14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Fyrsta spurningin hljóðar svo: „Er skýrsla sú sem Bragi Jósepsson, Hannes Pálsson og Stefán Jónsson sendu utanrrh. 22. des. 1971 merkt sem trúnaðarmál?“ Svarið er: Skýrslan er merkt sem trúnaðarmál.

Önnur spurning hljóðar svo: „Hefur verið kannað hver afhenti Morgunblaðinu skýrsluna?“ Svarið er: Morgunblaðið hefur ekki viljað gefa upp hvernig blaðið komst yfir skýrsluna.

Þriðja spurning: „Hver ber ábyrgð á vörslu og afhendingu trúnaðarskjala og annarra leyndargagna utanrrn.?“ Svarið er: Meðferð trúnaðarskjala fer eftir því hvers eðlis þau eru. Þau eru flokkuð eftir mikilvægi. Trúnaðarskjöl eru fengin í hendur starfsmönnum rn. og sendiráðanna og öðrum aðilum eftir þörfum þeirra fyrir að fá viðkomandi upplýsingar. Ráðh. og aðrir yfirmenn rn. ákveða um dreifingu slíkra skjala. Um meðferð trúnaðarskjala Atlantshafsbandalagsins eru ákveðnar strangar reglur sem byggðar eru á reglum bandalagsins þar að lútandi. Aðgang að viðkvæmustu NATO-skjölum hafa aðeins þeir sem fengið hafa til þess sérstaka heimild utanrrh. Einungis þeir sem fengið hafa sérstaka heimild ráðuneytisstjóra utanrrn. geta fengið aðgang að öðrum NATO-skjölum. Ýmis viðkvæmustu skjöl NATO, t.d. varðandi hernaðarmál, eru samkvæmt ósk rn. ekki send því.

Fjórða spurning: „Sér ráðherra ástæðu til aðgerða vegna birtingar þessarar skýrslu?“ Svarið er: Vegna birtingar úr hluta skýrslu þeirra Braga Jósepssonar, Hannesar Pálssonar og Stefáns Jónssonar sé ég ekki ástæðu til sérstakra aðgerða innan utanrrn. enda tel ég öruggt að hún hafi ekki lekið út frá rn., en vitað er að skýrslan var fjölrituð og því væntanlega til í fleiri eintökum. Hins vegar er ljóst af reynslu annarra þjóða og raunar okkar einnig að mjög áríðandi er að vera vel á verði í þessum efnum til þess að komast hjá uppljóstrunum um trúnaðarupplýsingar sem valdið gætu Íslandi alvarlegu tjóni. Er því stöðugt reynt að tryggja eftirlit innan rn. varðandi meðferð og vörslu trúnaðarskjala.