15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2858 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að vonast til þess að umr. endi ekki með ófriði einum saman, þær byrjuðu svo friðlega. En ég get ekki látið hjá líða að mæla nokkur orð, ekki síst vegna þess að ég átti svolitla aðild að því að koma þessu frv. á blað.

Lágar tekjur í landinu er nokkuð einkennandi fyrir þá umr. sem hér hefur orðið og þá ádeilni sem þessi frv. hafa orðið fyrir. Nú vil ég minna á það, eins og raunar öllum er ljóst, að það er enginn einn sem ber ábyrgð á of lágum launum of stórs hluta þjóðarinnar, hvorki núverandi né heldur fyrrverandi forusta Alþýðusambands Íslands né heldur núverandi eða fyrrverandi ríkisstj. Við berum auðvitað öll ábyrgð á því ástandi sem er. En þá er ekki óeðlilegt að menn spyrji sjálfa sig af hverju það stafar. Það væri kannske nærtækast að halda því fram að framleiðsluvörur þjóðarbúsins væru ekki nægilega verðmætar, það væri e.t.v. ekki nógu mikið til heildarskiptanna. Nú skal ég viðurkenna að launamunur er of mikill í þessu landi og á því berum við jafnframt ábyrgð öll saman. Það fer auðvitað ekki fram hjá neinum að hart hefur verið deilt á núv. ríkisstj. fyrir þann gífurlega launamun og fyrir of lágar tekjur, en ég vil þó minna á að hefði verðlag skrúfast áfram, svo sem líkur voru á á miðju síðasta ári, vita flestir í hvert gífurlegt óefni væri komið og að launamunurinn væri enn þá meiri en hann þó nú er. Þetta vitum við öll.

En mig langaði til að fara örfáum orðum, enda þótt það sé e.t.v. endurtekning frá 1. umr. um þetta mál, yfir þau stefnumið sem menn horfðu á þegar þessi frv. voru sett saman. Hávær umr. fjölmörg undanfarin ár um eyðslu fjár í nánast óþarfa hluti var e.t.v. það fyrsta sem gengið var út frá og menn höfðu í huga. Ég skal viðurkenna að menn eiga erfitt með að greina á milli og ákveða nákvæmlega hvað er þörf fjárfesting, hvað eru þörf kaup og hvað er óþarfi. En í mörgum tilvikum eru menn það hughraustir að geta ákvarðað það. Ég segi alveg hreint eins og er, að m.a. það sem ég hafði í huga við samningu þessa frv. var það, og ég hafði gert mér grein fyrir því, að stór hópur fólks hefur haft og á, þessi ríkisstj. hefur ekkert með það að gera, allnokkra fjármuni með höndum, endurnýjað bílana sína árlega a.m.k. og stækkað við sig sínar íbúðir. Mér þótti heldur viturlegt að stofna til einhverra þeirra ráðstafana sem hugsanlega mundu veita því fjármagni sem það fólk hefur með höndum með beinum hætti út í atvinnulífið og m.a. með þeim hætti að mynda bein áhugatengsl almennings og atvinnulífsins í landinu. E.t.v. var tilgangurinn með samningu þessara frv., a.m.k. í mínum huga, einmitt sá að leitast við að mynda bein áhugatengsl almennings og atvinnulífsins í landinu. Ég fór aðeins út í þetta við 1. umr. málsins, en ætla ekki að gera það frekar.

Ég vil leyfa mér að vona það, að þegar og ef fjárstreymi eykst með þessum hætti til atvinnulífsins, atvinnufyrirtækjanna verði þau betur í stakk búin, og ég vil gera þá kröfu, til að greiða hærri laun. Það hagræði sem ég vonast til að atvinnulífið hafi af þessum ráðstöfunum beint og óbeint vil ég að leiði af sér hærri laun. Og því ekki það?

Auðvitað þurfum við að stefna að því að auka umfang innlendrar framleiðslu í þjóðarbúskapnum.

