21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum um að teygja þessa umr. ekki um of svo að hægt verði að afgreiða þetta mál. Við Bandalagsmenn erum aðilar að flutningi þessarar þáltill. og við stöndum auðvitað heilshugar að henni enn þó þessar fregnir hafi borist um samningana í morgun. Ég held raunar að það þurfi ekki að koma neitt sérstaklega á óvart. Þarna hafa verið stundaðar veiðar að undanförnu og það hljóta að verða stundaðar veiðar þar áfram. Þetta er lifibrauð þeirra þjóðar sem þarna býr, og það er vandséð hvað við getum gert í þessu annað en að sinna okkar hluta af þessu máli, sem er m.a. það að standa við 63. gr. Hafréttarsáttmálans um gagnkvæm samskipti, gagn­kvæm samráð þeirra þjóða sem eiga sameiginlega fiskstofna. Það er náttúrlega sá grundvöllur sem við verðum að undirbyggja þannig að við getum kinnroða­laust þegar aðstæður leyfa næst, tekið upp samskipti um þessi mál.

Það er ljóst að samkvæmt Hafréttarsáttmála á að ríkja gagnkvæm tilkynningarskylda og samráð milli Íslend­inga og Grænlendinga eða þeirra umboðsmanna um veiðar á þessum fiski. Við Íslendingar höfum ákveðinn orðstír í verndunarmálum fiskistofna og það er okkar að gæta hans. Það er hollt að líta í eigin barm og athuga hvort við höfum fylgt þeim reglum sem við viljum að aðrir fylgi. Það hafa komið hér fram athyglisverðar upplýsingar um veiðimagn á karfa.

Úr því sem komið er held ég að við getum lítið annað gert en að reyna að stuðla að sem mestri samvinnu þeirra þjóða sem þarna eiga hlut að máli og búa við þessi hafsvæði, eins og kemur fram í þáltill. Við skulum reyna að ganga á undan með góðu fordæmi með því að gæta okkar fiskistofna og gefa grönnum okkar aðgang að ákvörðunum í veiðimálum. Við skulum einnig um­fram allt miðla Grænlendingum af okkar reynslu í útgerð, fiskvinnslu og landbúnaði ef þeir vilja okkar reynslu þiggja. Menn geta kannske af umræðum undan­farinna missera efast eitthvað um það eða velt fyrir sér hvað þeir eigi hingað að sækja. Þeir geta kannske hjálpað okkur að finna rekstrargrundvöllinn.

Ég held að það sé í raun engu við það að bæta sem hér hefur komið fram. Við skulum samþykkja þessa till. og reyna að standa við okkar hlut af því sem þar er farið fram á. Það er kannske fróðlegt líka í framhaldi af þessu að velta því fyrir sér að það er erfitt að stunda veiðar við Austur-Grænland án þess að sækja þjónustu á íslenskar hafnir. Það kann því svo að fara ef um verður að ræða aukna sókn á þessu svæði, að við fáum eitthvað meira af þessum skipum að vita heldur en undanfarið.