23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2712)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í upphafi þessarar umr. kvaddi sér hljóðs hv. 7. þm. Reykv. og beindi tilteknum spurningum til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. hefur enn ekki séð ástæðu til að svara þessum spurningum. Ég teldi eðlilegt að til þess að umr. gæti haldið áfram með eðlilegum hætti væri ráðh. þegar í stað knúinn til að svara þeim spurningum sem til hans var beint. Ég skora á hæstv. forseta að hvetja nú hæstv. fjmrh. til þess að stíga í stólinn þannig að hann geti gert grein fyrir svörum við þeim spurning­um sem þegar hefur verið beint til hans. Ég tel að það sé algerlega óeðlilegt að hæstv. fjmrh. sitji á þrymli í allan dag án þess að taka afstöðu til þeirra mála sem beint hefur verið til hans.