23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3116 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Að morgni s.l. þriðjudags óskuðu samninganefndir Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands eftir fundi með mér um þá samninga sem þá voru í gangi. Sá fundur var haldinn þann morgun og sat þann fund ásamt mér Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., og efnahagssérfræðingarnir Jón Sigurðsson og Þórður Friðjónsson. Á þessum fundi kynntu fulltrúar vinnumarkaðarins þá samninga sem í burðarliðnum voru. M.a. kynntu þeir og óskuðu eftir sjálfir að ríkisstj. hefði þau afskipti af þessum samningum að fært yrði fjármagn innan ramma fjárlaga til þeirra sem lökust kjör hafa skv. þeirri athugun sem kjararann­sóknanefnd hafði fyrir nokkru gert.

Þetta mál var síðan rætt á ríkisstj.-fundi strax á eftir og ákvað ríkisstj. að verða við þeim tilmælum. Skrifaði ég í framhaldi af því Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands bréf það sem hv. fyrirspyrj­andi, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur hér lesið. Í raun og veru lít ég svo á að bréf þetta skýri sig að fullu sjálft. Í þessu bréfi er fallist á í meginatriðum þær hugmyndir sem þessir aðilar höfðu sett fram um tilfærslu fjármagns innan fjárlaga til láglaunafólks og því heitið að ríkisstj. sé tilbúin til viðræðna við þessa aðila um slíka tilfærslu. Því svara ég fyrstu spurningu hv. þm. að engin ákvörð­un hefur verið tekin um það hvaðan þetta fjármagn verður fært. Það mun ríkisstj. að sjálfsögðu athuga og eiga um samráð við aðila vinnumarkaðarins.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að á þessum fundi var minnst á niðurgreiðslur. Það gerðu aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúi Vinnuveitendasambands Ís­lands. Því var ekki andmælt af fulltrúum Alþýðusam­bands Íslands en bent á að fleira kæmi til greina eins og t.d. útflutningsuppbætur. Ég get reyndar getið þess að aðilar hafa nefnt að vel komi til greina að tekjutengja barnabætur þær sem nú eru veittar og færa þannig frá hátekjufólki til lágtekjufólks. Allt þetta mun að sjálf­sögðu athugað, og ég endurtek, í fullu samráði við þá aðila vinnumarkaðarins sem að þessu samkomulagi standa.

Í 2. mgr. samþykktar ríkisstj. og þess bréfs sem ég ritaði kemur fram að það er eindreginn skilningur ríkisstj. að umrætt samkomulag muni stuðla að heildar­samningum á vinnumarkaði, þ.e. á milli aðildarfélaga Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands. Þessi skilningur er að sjálfsögðu byggður á því sem kom fram á umræddum fundi. Ríkisstj. lítur á þennan skilning sem mikilvægan þátt og grundvallar­atriði í samþykkt ríkisstj. Bregðist þetta mun ríkisstj. taka þessa samþykkt til endurskoðunar. Ég vona að það bregðist ekki og það þurfi ekki. En ef aðstæður á markaðnum breytast með því að samningurinn er felldur af einstökum félögum hlýtur ríkisstj. að skoða afstöðu sína til málsins í heild.

Út af fsp. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar vil ég segja í fyrsta lagi um ellilífeyrisþega að ríkisstj. mun vissulega ekki gleyma gamla fólkinu. Þegar hefur verið um það rætt að að sjálfsögðu verði að veita því úrbætur þótt þess sé ekki sérstaklega getið í þeim hugmyndum sem fram voru lagðar fyrir ríkisstj.

Í öðru lagi vil ég taka fram út af vísitölufrv. að ríkisstj. ákvað þegar hún tók við í maí að rétt væri að innleiða nýrri vísitölugrundvöll en við höfum notað til þessa og er orðinn hátt í 20 ára gamall. Þetta hefur lengi verið til umr. og segja má að það hafi tafist vegna þess að ríkisstj. taldi sjálfsagt að ræða þetta við aðila vinnumarkaðarins. Því kynnti hæstv. viðskrh. frv. fyrir kauplagsnefnd og eftir að það hafði verið rætt hjá Alþýðusambandi Íslands og eftir að ábendingar höfðu fram komið hjá fulltrúum í kauplagsnefnd um breyting­ar á frv. var ákveðið að leggja það fram. Ég lít svo á að um þetta hafi verið haft fullt samráð og get auk þess getið þess að áður hafði ég kallað fulltrúa ASÍ á minn fund til að gera þeim grein fyrir þessari áætlun ríkisstj.

