20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2990 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

196. mál, lausaskuldir bænda

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það var með vilja að ég lét hjá líða í ræðu minni áðan að taka afstöðu til þessa frv. Ég nefndi það aldrei einu aukateknu orði að ég væri andvígur þessu frv., heldur sagði þvert á móti að það gæti vel verið að það væri þörf á svona afgreiðslu. samt sem áður urðu viðbrögð formælenda frv. úr ýmsum flokkum eins og hér kom fram áðan.

Í 69. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta:

„Ef þm. ... ber ... einhvern þm. brigslyrðum, ... þá skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli, sem hann vítir.“

Mér leikur forvitni á því að vita, hæstv. forseti, hvort það teljist eðlilegur og æskilegur starfsháttur hér að tala þannig um starfsbræður sína í þinginu að þeir fái kast í ræðustól. Ég tók sérstaklega eftir því að hv. þm. Stefán Valgeirsson hafði þau ummæli um mig að ég hefði fengið kast í ræðustól og hæstv. forseti deildarinnar sá enga ástæðu til að víkja að þeim ummælum orði. Það kann vel að vera að herra forseta finnist þetta eðlilegur framgangsmáti, en mér finnst það ekki. Mér finnst að þetta sé ekki sá háttur sem langreyndur þm., eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson, mundi á hafa undir öllum kringumstæðum er hann ræddi um andstæðinga sína hér úr ræðustól, að undanteknu því að vísu ef menn leyfðu sér að ræða um landbúnaðarmál vegna þess að þá eru þetta þau viðbrögð sem gjarnan koma frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og hans nótum.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að eftir því sem ég hlustaði meira á menn gera grein fyrir máli sínu áðan eftir því vissi ég minna um efnisatriði málsins. Í 1. gr. þessa frv. stendur að bankavaxtabréfin, sem þar er um rætt, skuli notuð til að breyta í föst lán lausaskuldum bænda vegna fjárfestinga á jörðum þeirra o.s. frv.Svo koma menn hér upp og fullyrða að hér sé ekki um að ræða lausaskuldir t.d. vegna íbúðarhúsabygginga á bújörðum bænda: Ég veit ekki betur en t.d. á skattframtölum séu slíkar húsabyggingar taldar til fjárfestinga á viðkomandi jörðum. Og ég vil taka undir með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá svona atriði upplýst. Er það rétt að hér eigi ekki að falla undir lausaskuldir sem hafa til orðið vegna húsbygginga á jörðum eða á að taka þær lausaskuldir undir þessa skuldbreytingu, eins og ég tel að 1. gr. fjalli um?

Í öðru lagi kemur í ljós hjá hv. þm., Stefáni Valgeirssyni, að það virðist ekki vera rétt, sem kemur hér fram í grg. með frv., að áætlað sé að fjárþörfin sé um 150 millj. kr. Hann nefndi helmingi hærri tölu, 300 millj. kr. Hér virðist talsvert fara milli mála. Ég sé ekki hvernig Alþingi, sem er að afgreiða lánsfjárlög, getur gengið frá afgreiðslu svona máls án þess að þetta liggi fyrir.

Í þriðja lagi er því haldið fram að hér eigi aðeins að breyta lausaskuldum vegna fjárfestingar í föst lán. Það er ekki rétt. Hér stendur í 1. gr., með leyfi forseta: „... svo og lausaskuldum vegna jarðakaupa, véla-, bústofnsog fóðurkaupa á sama tíma.“ Eru ekki fóðurvörur rekstrarvörur eða tilheyra þær fjárfestingarvörum? Ekki héli ég að svo væri. M.ö.o. er ekki hægt að segja, eins og hér hefur verið haldið fram, að hér sé aðeins átt við lausaskuldir vegna fjárfestinga. Hér er líka átt við lausaskuldir sem til hefur verið stofnað vegna kaupa á rekstrarvöru, eins og fóðurvörur eru. Eitt rekur sig því á annars horn í ummælum þeirra manna sem hér hafa talað. Ég held að ég verði að snúa við skeytum þeirra til mín. Þeir ættu sjálfir að kynna sér betur og lesa betur efni þess frv. sem þeir eru að fjalla um.

