala um lánsfjárheimild fyrst og fremst, því að með frv. er auðvitað gerð tillaga um að Alþingi ákveði þær framkvæmdir sem hér um ræðir.

Ég held að það megi vafalaust finna þess dæmi á liðnum árum að menn hafi ekki sem skyldi sinnt þessum lagabókstaf. Hins vegar er hér um að ræða stóra framkvæmd sem talið er að kosti mörg hundruð milljónir króna. Það er verið að tala um 600 millj. kr. lánsfé fyrir íslenska ríkið og auk þess komi til fjármunir frá Bandaríkjastjórn. Hér er um að ræða svo stóra framkvæmd að það er auðvitað alveg óverjandi að stjórnarliðið láti þetta frv, fara hér í gegn án þess að kannað verði rækilega hvaða kostnað hún hefur í för með sér og hvernig ætlunin er að reka þessa flugstöð. Ég mun t.d. fara þess á leit við hv. formann fjh.- og viðskn. Nd., hv. þm. Pál Pétursson, 2. þm. Norðurl. v., að hann tíni þessi gögn samviskusamlega saman úr fjmrn. og utanrrn. þannig að málið verði afgreitt með þeim hætti úr fjh.- og viðskn. Nd. að það sé fullboðlegt og í samræmi við þau lög sem kennd eru við fyrrv. leiðtoga formanns fjh.- og viðskn., hv. þm. Ólaf Jóhannesson. — En fsp. mín er til hæstv. utanrrh.: Mun hann tryggja að fyrir fjh.- og viðskn. verði lagðir útreikningar í samræmi við ákvæði Ólafslaga sem ég hef hér vitnað til?