24.02.1984
Neðri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

176. mál, skipan opinberra framkvæmda

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég er sammála því að brýnt er að auka útboð opinberra framkvæmda og það er ekkert vafaatriði að eigi að nýta betur það fjármagn sem varið er til framkvæmda á vegum ríkisins er sú aðferð skilvirkust að auka útboðin. Hins vegar vil ég leiðrétta þann misskilning, sem mér fannst koma fram í ræðu hv. flm., að það væri lögunum að kenna eða þm. að ekki væri meira boðið út. Það er að hengja bakara fyrir smið. Það er ekkert í lögunum sem kemur í veg fyrir að þannig sé að málum staðið. Það eru ráðherrar í hinum ýmsu greinum sem hafa brugðist, hafa ekki séð til þess að andi laganna væri framkvæmd­ur, og það hefur verið vitað að stofnanaveldið hefur snúist gegn því að standa að útboðunum eins og stofnunum er ætlað að gera skv. anda laganna.

Ég tel að brýnt sé að ná árangri með auknum útboðum. Það blasir aftur á móti við að viss aðlögun þarf að eiga sér stað. Það þarf að gæta þess hvernig að útboðum er staðið, m.a. að hvert útboð fyrir sig sé ekki óþarflega stórt. En hitt, að þingmenn hafi verið til vandræða á þessu sviði, er nokkuð sem ég get ekki trúað að eigi við rök að styðjast. Ég vil spyrja t.d. um brúarsmíði hjá Vegagerðinni: Ætli það séu menn úr hinum ýmsu kjördæmum sem vinni við þær fram­kvæmdir? Ég veit ekki betur en þeir komi flestir héðan og séu settir inn í áhaldahúsin yfir vetrartímann, í það minnsta þeir sem stjórna verkunum. — En ég vil ekki leggja höfuðáherslu á að della um þetta, heldur hitt, að ég vil taka undir það að við þurfum að auka útboð í verklegum framkvæmdum og mér finnst að ráðherrar eigi að framkvæma það og geti framkvæmt það eftir lögunum og það fari ekkert á milli mála að það er óeðlilegt ef styrkleiki embættismannavaldsins er sá að menn geti skotið sér undan því að framkvæma það sem tvímælalaust er andi laganna eins og þau eru nú.