Enn langar mig til að nefna að ég hef enga skýringu fengið á því hjá hæstv. landbrh. hvort einhver fordæmi séu þess að ákvörðun um lánakjör eins og hér um ræðir skuli tekin í samráði við fulltrúa lántakenda. Ég vil upplýsa hæstv. ráðh. um að í lögunum frá 1979, þar sem skuldbreytt var frá og með árinu 1970 til og með árinu 1979, var stjórn veðdeildar Búnaðarbanka Íslands látin alveg einráð um að ákveða lánakjörin á þeim lánum sem hún átti að veita. Í þeirri lagagrein var ekkert ákvæði um að auk stjórnar veðdeildarinnar ættu fulltrúar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands að taka þátt í að ákveða lánakjörin. Ég spurði hvort eitthvert fordæmi væri fyrir slíku og ég hef ekkert svar fengið við því.

Það er alveg rétt að þessir fulltrúar taka þátt í ákvörðun á lánakjörum lána sem Stofnlánadeild landbúnaðarins veitir. En þetta eru ekki lán sem Stofnlánadeild landbúnaðarins á að veita. Þetta eru lán sem veðdeild Búnaðarbanka Íslands, sem er allt önnur stofnun, á að veita. Ég veit ekki til þess að það sé nokkurt fordæmi fyrir því, þegar svona afgreiðslur eru gerðar, að fulltrúar lántakenda séu til kvaddir til að taka ákvarðanir með öðrum um lánakjörin. Og ég vil eindregið ítreka spurningu mína til hæstv. landbrh.: Getur hann nefnt okkur einhver fordæmi?

Enn langar mig til að vekja athygli hv. alþm. á því að auðvitað er ég ekki að segja með ábendingum mínum að hér standi til að breyta lausaskuldum bænda vegna ferðalaga þeirra til sólarlanda o.s.frv. í föst lán. Það er algjör tilbúningur hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. En við skulum setja orðið „launamaður“ í staðinn fyrir orðið „bóndi“ í 1. gr. frv. Þá kæmi í ljós, ef launamaður ætti í hlut, að launamanni væri heimilað að breyta í föst lán öllum lausaskuldum sem hann kynni að hafa stofnað til s.l. 14 ár vegna fjárfestingar í íbúðarhúsnæði, ekki bara vegna íbúðarkaupa og bygginga, heldur vegna allra endurbóta og viðgerða sem þar hefðu farið fram, og auk þess breyta í föst lán öllum kaupum á fjárfestingarvörum vegna heimilishalds. Og ég spyr: Ef hinn almenni launamaður mundi fá þetta, ætli væri þá mikið af lausaskuldum eftir sem hann gæti ekki risið undir? Menn skyldu hugleiða það. (SV: Er þetta hliðstætt?) Þetta er algerlega hliðstætt, herra þm., og mál mitt byggist á því einu að Alþingi svari þeirri einföldu spurningu, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni hér áðan: Eru stjórnvöld ekki reiðubúin að leyfa öllum aðilum, án tillits til þess hvaða starfsheiti þeir bera, að njóta jafns réttar fyrir lögum?

Ég held að enginn geti um það deilt við mig að það er ekki síður þörf á því að fólkið sem er að missa íbúðirnar sínar, fólkið sem aðeins telst hafa tekjur af launaðri vinnu, það getur enginn með réttu haldið öðru fram, þurfi ekki sambærilega fyrirgreiðslu og stjórnvöld ætla nú að veita bændastéttinni. Ég ítreka að ég ætla ekki um það að fjalla í mínu máli hvort meiri eða minni nauðsyn sé á þessari skuldbreytingu fyrir bændur. Ég vil aðeins að hv. Alþingi gefi öllum þegnum þjóðfélagsins sömu tækifæri, þannig að allir séu jafnir fyrir lögunum.