22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3093 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég fór fram á það við hæstv. forseta áður en fundi var frestað að hann sæi til þess að hinn raunverulegi fjmrh. landsins, sem kominn er til Íslands og lét hafa við sig viðtal í útvarpsfréttum kl. rúmlega 7, kæmi hingað til fundar í hæstv. Nd. Ég get fyrir mitt leyti fallist á að því verði frestað til morguns að ræða þessi mál. Þó held ég að rétt sé að ítreka að það er á þeim grundvelli að þær umr. verði þegar í upphafi fundar í Sþ., en ekki eins og stundum hefur verið tíðkað, að umr. utan dagskrár eru á fimmtudögum hafnar kl fimm, hálfsex eða jafnvel sex á fundum í Sþ., þannig að hvorki gefst þá nægilegur tími til að ræða málin né heldur tækifæri fyrir fjölmiðla að ganga frá eðlilegri frásögn af umr. næsta dag. Ég vil því láta það koma fram að ég skil það samkomulag sem hér hefur verið gert á þann veg að við munum kveðja okkur hljóðs utan dagskrár, einhver úr okkar hópi, í upphafi fundar í Sþ. og beina þeim spurningum sem við höfum hér borið fram til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.