Ég skal viðurkenna að það hefur ævinlega verið matsatriði hversu langt á að ganga að því er varðar frádráttarheimildir og því miður, eins og margoft hefur komið fram, þá er mjög örðugt að gera sér grein fyrir þeim tekjubreytingum sem leiðir hugsanlega af samþykkt þessa frv.

Hv. 8. þm. Reykv. vék að vísu orðum sínum að hæstv. fjmrh., en hann vék að því núna í umr., eins og hv. þm. gerði við 1. umr. málsins, hvar yrði fjárfest, hvaða hlutabréf menn keyptu, í hvaða fyrirtækjum yrði fjárfest. Þessu er aldeilis ómögulegt að svara. En ég vil minna á að vegna starfsmannasjóðanna eru heimildir nokkuð rúmar. Þar er um að ræða alls ekki eins ströng skilyrði, þ.e. gerð eru skilyrði um 3 millj. í hlutafé. Þar eru tækifæri til að fjárfesta í miklu minni fyrirtækjum. Hinar almennu frádráttarheimildir og hin almennu kaup, bein kaup, á hlutabréfum varða stærri fyrirtæki, þar sem hluthafar eru í það minnsta 100 og hlutafé 10 millj. Það liggur því í hlutarins eðli að fjölmargar tegundir atvinnurekstrar koma þarna til.

Mig langaði í örfáum orðum að víkja að þeim umsögnum sem bárust fjh.- og viðskn., annars vegar frá Alþýðusambandi Íslands og hins vegar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. sannleikurinn er sá, að þar er afskaplega lítið fjallað efnislega um þessi frv. Það kann að vera í fórum fjh.- og viðskn. Umsagnirnar eru nokkuð almenns eðlis og nokkuð afdráttarlausar, ég skal viðurkenna það, en mér finnst veikburða tilraun vera gerð til að ræða málið efnislega. Það er a.m.k. mitt viðhorf til umsagnanna.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir svo á einum stað, með leyfi forseta:

„Starfsmönnum skal einnig heimilt með skattfrelsi að kaupa hlutabréf í því fyrirtæki sem þeir starfa hjá í þeim fáu tilfellum þar sem slík bréf kunna að vera til sölu“.

Enn fremur segir: „Til að tryggja að slík starfsmanna fjárfesting fari ekki í rangan farveg er stjórn viðkomandi hlutafélaga tryggður fulltrúi í stjórn þess starfsmannasjóðs sem hlutabréfin kaupir“.

Til að tryggja að slík starfsmannafjárfesting fari ekki í rangan farveg. — Þetta er nokkuð neikvætt framsett hér. Ég held að það séu allir sammála um það, og ég skal vera viss um það, að allir starfsmenn sem kaupa hlutabréf eru því fylgjandi að fjárfesting fari ekki í rangan farveg vegna reksturs fyrirtækisins. Ég held að það liggi aldeilis í augum uppi. Og það atriði að í starfsmannastjórn sitji einn fulltrúi úr aðalstjórn félagsins er fyrst og fremst af þeim toga að mynda virkari tengsl þessa sjóðs við aðalstjórn fyrirtækisins, markmið og tilgang aðalfélagsins. Það er aðalatriðið í mínum huga varðandi fulltrúa aðalstjórnarinnar í starfsmannasjóðnum — a.m.k. var það í mínum huga þegar við settum þetta saman.

Enda þótt hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi farið yfir báðar þessar umsagnir og lesið þær samviskusamlega yfir og er það þakkarvert vil ég minna á síðustu málsgr. umsagnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þar sem sérstaklega er vikið að starfsmannasjóðunum og einmitt tekið fram að það sé mjög athyglisverð till. til úrlausnar á atvinnu- og efnahagsmálum. En það er engin tilraun — nú veit ég ekki um hvort fyrir liggja brtt., a.m.k. engin í umsögninni — gerð til þess að færa þetta þá til þess vegar sem menn geta sætt sig við. Menn segja að þetta sé mjög athyglisvert, en eru að því er virðist alls ekki tilbúnir að ræða það frekar efnislega og finnst mér það miður.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta, en vegna sérstakra aðstæðna taldi ég rétt að segja hér örfá orð.