Ég vil svo segja almennt um þann ramma sem menn hafa talað um að hafi verið sprengdur að mér sýnist það á töluverðum misskilningi byggt. Þegar ríkisstj. ákvað sitt efnahagsprógramm í upphafi síns starfsferils var gert ráð fyrir því að ná verðbólgu úr 130% niður í um 30% um síðustu áramót. S.l. október þegar ríkisstj. birti sína efnahagsáætlun fyrir það ár sem nú er var talað um að komast úr þessum 30% niður í 10% í lok þessa árs, sem hefði þýtt, eftir því hve hratt hefði gengið í upphafi, verðbólgu frá upphafi til loka ársins um það bil 15%.

En nú fór svo að töluvert meiri árangur náðist í lok síðasta árs en talið var að nást mundi. Verðbólgan varð um 15% í lok ársins í stað 30% og verðbólgan nú er um 10% skv. mati bæði Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka. Við höfum orðið fyrir nokkrum skakkaföllum með þorskafla og því var talið að aðeins rúmuðust 4% meðallaunahækkanir frá desemberverðlagi. Það er út af fyrir sig óbreytt. En miðað við að betri árangur náðist í lok ársins en áður var talið benti margt til þess að verðbólga í lok ársins með 4% launahækkun yrði aðeins um 7–8% í staðinn fyrir 10%, það næðist sem sagt meiri árangur. Ég get getið þess að í mjög nýlegum áætlunum Seðlabankans er áætlað að framfærsluvísitala 4 síðustu mánuði þessa árs með 4% hækkun launa hefði orðið 0.6.

Það sem í raun og veru hefur gerst með þeim samningum sem nú fara nokkuð fram úr og þýða meðalhækkun launa frá desemberverðlagi upp á um það bil 6.5% þýðir að við verðum að öllum líkindum í lok ársins með u.þ.b. 10% verðbólgu í staðinn fyrir 7–8% sem við hefðum kannske annars náð. Við erum því raunar alveg á því sem ríkisstj. setti sér.

En vegna þess að verðbólga komst töluvert neðar í lok þessa árs en áætlað var verður verðbólga frá upphafi til loka ársins engu að síður að mati Þjóðhagsstofnunar líklega um 11–12%. En ég vil þó geta þess að Vinnuveitendasamband Íslands áætlar að verðbólga verði frá upphafi til loka árs um 10% þrátt fyrir þessa samninga. Þessir samningar munu hins vegar setja aukinn þrýsting, einkum á viðskiptajöfnuð. Áætlað var að viðskiptajöfnuður mundi verða neikvæður í ár um -1% en gæti orðið, að mati Þjóðhagsstofnunar, eitthvað nærri -1.5%. Þó fer það mjög eftir því í fyrsta lagi hvernig viðskiptakjör þróast og í öðru lagi hvað veiðist mikið af loðnu og hvað fæst fyrir þær afurðir. Þannig er lögð rík áhersla á af þeim sérfræðingum sem um þessi mál fjalla að verið er að reikna hárfínt og reyndar utan þeirra skekkjumarka sem felast í slíkum reikningum.

Ég vísa því á bug að þessir samningar út af fyrir sig brjóti þann upphaflega ramma eða þá efnahagsáætlun sem ríkisstj. setti sér en við höfum tvímælalaust náð enn lengra í hjöðnun verðbólgu ef samningar hefðu verið nær 4% sem ég hef að mörgu leyti talið æskilegt.

Að lokum spurði hv. þm. Kjartan Jóhannsson um afstöðu mína til samninga við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Ríkisstj. hefur ekki fjallað um þá samninga eftir að sú staða er komin upp sem nú er og ég get því ekki lýst afstöðu ríkisstj. og er ekki reiðubúinn að lýsa minni afstöðu. Þetta verður að sjálfsögðu rætt á næstu dögum. En vitanlega er öllum ljóst að þeir almennu samningar, sem gerðir hafa verið á vinnu­markaðinum, hljóta að hafa veruleg áhrif á þá samn­inga, sem gerðir verða við BSRB, en það mál er ekki rætt innan ríkisstj. enn.