14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það sem hlýtur fyrst og fremst að vekja undrun í þessu sambandi er að gögn sem merkt eru trúnaðarmál af íslenskri ríkisstj. eru til fjölfölduð annars staðar með fullri vitund sömu aðila. Og þá víkjum við einnig að ritfrelsi í landinu: Nær það svo langt að ef dagblöð landsins komast yfir gögn sem merkt eru trúnaðarmál sé talið eðlilegt og sjálfsagt að það birti innihald slíkra gagna? Það hlýtur í það minnsta að eiga sér stað undir þeim kringumstæðum að viðkomandi aðilar telja sig þess umkomna að leggja á það mat hvort gögnin séu svo mikilvæg að þau teljist ríkisleyndarmál eða ekki. Ég tel að útbreiddasta blað landsins hafi engan siðferðislegan rétt til þess ef gögnin eru merkt trúnaðarmál íslenskrar ríkisstj. að birta þar stafkrók. Og mig undrar það ef hæstv. utanrrh. telur að það sé verjandi að viðhafa þau vinnubrögð að spyrja þann sem hefur komist yfir slík gögn hvort hann sé reiðubúinn til að gera grein fyrir því hvar hann hafi fengið þau og fái hann nei þá sé það mál úr sögunni.

Hitt má vel vera að þetta sé orðið það úrelt að merkja þetta sem trúnaðarmál að eðlilegt sé að svipta það þeim stimpli og heimila hverjum sem er að lesa það sem þar stendur og þá ber að sjálfsögðu að gera það. En hitt er ákaflega sérstæður réttur ef það er tilfellið að komist menn yfir skjöl merkt trúnaðarmál sé látið þar við sitja að spyrja þá hvar þeir hafi fengið þau og í annan stað að hægt sé að birta úr því glefsur til að auka sölu á viðkomandi blaði ákveðinn tíma en jafnframt ekkert gert, ekki nokkur skapaður hlutur gerður til að leiðrétta það eða staðfesta hvort þarna sé um þær upplýsingar að ræða að óeðlilegt sé að þær séu sviptar trúnaði. Ég tel nefnilega, herra forseti, að það sé alvarlegt mál ef við erum komnir með einhverja Treholta innan utanrrn. með fjölfölduð plögg í sínum vörslum sem eru merkt trúnaðarmál hjá utanrrn.