16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

105. mál, viðhald á skipastólnum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Íslenskur sjávarútvegur á í mjög harðri samkeppni erlendis. Þær þjóðir sem við m.a. erum að keppa við, Norðmenn og Kanadamenn, hafa tekið ákvarðanir um að beina miklum fjárhæðum frá öðrum atvinnuvegum yfir til sjávarútvegsins. Íslenskir sjómenn og fiskverkendur keppa við þessa aðila á þeim grunni. Ef við til viðbótar þyngjum samkeppnisaðstöðuna sem því nemur að taka yfir á sjávarútveginn erfiðleika í íslenskum skipasmíðaiðnaði hljóta menn að gera sér grein fyrir því að með slíkri ákvarðanatöku værum við að slá því föstu að lífskjör hér skuli verða lakari en hjá þessum þjóðum.

Ég vil ekki skilja till. á þann veg að það sé vilji flm. að þannig sé að málum staðið. Ég vil skilja hana í ljósi setningar sem hér stendur: „Með þáltill. þessari er gengið út frá því að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að sem mest af viðgerðum og viðhaldi skipaflotans fari fram innanlands, enda verði sú þjónusta samkeppnisfær við erlenda aðila bæði hvað varðar verð og gæði.“ — Með þeirri forsendu er ég stuðningsmaður þáltill. Að henni brostinni treysti ég mér ekki til að styðja hana, þannig að ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að mér fannst hv. 5. þm. Austurl. fara allmikið út um víðan völl í sínum málflutningi.

Þau atriði aftur á móti sem ráða þá mestu um hvort íslenskur skipasmíðaiðnaður sé samkeppnisfær og sá þáttur sem íslensk stjórnvöld þurfa að gefa gætur eru:

Í fyrsta lagi gengisskráning íslensku krónunnar. Röng gengisskráning, of há, drepur að sjálfsögðu íslenskan iðnað jafnt á þessu sviði sem öðrum.

Viðskiptakjör, þ.e. hvernig er staðið að fjármögnun hjá innlendum skipasmíðaiðnaði, hlýtur að vera það sem stjórnvöld þar næst þurfa að bera fulla ábyrgð á að sé hliðstætt þeim aðbúnaði sem er hjá erlendum skipasmíðastöðvum, sem við keppum við.

Þriðja atriðið, sem hlýtur aftur á móti fyrst og fremst að vera verkefni eigenda stöðvanna og þeirra sem þar vinna — að sjálfsögðu geta innlend stjórnvöld haft þar áhrif á — er að tæknibúnaður og framleiðni, verkkunnátta, sé fullkomlega til jafns við það sem er í hinum erlendu stöðvum.

En ég hygg að okkur sé öllum ljóst að hér á landi er um allmikinn markað að ræða á þessu sviði, sem æskilegt væri að yrði markaður hinna innlendu skipasmíðastöðva — æskilegt væri, segi ég, vegna þess að ég vildi að þannig yrði þróunin. En ég er sammála því, sem fram hefur komið, að ég tel fráleitt að með viðskiptafjötrum eða þvingunum sé hægt að leysa þessi mál til farsældar fyrir íslensku þjóðina.